Stefán Friðrik Friðriksson hefur verið ráðinn í starf verkefnastjóra miðlunar hjá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) og Orkídeu. Hann mun hefja störf á næstu mánuðum.
 
Stefán er með BA-gráðu í miðlun og almannatengslum frá Háskólanum á Bifröst, auk þess að hafa lokið diplómu í fjölmiðlun, blaðamennsku og kvikmyndagerð frá Brandbjerg Højskole í Danmörku og diplómu í leikstjórn og framleiðslu frá Kvikmyndaskóla Íslands. Hann kemur til samtakanna úr starfi byggðaþróunarfulltrúa Rangárvallasýslu en áður hefur hann meðal annars starfað hjá Markaðsstofu Suðurlands og sem markaðs- og framleiðslustjóri hjá N4.
 
Í starfi sínu mun Stefán sinna upplýsingamiðlun, samskiptum og umsjón með stafrænum miðlum fyrir SASS og Orkídeu, ásamt efnisgerð og öðrum tengdum verkefnum.
 
„Við erum ánægð með að fá Stefán til liðs við okkur. Reynslan hans sem byggðaþróunarfulltrúi gefur honum góða innsýn í þau verkefni sem við erum að fást við og mun nýtast vel við að styrkja enn frekar samskiptin við sveitarfélög og íbúa á Suðurlandi,“ segir Ingunn Jónsdóttir framkvæmdastjóri SASS.
 
„Orkídea er metnaðarfullt samstarfsverkefni og því er markviss miðlun nauðsynleg til að koma árangri þess og tækifærum á framfæri. Við teljum að reynsla Stefáns af miðlunarmálum og þekking hans á svæðinu muni reynast okkur afar dýrmæt í þeirri vinnu.“ segir Sveinn Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Orkídeu.
 
„Ég hlakka til að takast á við þetta áhugaverða verkefni. Ég þekki vel til þeirra mikilvægu mála sem SASS og Orkídea vinna að og sé fram á að nýta reynslu mína af byggðaþróun og miðlun til að styðja við þá jákvæðu uppbyggingu sem á sér stað á Suðurlandi.“ Segir Stefán Friðrik Friðriksson.
 
Samtök sunnlenskra sveitarfélaga og Orkídea bjóða Stefán velkominn til starfa.