Verkefnastjóri SASS var meðal u.þ.b. 80 þátttakenda á vel sóttri ráðstefnu, „Lykilfólk í barnamenningu“. Ráðstefnan var samstarfsverkefni „List fyrir alla“ og Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi og var haldin í Golfskálanum Leyni á Akranesi nýverið. Ráðstefnan einkenndist af fjölbreyttum, fræðandi erindum og lifandi umræðum.
Jöfn tækifæri óháð búsetu
Málþingið var formlega opnað af menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra. Í ávarpi sínu ræddi ráðherra mikilvægi barnamenningar í víðu samhengi, hlutverk stjórnvalda og þörfina á því að tryggja jöfn tækifæri barna til að njóta menningar, óháð búsetu.
Metnaðarfull verkefni og fagþekking
Á dagskránni voru kynnt fjölmörg metnaðarfull verkefni sem unnin eru víða um land. Kynningarnar spönnuðu allt frá listnámi barna, menningarleiðum, skapandi skólastarfi, þátttöku barna í menningarviðburðum og fjölmenningarstarfi til stafrænna lausna og skapandi skólastarfs. Áberandi var hversu mikill kraftur, hugsjón og fagþekking er til staðar innan hópsins.
Samgöngur og ójafnt framboð eru helsta hindrunin
Samkvæmt nýrri viðhorfskönnun sem kynnt var á ráðstefnunni er helsta hindrun þess að börn geti notið menningar á sínu svæði eftirfarandi:
– Samgöngur og kostnaður
– Skipulag og tímasetningar
– Ójafnt framboð eftir landshlutum
Einnig kom fram að miðlun upplýsinga til kennara stöðvast stundum hjá stjórnendum innan skólakerfisins.
Mikilvægi sjóða og betri miðlunar
Til að bregðast við þessum áskorunum var lögð áhersla á nauðsyn þess að koma á miðlægum gagnagrunni þar sem upplýsingar um barnamenningu séu aðgengilegar öllum.
Enn á ný kom fram hve mikilvægur Uppbyggingarsjóður landshlutanna er fyrir þróun barnamenningar, ásamt Barnamenningarsjóði sem opnar fyrir umsóknir á ný í janúar. Ljóst er að ráðstefnan gegnir mikilvægu hlutverki við að skapa tengingar og styrkja samstarf fagfólks um framtíð barnamenningar á Íslandi.

Hópavinna hjá lykilfólki í barnamenningu

Felix Bergsson hefur mikla þekkingu á barnamenningu
