Háskólafélag Suðurlands og Samtök sunnlenskra sveitarfélaga hafa undirritað samning að fjárhæð 2,5 milljónir króna vegna áhersluverkefnisins „Nýsköpunarstefna fyrir Suðurland“. Verkefnið, sem styrkt er af Sóknaráætlun Suðurlands, felur í sér að Háskólafélagið leiði mótun heildstæðrar stefnu til að samræma og efla nýsköpunarstarf í landshlutanum.
Meginhlutverk Háskólafélags Suðurlands er að auka búsetugæði með því að færa menntun, rannsóknir og nýsköpun nær Sunnlendingum, í samstarfi við samfélagið.
Stór hluti er að hlusta og skilja tækifæri og áskoranir
Ingveldur Sæmundsdóttir, framkvæmdastjóri Háskólafélags Suðurlands, segir verkefnið þurfa að byggja á sérstöðu Suðurlands.
„Við hjá Háskólafélaginu erum stolt af því að leiða þetta mikilvæga verkefni. Hlutverk Háskólafélags Suðurlands er að skapa ný tækifæri, opna á möguleika fólks að sækja sér aukna menntun, vera leiðandi í nýsköpunarstarfi á Suðurlandi og hvetja atvinnulíf og fyrirtæki til þátttöku í nýsköpunarverkefnum.“
Ingveldur bætir við að stór hluti vinnunnar við að setja fram stefnu sé ekki síst að hlusta og skilja hvaða tækifæri eru að opnast og hverjar áskoranir eru næstu ára.
„Nýsköpunarstefna verður vonandi lykilþáttur í að auka búsetugæði svæðisins og við viljum virkja það frumkvæði sem hér er til staðar meðal íbúa, fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga. Með því að sameina krafta allra lykilaðila fáum við skýra og samræmda sýn til framtíðar um hvernig nýsköpun getur leitt til aukinnar verðmætasköpunar.“
Víðtækt samstarf lykilaðila
Vinnan við stefnumótunina hefst strax í desember á þessu ári. Hún felst meðal annars í að kalla saman alla helstu hagsmunaaðila í nýsköpunarumhverfi Suðurlands á vinnustofu.
Þar munu meðal annars koma að borði fulltrúar frá FabLab, frumkvöðlasetrunum, Ölfus Cluster, Orkídeu, þekkingarsetrum á svæðinu auk byggðaþróunarfulltrúa SASS, Atorku, Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) og fleiri. Markmiðið er að móta stefnu sem sveitarfélög, fyrirtæki og stofnanir geta unnið eftir.
Ingunn Jónsdóttir, framkvæmdastjóri SASS, segir verkefnið mikilvægt fyrir landshlutann:
„Það er gríðarlegur nýsköpunarkraftur á Suðurlandi, en hann hefur oft verið dreifður og án heildstæðrar yfirsýnar. Með þessu áhersluverkefni úr Sóknaráætlun Suðurlands erum við að fjárfesta í samræmingu og skýrari framtíðarsýn. Háskólafélagið, með sína sterku tengingu við menntun og atvinnulíf, er kjörinn aðili til að leiða þessa vinnu. Við væntum mikils af þessari samvinnu til að styrkja atvinnulíf og samfélag í öllum landshlutanum.“
Skýr stefna tilbúin 2027
Verkefninu sjálfu lýkur í desember 2026 en gert er ráð fyrir að fullmótuð „Nýsköpunarstefna fyrir Suðurland“ verði tilbúin árið 2027.



