Stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga hefur samþykkt tillögur fagráða um haustúthlutun Uppbyggingarsjóðs Suðurlands 2025. Alls var 42 milljónum króna úthlutað til 49 fjölbreyttra verkefna á sviði atvinnuþróunar, nýsköpunar og menningar. Umsóknir voru margar og fjölbreyttar sem vitnar um mikla grósku og sköpunarkraft í landshlutanum.
Uppbyggingarsjóður Suðurlands gegnir lykilhlutverki í að styðja við verkefni sem efla byggð, atvinnulíf og menningu á svæðinu. Að þessu sinni bárust samtals 132 umsóknir og var sótt um stuðning að heildarfjárhæð rúmlega 197 milljónir króna. Ljóst er að eftirspurnin er langt umfram það fjármagn sem sjóðurinn hefur til umráða, en úthlutað var um 21% af þeirri upphæð sem sótt var um.
Atvinnuþróun og nýsköpun
Í flokki atvinnuþróunar og nýsköpunar bárust 48 umsóknir fyrir rúmlega 102 milljónir króna. Fagráð lagði til að 12 verkefni hlytu styrk og var heildarúthlutun í flokknum 20,8 milljónir króna. Verkefnin sem hlutu brautargengi eru af ýmsum toga og endurspegla áherslu sjóðsins á nýsköpun sem skapar verðmæti í landshlutanum.
Þrjú verkefni hlutu hæsta styrkinn í þessum flokki, 2,5 milljónir króna hvert:
- Varp ehf. – TónÆði: Verkefnið felur í sér þróun að aðgengilegum kennslu- og samspilsmyndböndum sem stuðlar að jafnara aðgengi grunn- og tónlistarskóla að vönduðu námsefni í tónmennt óháð staðsetningu. Með nýsköpun í framsetningu og dreifingu er tæknin nýtt til að styðja við skólastarf um allt land. Námsefnið verður aðgengilegt öllum án endurgjalds á TónÆði.is.
- Jörth ehf. – Jarðgerlar: Verkefnið miðar að þróun og tegundagreiningu íslenskra jarðgerla með það að markmiði að finna og velja efnilega stofna til notkunar í bætiefni og heilsuvörur Jörth.
- Benedikt Lárusson – Bjórgerð, bakstur og veitingar: Stofnun brugghúss sem mun einnig bjóða upp á nýbakað brauð, kökur og veitingar. Mikil áhersla verður lögð á að hráefnið komi úr héraði eins og mögulegt er.
Menning
Í flokki menningar bárust 84 umsóknir þar sem sótt var um tæplega 95 milljónir króna. Af þeim lagði fagráð til að 37 verkefni hlytu styrk og nam heildarúthlutun í flokknum 21,2 milljónum króna. Menningarverkefnin spanna allt frá viðburðum og hátíðum til listsköpunar sem auðgar mannlíf og samfélag á Suðurlandi.
Hæstu styrkina í flokki menningar og samfélags hlutu:
- Sinfóníuhljómsveit Suðurlands (1,5 m.kr.): Hljómsveitin mun halda stórtónleika í tilefni 70 ára afmælis tónskáldsins Björgvins Þ. Valdimarssonar. Flutt verða ný hljómsveitarverk eftir Björgvin og munu einsöngvarar og fjöldi sunnlenskra kóra taka þátt í að fagna verkum tónskáldsins sem hefur markað djúp spor í tónlistarlíf svæðisins.
- Halldór Smárason – Hverafugl (1,0 m.kr.): Ný tónlistarhátíð í Hveragerði sem haldin verður í fyrsta sinn í júní 2026. Hátíðin býður upp á fjölbreytta dagskrá með klassískri tónlist og samtímatónlist, myndlist og gjörningum víðs vegar um bæinn.
- Bókasafn Árborgar – Stefnumót við íslenskuna (900 þús. kr.): Verkefni sem stuðlar að inngildingu með vikulegum „stefnumótum“ þar sem fólk eflir íslenskukunnáttu sína á óformlegan og skemmtilegan hátt. Markmiðið er að skapa tengsl milli móðurmálsnotenda og fólks af erlendum uppruna og auka sjálfstraust í tungumálinu.
Mikilvægur stuðningur við samfélagið
SASS óskar öllum styrkþegum innilega til hamingju með árangurinn. Mikill fjöldi vandaðra umsókna barst sjóðnum og þakka samtökin öllum umsækjendum fyrir þann metnað sem lagður er í verkefnin. Ljóst er að Uppbyggingarsjóðurinn er mikilvægt hreyfiafl á Suðurlandi og hvetur SASS áhugasama til að fylgjast með úthlutun næsta árs sem auglýst verður síðar.
Hér má nálgast lista yfir alla styrkþega í haustúthlutun 2025



