fbpx

585. fundur stjórnar SASS

Austurvegi 56 Selfossi
15. ágúst 2022, kl. 12:30 – 14:35

Mætt: Ásgerður Kristín Gylfadóttir formaður, Grétar Ingi Erlendsson varaformaður, Brynhildur Jónsdóttir, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Arnar Freyr Ólafsson, Einar Freyr Elínarson, Njáll Ragnarsson, Margrét Harpa Guðsteinsdóttir og Árni Eiríksson. Þá tekur þátt Bjarni Guðmundsson framkvæmdastjóri SASS, sem jafnframt ritar fundargerð.

Formaður býður fundarmenn velkomna.

1. Fundargerð

Fundargerðir 584. og 583. funda undrritaðar.

2. Ársþing SASS 2022

Formaður kynnir frumdrög að dagskrá ársþings samtakanna sem fram fer á Hótel Höfn í Sveitarfélaginu Hornafirði 27. – 28. október nk. Farið yfir hugmyndir um þema ársþingsins og hverjar áherslur ættu að vera en yfirskriftin að þessu sinni er Hver er stefna SASS til 2026? Fyrir ársþingið er gert ráð fyrir að nefndir þingfulltrúa fjalli um málefni sem snúa að einstaka nefndum samkvæmt samþykktum samtakanna.

Framkvæmdastjóra falið að kalla eftir tilnefningum á fulltrúum sveitarfélaganna í nefndir og forma dagskrá til samræmis við umræður á fundinum. Nánari undirbúningur og umfjöllun á næsta fundi stjórnar.

3. Menningarverðlaun Suðurlands 2022 

Stjórn SASS samþykkir að halda áfram veitingu Menningarverðlauna Suðurlands og skipar Magnús Karel Hannesson, Margréti Hörpu Guðsteinsdóttur og Dagný Huldu Jóhannsdóttur í valnefnd um úthlutun verðlauna 2022. Til vara eru Ása Berglind Hjálmarsdóttir og Gauti Árnason. Sigríður Lind Þorbjörnsdóttir hjá SASS verður nefndinni til aðstoðar.

4. Menntaverðlaun Suðurlands 2022

Stjórn SASS samþykkir að skipa Ingunni Jónsdóttur og Einar Frey Elínarson í samstarfshóp um úthlutun Menntaverðlauna Suðurlands 2022. Til vara eru Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir og Arnar Freyr Ólafsson. Sigríður Lind Þorbjörnsdóttir hjá SASS verður nefndinni til aðstoðar.

5. Önnur mál til kynningar og umræðu

a. Fundargerðir m.a. stjórna annarra landshlutasamtaka

Lagðar fram til kynningar; fundargerð 541. fundar stjórnar SSH, fundargerðir 46. fundar stjórnar og fulltrúaráðs Vestfjarðastofu, fundargerðir 79. og 80. funda stjórnar SSNV og fundargerðir 910. og 911. funda stjórnar sambandsins. Einnig lagt fram til kynning svæðisskipulag fyrir Austurland, sbr. slóðina hér.

b. Skýrsla framkvæmdastjóra

Framkvæmdastjóri kynnir helstu verkefni í vikunni og hvað framundan sé.

c. Drög að frumvarpi um sýslumann

Formaður kynnir drög að umsögn um frumvarp dómsmálaráðherra um sýslumann sem kynnt hefur verið samráðsgátt stjórnvalda, sbr. hér.

Umsögn samþykkt og er framkvæmdastjóra falið að senda hana á Samráðsgáttina.

d. Skortur á heilbrigðisstarfsmönnum

Lagt fram erindi frá bæjarstjórn Vestmannaeyja um mönnunarvanda á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni, sbr. hér. Í erindinu var þess óskað að því yrði komið á framfæri við sveitarstjórnir í landshlutanum og það hefur verið gert.

Stjórn SASS tekur undir bókun bæjarstjórnar Vestmannaeyja um að tryggja þurfi jafnt aðgengi landsmanna að heilbrigðisþjónustu en nauðsynleg mönnun á heilbrigðisstofnunum landsins er ein forsenda þess. Stjórn SASS hvetur stjórnvöld til m.a. að flýta vinnu sem lýtur að ívilnunum tengdum endurgreiðslum námslána þar sem skortur er á sérmenntuðu starfsfólki.

Á ársþingi SASS 2017 var ályktað að brýnt væri að styrkja sjúkraflutning þannig að viðbragðstími sé innan ásættanlegra viðmiðunarmarka og í því skyni hvatti ársþingið heilbrigðisyfirvöld m.a. til að vinna áfram hugmyndir um sérhæfðar sjúkraþyrlur. Alþingi samþykkti þingsályktun um tilraunaverkefni um sjúkraþyrlu á Suðurlandi sem ekki hefur farið af stað. Stjórn SASS hvetur til þess að verkefninu verði komið í framkvæmd þannig að sérhæfðar sjúkraþyrlur heyri undir starfsemi HSu. Þannig verði öryggi eflt og viðbragðstími sjúkraflutninga á stórum hluta Suðurlands styttur.

e. Tilnefning í fulltrúaráð Brákar hses

Lagt fram erindi stjórnar félagsins Brák hses, húsnæðissjálfseignarstofnun, um skipan fulltrúa SASS í fulltúaráð félagsins. Samkvæmt samþykktum þess er gert ráð fyrir að Samand íslenskra sveitarfélaga og landhlutasamtök sveitarfélaga skipi fulltrúa í fulltrúaráð stofnunarinnar.

Niðurstaða stjórnar er að skipa sem aðalmann Einar Frey Elínarson og sem varamann Jóhönnu Ýr Jóhannsdóttur.

f. Skipan í starfænt ráð sambandsins

Stjórn samþykkir að skipa Jóhönnu Ýr Jóhannsdóttur í stafrænt ráð Sambandsins íslenskra sveitarfélaga.

 

Til stendur að fá fyrirsvarsmenn HSU og Ungmennaráðs Suðurlands á fund stjórnar samtakanna.

 

Næsti fundur stjórnar verður fjarfundur haldinn föstudaginn 2. september nk. kl. 12:30.

 

Fundi slitið kl. 14:35

Ásgerður Kristín Gylfadóttir

Grétar Ingi Erlendsson

Einar Freyr Elínarson

Brynhildur Jónsdóttir

Arnar Freyr Ólafsson

Margrét Harpa Guðsteinsdóttir

Árni Eiríksson

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir

Njáll Ragnarsson

585. fundur stj. SASS