fbpx

haldinn að Austurvegi 56, Selfossi, föstudaginn 10. desember 2010 kl. 12:00

Mætt: Elfa Dögg Þórðardóttir, Aðalsteinn Sveinsson, Guðfinna Þorvaldsdóttir, Reynir Arnarson, Unnur Þormóðsdóttir varamaður Sigríðar Láru Ásbergsdóttur, Elliði Vignisson og Þorvarður Hjaltason framkvæmdastjóri sem ritaði fundargerð. Elín Einarsdóttir boðaði forföll.

Dagskrá

 1. Fundargerð menntamálanefndar frá 7. desember.

Fundargerðin staðfest.

 2. Málefni heilbrigðisþjónustunnar á Suðurlandi.

Stjórn SASS fagnar því að fyrstu tillögur fjárlagafrumvarpsins um framlög til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni hafa verið dregnar til baka. Stjórn SASS skorar á heilbrigðisráðuneytið að taka vinnubrögð sín til gagngerðrar endurskoðunar við undirbúning fjárlagagerðar. Brýnt er að áður en lagðar eru fram tillögur um breytingar á sjúkrahúsþjónustunni og fjárlagatillögur mótaðar fyrir árið 2012 að heildaráhrif þeirra breytinga og tillagna verði metin til fulls og haft verði fullt samráð við forsvarsmenn þeirra stofnana sem í hlut eiga. Jafnframt leggur stjórn SASS áherslu á að í framtíðinni verði látið staðar numið í niðurskurði í grunnvelferðarþjónustu. Þess í stað verði sjúkrahúsþjónusta á landsbyggðinni efld verulega.

Stjórn SASS mótmælir hins vegar boðuðum niðurskurði á framlögum til Heilsustofnunar NLFÍ í Hveragerði. Þjónusta stofnunarinnar hefur mikið forvarnargildi og er stór þáttur í endurhæfingarþjónustu á Íslandi. Hún er hagkvæm fyrir ríkið og mjög mikilvæg fyrir heilbrigðiskerfið. Stofnunin er einn stærsti vinnustaðurinn í Hveragerði og uppsagnir um 20 starfsmanna sem leiða af niðurskurðinum er þungt áfall fyrir sveitarfélagið. Stjórn SASS skorar á stjórnvöld að endurskoða þessi áform.

 3. Samfella í námi við grunn- og framhaldsskóla.

Eftirfarandi ályktun var samþykkt:

,,Stjórn SASS skorar á menntamálaráðherra að endurskoðuð verði sú ákvörðun að skera niður framlög til framhaldsskóla vegna kennslu þeirra nemenda sem stunda nám í einstökum framhaldskólaáföngum samhliða grunnskólanámi. Niðurskurður af þessu tagi er ekki í samræmi við 4. mgr. 26. greinar grunnskólalaganna sem kveður á um ,,rétt barna í þremur efstu bekkjum grunnskóla til þess að stunda nám í framhaldsskóla samhliða námi í grunnskóla.“. Þá gengur þessi ákvörðun í berhögg við þau markmið og anda nýrrar menntastefnu um að auka flæði og samfellu á milli skólastiga sbr. endurskoðuð heildarlög um skólakerfið frá 2008. Einnig er ljóst að þessi ákvörðun ríkisvaldsins leiðir til aukinna útgjalda hlutaðeigandi grunnskóla sem gefa þurfa kost á námsvali í stað þess náms sem grunnskólanemendur áttu áður kost á að stunda í framhaldsskóla. Með niðurskurði þessum er því ekki verið að spara fé þegar á heildina er litið heldur mun hann aðeins hægja á námi öflugra nemenda.“

 4. Stefnumótun í almenningssamgöngum.

Erindi frá samgönguráðuneytinu þar sem kynnt eru drög að stefnumótun ráðuneytisins í almenningssamgöngum. Framkvæmdastjóri skýrði frá fundi sem hann sat í samgönguráðuneytinu um málið.

 5. Bréf frá Heilbrigðisráðuneytinu, dags. 15. nóvember 2010, varðandi úttekt Guðrúnar Bryndísar Karlsdóttur á skýrslu ráðuneytisins um endurskipulagningu sjúkrahúsþjónustu á Suðvesturhorninu ásamt svarbréfi SASS, dags. 1. desember 2010.

Til kynningar.

 6. Bréf frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, dags, 29. nóvember 2010, vegna erindis um svifryksmæli.

Fram kom að óskað hefur verið eftir framlagi á fjárlögum til verkefnisins. Samþykkt að ítreka fyrri erindi vegna málsins.

 7. Bréf frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, dags. 18. nóvember 2010, varðandi framlög sjóðsins til landshlutasamtaka sveitarfélaga.

Til kynningar.

 8. Bréf frá Sveitarfélaginu Árborg, dags. 6. desember 2010, varðandi aðild sveitarfélagsins að Skólaskrifstofu Suðurlands.

Fundur hefur verið boðaður um málið 16. desember nk.

 9. Ályktun stjórnar Háskólafélags Suðurlands frá 8. desember sl. varðandi tillögur í fjárlagafrumvarpi um framlög til þekkingarstafa á Suðurlandi.

Stjórn SASS tekur eindregið undir áskorun stjórnarinnar til fjárlaganefndar um að endurskoðuð verði framlög til þekkingarstarfa á Suðurlandi og minnir um leið á að mikilvægi þess að fjárlaganefnd gæti jafnræðis í þessum efnum.

10. Erindi frá Alþingi þar sem óskað er umsagnar um eftirtalin þingmál:

a. Tillögu til þingályktunar um heilbrigðisþjónustu í heimabyggð, 4. mál. www.althingi.is/altext/139/s/0042.html.

Stjórn SASS tekur undir þau meginsjónarmið sem koma fram í tillögunni.

b. Tillögu til þingsályktunar um heimsóknir til eldri borgara í forvarnarskyni, 8.mál. www.althingi.is/altext/139/s/0008.html.

Stjórn SASS leggur áherslu á að ekki er hægt að leggja á sveitarfélögin auknar lagalegar skyldur sem leiða til mikils kostnaðar án þess tryggja þeim um leið aukna tekjustofna.

c. Frumvarp til laga um stjórn vatnamála (heildarlög, EES-reglur), 298. mál. www.althingi.is/altext/139/s/0344.html.

Samþykkt að fela framkvæmdastjórum SASS og Heilbrigðiseftirlits Suðurlands að móta tillögu að umsögn sem send verður stjórn SASS.

d. Frumvarp til laga um virðisaukaskatt (rafræn þjónusta, bætt skil og eftirlit o.fl.), 208. mál. . www.althingi.is/altext/139/s/0227.html.

Stjórn SASS gerir alvarlegar athugasemdir við þann frest sem gefinn er til að veita umsögn um frumvarpið, ekki síst vegna þess að miklir hagsmunir eru í húfi.

Stjórn SASS mótmælir harðlega þeim áformum sem felast í 11. grein frumvarpsins um að fella niður endurgreiðslur virðisaukaskatts í húshitunarkostnaði. Verði frumvarpið samþykkt óbreytt mun það leiða til hækkunar á húshitunarkostnaði á svokölluðum köldum svæðum. Stjórn SASS minnir á að þar er hitunarkostnaður tvö- til þrefaldur við það sem kostnaðurinn er á hitaveitukyntum svæðum.

e. Frumvarp til laga um um málefni fatlaðra(flutningur málaflokksins til sveitarfélaga), 256 . mál.

Stjórn SASS hefur samþykkt eftifarandi umsögn:

,,Stjórn SASS mælir með samþykkt frumvarpsins. Stjórnin leggur áherslu á að ekki verði gerðar neinar meginbreytingar á frumvarpinu þar sem það er hluti heildarsamkomulags á milli sveitarfélaganna og ríkisins um yfirfærslu á þjónustu við fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga sem undirritað var 21. nóvember sl.“

11. Efni til kynningar.

a. Efni frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

b. Efni frá landshlutasamtökunum.

Fundi slitið kl. 13.30