Fulltrúar sveitarfélaga á Suðurlandi munu koma saman til ársþings Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) dagana 23. og 24. október næstkomandi. Þingið fer fram á Kirkjubæjarklaustri og er meginvettvangur fyrir umræður og ákvarðanatöku um sameiginleg hagsmunamál landshlutans.

Farsæld barna og byggðaþróun í brennidepli

Dagskráin hefst á fimmtudagsmorgn með hefðbundnum aðalfundarstörfum þar sem farið verður yfir starfsskýrslu liðins árs, fjárhagsáætlanir og kosið í stjórn og nefndir samtakanna. Auk þess verða kynntar tillögur að breytingum á samþykktum SASS.

Fjölbreytt og mikilvæg málefni verða til umfjöllunar á þinginu. Arna Ír Gunnarsdóttir, verkefnastjóri, mun kynna starfsemi Farsældarráðs á Suðurlandi og Lína Björg Tryggvadóttir, ásamt teymi byggðaþróunarfulltrúa, mun fjalla um Sóknaráætlun Suðurlands og hlutverk byggðaþróunarfulltrúa í þróun byggðarlaga.

Skýrslur nefnda, menningarverðlaun og öryggismál í landshlutanum

Seinna um daginn munu formenn fastanefnda kynna niðurstöður úr nefndarstörfum. Sérstök áhersla verður lögð á löggæslumál í landshlutanum en þau Arndís Soffía Sigurðardóttir og Grímur Hergeirsson munu ræða helstu áskoranir og tækifæri á því sviði. Að lokinni formlegri dagskrá á fimmtudaginn býður Skaftárhreppur þinggesti til móttöku þar sem hin árlegu menningarverðlaun SASS verða afhent.

Samstarf í heilbrigðis- og úrgangsmálum

Á föstudaginn munu aðalfundir Heilbrigðiseftirlits Suðurlands bs. og Sorpstöðvar Suðurlands bs. Á þeim síðarnefnda mun Elísabet Björney Lárusdóttir greina frá umfangi og kostnaði úrgangsmála á svæðinu og Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri í Rangárþingi eystra, mun flytja erindi um aukin tækifæri í samstarfi sveitarfélaga á þessu sviði.

„Enn samstilltari og skýr sýn á framtíðina“

„Það er alltaf tilhlökkunarefni að koma saman á ársþingi SASS“ segir Ingunn Jónsdóttir framkvæmdastjóri SASS. „Þetta er okkar helsti vettvangur til að ræða sameiginlegar áskoranir og tækifæri landshlutans. Markmið mitt og stjórnar er að við förum af þinginu enn samstilltari og með skýra sýn á þau verkefni sem fram undan eru til að efla Suðurland.“

Ársþing SASS er lykilviðburður í samstarfi sveitarfélaga á Suðurlandi þar sem lagður er grunnur að stefnumótun og aðgerðum til að efla byggð og bæta lífskjör íbúa í landshlutanum.

Dagskrá þingsins er hér

Fyrirvari er gerður um hugsanlegar breytingar á dagskrá.