Stjórnendum ferðaþjónustufyrirtækja í uppsveitum Árnessýslu er boðið til skemmtilegs og upplýsandi morgunfundar fimmtudaginn 11. desember næstkomandi. Fundurinn fer fram í Vínstofu Friðheima og er markmiðið að efla tengslanet, miðla upplýsingum og eiga gott spjall.

Boðið nær til stjórnenda ferðaþjónustufyrirtækja í Bláskógabyggð, Hrunamannahreppi, Grímsnes- og Grafningshreppi og Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Áhersla er lögð á létt og persónulegt andrúmsloft þar sem þátttakendur fá tækifæri til að kynnast betur og fá innsýn í það sem er að gerast í ferðaþjónustunni á svæðinu.

Samtal og samstarf í forgrunni

Rakel Theodórsdóttir, byggðaþróunarfulltrúi Uppsveita Árnessýslu, stendur fyrir fundinum ásamt Dórótheu Ármann, framkvæmdastjóra Vínstofunnar í Friðheimum. Rakel segir mikilvægt að skapa vettvang fyrir samtalið á svæðinu:

„Okkur langar að skapa vettvang þar sem við hittumst, spjöllum saman og tengjumst. Það er mikill kraftur í ferðaþjónustunni hér og dýrmætt að fá aukna innsýn í það sem er að gerast hjá okkur öllum. Saman erum við svo miklu sterkari í að byggja upp þennan flotta áfangastað sem Uppsveitir Árnessýslu eru“ segir Rakel.

Dagskrá og skráning

Fundurinn hefst klukkan 9:30 og stendur til 11:30. Á dagskrá eru tvær stuttar kynningar:

  • Rakel Theodórsdóttir, byggðaþróunarfulltrúi Uppsveita, kynnir sig og starfsemi sína.
  • Starfsfólk Markaðsstofu Suðurlands segir frá hlutverki hennar og helstu verkefnum sem snúa að uppbyggingu áfangastaðarins.

Vínstofa Friðheima býður upp á ljúffengar veitingar til að ylja gestum þennan desembermorgun. Til að hægt sé að áætla magn veitinga er nauðsynlegt að skrá sig á fundinn.

Skráning fer fram hér

Viðburðurinn á Facebook

Við hvetjum stjórnendur til að nýta þetta tækifæri til að styrkja tengslanetið og eiga góða stund saman.