Nýstofnað félag, Eyjagöng ehf., boðar til opinna kynningarfunda í Vestmannaeyjum og á Hvolsvelli til að kynna rannsóknarverkefni sem snýr að mögulegri jarðgangatengingu milli Vestmannaeyja og meginlandsins.
Félagið var stofnað til að leiða ítarlegar jarðrannsóknir á svæðinu, sem taldar eru eitt mikilvægasta rannsóknarverkefni samgöngumála á Suðurlandi í áratugi. Tilefni stofnunarinnar er niðurstaða starfshóps á vegum samgönguráðuneytisins frá árinu 2024, en þar var lögð áhersla á að ítarlegar jarðrannsóknir væru forsenda þess að hægt væri að taka upplýstar ákvarðanir um framtíðarsamgöngutengingu lands og Eyja.
Markmiðið er fagleg ákvarðanataka
Að Eyjagöngum ehf. standa einstaklingar, fyrirtæki og sveitarfélög sem sameinast um að skapa gagnsæjan grunn fyrir áframhaldandi vinnu. Með heildstæðum rannsóknum er stefnt að því að draga úr óvissu um tæknilega framkvæmd, umfang og kostnað þessa stóra innviðaverkefnis.
Kynningarfundirnir verða sem hér segir:
Vestmannaeyjar: Fimmtudaginn 15. janúar kl. 20:00
Hvolsvöllur: Þriðjudaginn 20. janúar kl. 20:00
Á fundunum verður farið yfir markmið félagsins, mikilvægi jarðrannsókna og næstu skref í vegferðinni. Öll áhugasöm eru hvött til að mæta og kynna sér þetta viðamikla hagsmunamál Suðurlands.
