fbpx

591. fundur stjórnar SASS

Austurvegi 56 Selfossi  
13. janúar 2023, kl. 12:30-15:30

 

Þátttakendur: Ásgerður Kristín Gylfadóttir formaður, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Margrét Harpa Guðsteinsdóttir, Brynhildur Jónsdóttir, Árni Eiríksson, Njáll Ragnarsson, Arnar Freyr Ólafsson og Einar Freyr Elínarson. Grétar Ingi Erlendsson tengist fundinum með fjarfundabúnaði. Þá taka þátt Guðveig Eyglóardóttir formaður verkefnisstjórnar um starfsaðstæður kjörinna fulltrúa undir dagskrárlið 6.c. (tengist fundinum með fjarfundabúnaði), Þórður Freyr Sigurðsson sviðsstjóri þróunarsviðs og Bjarni Guðmundsson framkvæmdastjóri SASS, sem jafnframt ritar fundargerð.

Formaður býður fundarmenn velkomna en byrjað er á dagskrárlið 6.c. með kynningu Guðveigar.

6.c. Guðveig Eyglóardóttir, formaður verkefnisstjórnar innviðaráðuneytisins um starfsaðstæður kjörinna fulltrúa kynnir skýrslu verkefnisstjórnarinnar sem unnin var á grundvelli reglugerðar um gerð stefnumótandi áætlunar ríkisins um málefni sveitarfélaga. Skýrsluna má nálgast hér, Guðveig fór yfir helstu niðurstöður hennar og svaraði spurningum og vangaveltum stjórnarmeðlima.

1. Fundargerð
Fundargerð 590. fundar staðfest og undirrituð.

2. Fundaráætlun 2023
Formaður kynnir helstu fundi og viðburði á árinu 2023. Fundir stjórnar verða að jafnaði fyrsta föstudag í hverjum mánuði og kyningarfundir fyrir sveitarstjórnir þriðja föstudag í hverjum mánuði með nokkrum undantekingum. Framkvæmdastjóra falið að gera breytingar á fyrirliggjandi drögum til samræmis við umræðu á fundinum, sbr. hér.

3. Samningur við Byggðastofnun um byggðaþróun og atvinnuráðgjöf og skipting fjár
Formaður kynnir fyrirliggjandi samning landshlutasamtaka sveitarfélaga við Byggðastofnun um byggðaþróun og atvinnuráðgjöf. Samningurinn tekur við af eldri samningi og gildir til næstu fimm ára. Stjórn samþykkir samninginn og veitir framkvæmdastjóra heimild til að undirrita hann.

Formaður kynnir að samtals hafi 40 m.kr. verið bætt við fjáralagaliðinn Atvinnuráðgjafar á landsbyggðinni í nýsamþykktum fjárlögum Alþingis. Samtals eru því ríflega 244 m.kr. til úthlutunar á árinu. Byggðastofnun var falið að úthluta umræddu fjármagni til landshlutasamtaka sem sinna atvinnu- og byggðaþróun og eru með samning við stofnunina.

Í hlut SASS koma í ár 35 m.kr. sem er hækkun um 5 m.kr. frá fyrra ári. Um leið og því er fagnað skal haft í huga frá 2009 hafa framlögin lækkað um 50% sé tekið tillit til breytingar á launavísitölu sem eðli málsins samkvæmt hefur dregið úr þeirri þjónustu sem unnt er að veita aðilum í landshlutunum.

4. Samstarfssamningar um byggðaþróun og atvinnuráðgjöf
Formaður og framkvæmdastjóri kynna að verið sé að yfirfara samninga við samstarfsaðila SASS í landshlutanum sem sinna ráðgjöf en fyrri samningar voru gerðir í ársbyrjun 2016. Núverandi samstarfsaðilar SASS eru: Nýheimar þekkingarsetur, Kötlusetur, Þekkingarsetur Vestmannaeyja, Markaðsstofa Suðurlands, Háskólafélag Suðurlands og Kirkjubæjarstofa.

Nýir samningar taka mið af fjölgun vinnusóknarsvæða um eitt, eru nú sjö og í breyttu skipulagi með hlutverki byggðaþróunarfulltrúa.

Formanni og framkvæmdastjóra falið að vinna málið áfram.

5. Sóknaráætlun Suðurlands 2023
a. Fjárhagsáætlun 2023

Formaður og framkvæmdastjóri kynna uppfærð drög að fjárhagsáætlun Sóknaráætlunar Suðurlands á yfirstandi starfsári. Við afgreiðslu fjárlaga bættist við tímabundið 120 m.kr. framlag til Sóknaráætlunar til að efla atvinnu- og menningarlíf á landsbyggðinni. Þetta hafði í för með sér að framlagið til samtakanna hækkaði um rétt rúmlega 15 m.kr. og framlag ríkisins verður því samtals rétt ríflega 115 m.kr. Samtals er því áætluð fjárhæð til ráðstöfunar úr Sóknaráætlun Suðurlands tæplega 152 m.kr. Af því er gert ráð fyrir að verja 84 m.kr. í Uppbyggingarsjóð Sóknaráætlunar Suðurlands, 55 m.kr. til áhersluverkefna og 12 m.kr. í umsýslu.

Grétar Ingi þarf að yfirgefa fundinn

b. Tillögur að áhersluverkefnum

Framkvæmdastjóri og sviðsstjóri kynna tillögur að áhersluverkefnum 2023. Þegar hefur verið samþykkt að verja árið 2023 samtals 15 m.kr. í Orkídeu, 3 m.kr. í gerð svæðisskipulags fyrir Suðurhálendið og 5 m.kr. í Sigurhæðir.

Stjórn samþykkir eftirtalin tíu áhersluverkefni til viðbótar við fyrrgreind verkefni og að verja til þeirra samtals 32,5 m.kr.

Áhersluverkefni Fjárhæð í kr.
Eldfjallaleiðin – Annar hluti 3.500.000
Sóknarfæri Suðurlands 5.000.000
Menntahvöt 2.0 með uppfærslu og viðbótum 3.000.000
Jafningjafræðsla 6.500.000
Starfamessa á Suðurlandi 1.000.000
Sinfóníuhljómsveit Suðurlands 3.000.000
Nýsköpunargátt Suðurlands 2.000.000
Íbúakönnun 500.000
Skjálftinn – hæfileikakeppni grunnskóla á Suðurlandi 4.000.000
Umhverfis Suðurland 4.000.000
Samtals 32.500.000

Samtals samþykkir stjórn að verja 55,5 m.kr. til þrettán áhersluverkefna á árinu 2023.

c. Skipan fagráða
Stjórn ræðir skipan fagráða sem meta umsóknir í Uppbyggingarsjóð Suðurlands. Stjórn samþykkir að skipan fagráðs atvinnuþróunar- og nýsköpunarstyrkja verður óbreytt 2023 en í ráðinu sitja:

  • Helga Björk Ólafsdóttir, framkvæmdarstjóri leikskólans Sóla
  • Bergsteinn Einarsson, eigandi og framkvæmdarstjóri Set ehf.
  • Laufey Helgadóttir, ferðaþjónustubóndi að Smyrlabjörgum

Varamaður: Guðmundur H. Gunnarsson, aðstoðarmaður forstjóra, Skinney-Þinganes hf.

Breyting verður á skipan fagráðs menningarstyrkja og því er afgreiðslu frestað til næsta fundar stjórnar.

d. C.1 Sértækt verkefni Sóknaráætlunarsvæða
Formaður kynnir að unnið sé að umsókn í sjóð C.1. í Byggðaáætlun, um sértækt verkefni sóknaráætlunarsvæða. Umsóknin miðar að því að koma á samstarfi aðila um þekkingarferðamennsku á sviði jarðfræði á Suðurlandi. Verkefnistillagan er unnin út frá þekktu verkefni og aðferðarfræði sem gefist hefur vel í Vestmannaeyjum.

Stjórn samþykkir að þetta verði umsókn samtakanna í verkefnið

Formaður þarf að yfirgefa fundinn og við stjórn hans tekur Einar Freyr.

6. Önnur mál til kynningar og umræðu

a. Fundargerðir m.a. stjórna annarra landshlutasamtaka
Lagðar fram til kynningar; fundargerðir 547. – 548. funda stjórnar SSH, fundargerðir 87. – 88. funda stjórnar SSNV, fundargerð 45. fundar stjórnar SSNE, fundargerð 784. fundar stjórnar SSS, fundargerðir 171. – 172. funda stjórnar SSV, fundargerð 22. fundar Byggðamálaráðs og fundargerð 916. fundar stjórnar sambandsins.

b.Skýrsla framkvæmdastjóraFramkvæmdastjóri kynnir helstu verkefni og hvað framundan er en meðal atriða má nefna: Ingvi Már Guðnason hóf hóf störf hjá samtökunum um áramótin. Hann tekur við af Sigríði Lind. Drög að samning við Byggðastofnun um byggðaþróun og atvinnuráðgjöf liggja fyrir og verið er að yfirfara samstarfssamninga þeim tengdum. Viðræður eru við ráðuneyti umhverfis-, orku- og loftslagsmála um viðaukasamninga tengda Sóknaráætlun Suðurlands. Kynningarfundur fyrir sveitarstjórnir var haldinn en yfirskriftin hans var „Hvers vegna skipta gjaldskrár raforku í dreifbýli og þéttbýli máli fyrir sveitarfélög á Suðurlandi?“. Framhaldsfundur var haldinn um hugmyndir að sameiginlegu farsældarráði á Suðurlandi. Aukið fé hefur fengist til Sóknaráætlana landshlutanna 2023 og til að sinna atvinnuráðgjöf. Samráðsfundur sambandsins og landshlutasamtaka verður haldinn 10. febrúar nk. Undirbúningur við endurskoðun ársreikninga 2022 er hafinn. Umræður um hvar halda á ársþing SASS 2024.

c. Skýrsla verkefnisstjórnar um bættar starfsaðstæður kjörinna fulltrúa
Sbr. bókun fyrr í fundargerðinni.

d. Sjálfbært Ísland
Fundarstjóri kynnir að SASS hafi tilnefnt fulltrúa í sjálfbærniráð fyrir samstarfsvettvanginn Sjálfbært Ísland. Aðalmaður er Árni Eiríksson, Flóahreppi og varamaður Ásgerður Kristín Gylfadóttir, Sveitarfélaginu Hornafirði.

e. Menntaverðlaun Suðurlands 2022
Einar Freyr kynnir að forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson hafi afhent Menntaverðlaun Suðurlands 2022 í gær, 12. janúar sl. Verðlaunin voru nú afhent í fimmtánda sinn við hátíðlega athöfn í Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Að þessu sinni bárust níu tilnefningar um verkefni, einstaklinga og/eða stofnanir og eru tilnefningarnar eftirfarandi:

  1. Elsa Jóna Stefánsdóttir deildarstjóri Bjargs, sérdeildar í Grunnskólanum í Þorlákshöfn fyrir framúrskarandi starf í þágu barna með sértæka náms- og hegðunarerfiðleika.
  2. Þorbjörg Lilja Jónsdóttir kennara við Grunnskóla Hveragerðis fyrir lokaverkefni sitt til M.Ed-prófs í Sérkennslu fræði og skóla margbreytileikans. Lokaverkefni Þorbjargar Lilju hefur vakið athygli fyrir efnistök, umfjöllun og niðurstöður.
  3. Heilrækt þróunarverkefni sem hefur verið unnið í tengslum við skólaíþróttir í Grunnskólanum í Hveragerði undanfarin ár og byggir á faglegri þróun íþróttakennslu á elsta stigi þar sem aðal markmið er að nemendur útskrifist úr grunnskóla sjálfbærir gagnvart eigin heilsu.
  4. Fjallmennskunámið í Framhaldsskóla Austur-Skaftafellssýslu fyrir spennandi námsleið með skemmtilegri nálgun á námsefnið.
  5. Víkurskóli fyrir Víkurfjöruverkefnið, samstarfsverkefni Víkurskóla, Kötlu jarðvangs og Kötluseturs, verkefnið er strandlínurannsókn í Víkurfjöru og er til þess fallið að efla þekkingu nemenda á nærumhverfi þeirra og vísindalegri rannsóknaraðferð.
  6. Myndlistarkennarar við Fjölbrautarskóla Suðurlands fyrir einstakan áhuga, metnað, listfengi og frumleika í starfi.
  7. Valberg Halldórsson fyrir góðan árangur í námi. Valberg útskrifaðist frá Kvikmyndaskóla Íslands á árinu frá Deild 3, Handrit og Leikstjórn. Lokaverkefni Valbergs var myndin „Tapað/Fundið“.
  8. Flóaskóli fyrir skólastarf sem hefur skilað eftirtektarverðum árangri í menntun nemenda á grunnskólastigi.
  9. Tónlistarskóli Árnesinga fyrir starf sitt í menntun nemenda sinna, öflugt menningarstarf í allri Árnesssýslu sem og tengsl sín við samfélagið.

Úthlutunarnefnd fjallaði um umsóknirnar og niðurstaðan varð sú að þau skyldu falla í skaut Tónlistarskóla Árnesinga.

Um leið og stjórn SASS óskar Tónlistarskóla Árnesinga til hamingju með nýveitt Menntaverðlaun Suðurlands 2022 óskar hún einnig þeim sem tilnefndir voru til hamingju með tilnefninguna og þakkar úthlutunarnefnd fyrir vel unnin störf.

f. Undirbúningur við gerð ársreiknings SASS 2022
Framkvæmdastjóri kynnir að vinna sé hafin við gerð ársreiknings samtakanna. Framkvæmdastjóri hefur umboð stjórnar til að undirrita ráðningarbréf endurskoðanda.

Næsti fundur stjórnar verður haldinn föstudaginn 3. febrúar nk. kl. 12:30 í fjarfundi.

Fundi slitið kl. 15:30
Ásgerður Kristín Gylfadóttir
Grétar Ingi Erlendsson
Margrét Harpa Guðsteinsdóttir
Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
Brynhildur Jónsdóttir
Arnar Freyr Ólafsson
Árni Eiríksson
Njáll Ragnarsson
Einar Freyr Elínarsonar

 

591. fundur stjórnar SASS (.pdf)