Föstudaginn 5. desember síðast liðinn, komu fulltrúar ungmennaráða víðs vegar af landinu saman á Hilton Reykjavík Nordica. Tilefnið var vegleg ráðstefna ungmennaráða sveitarfélaga sem haldin var í tengslum við 80 ára afmæli Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þar gefst mikilvægt tækifæri til að efla samráð, lýðræði og áhrif ungs fólks á nærsamfélagið.

Markmið ráðstefnunnar var að efla rödd ungmenna í sveitarstjórnarstarfi og skapa vettvang fyrir nýjar hugmyndir og samstarf. Dagskráin var þétt og fjölbreytt, þar sem fjallað var um allt frá fjármálum sveitarfélaga til bestu starfsvenja ungmennaráða.

SASS styrkir tengslin

Hugrún Harpa Reynisdóttir, byggðaþróunarfulltrúi á Höfn, sat ráðstefnuna fyrir hönd SASS. Samtökin halda utan um starf Ungmennaráðs Suðurlands og leggja mikla áherslu á að efla lýðræðislega þátttöku ungs fólks í landshlutanum. Viðvera Hugrúnar var liður í því að styrkja tengslin við ungmennaráðin og sækja nýja þekkingu sem nýtist í starfi SASS með ungmennum á Suðurlandi.

Hrunamannahreppur kynnir barnvænt samfélag

Sunnlendingar létu sitt ekki eftir liggja á ráðstefnunni. Sérstaka athygli vakti að Ungmennaráð Hrunamannahrepps var á meðal þeirra sem héldu erindi. Fulltrúar ráðsins kynna vegferð sína og reynslu af innleiðingu á Barnvænu samfélagi. Er það frábært dæmi um hvernig sveitarfélög vinna markvisst að því að tryggja réttindi barna og ungmenna. Auk Hrunamannahrepps kynna fulltrúar ungmennaráða Hafnarfjarðarbæjar og Reykjanesbæjar sín verkefni.

Lýðræði og framtíðarsýn

Ráðstefnan bauð einnig upp á vinnusmiðjur þar sem þátttakendur ræddu komandi sveitarstjórnarkosningar og mikilvæg málefni sem brenna á unga fólkinu. Þá kynntu sérfræðingar frá Rannís styrkjamöguleika og tækifæri ásamt því að UNICEF hélt áfram með umræðuna um „Barnvæn sveitarfélög“ í alþjóðlegu samhengi.

SASS fagnar þessum vettvangi og er ljóst að framtíð sveitarstjórnarmála byggir á virkri þátttöku unga fólksins.