fbpx

haldinn að Austurvegi 56, Selfossi, föstudaginn 25. júní 2010 kl. 11.00

Mætt: Sveinn Pálsson, Margrét Katrín Erlingdóttir, Ólafur Eggertsson, Guðmundur Þór Guðjónsson, Aðalsteinn Sveinsson, Árni Rúnar Þorvaldsson og Þorvarður Hjaltason framkvæmdastjóri sem ritaði fundargerð.

Elliði Vignisson boðaði forföll.

Gestir fundarins: Karl Alvarsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og
Kristín Sigurbjörnsdóttir og Auður Eyvindsdóttir frá Vegagerðinni

Dagskrá

 1. Stefnumótun samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins í almenningssamgöngum sbr. meðf. umræðuskjal.

Karl Alvarsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og Kristín Sigurbjörnsdóttir og Auður Eyvindsdóttir frá Vegagerðinni komu koma á fundinn og gera grein fyrir stefnumótuninni.

Málinu vísað til samgöngunefndar SASS. Jafnframt samþykkt að senda aðildarsveitarfélögunum umræðuskjal ráðuneytisins.

 2. Fundargerð formanna og framkvæmdastjóra landshlutasamtakanna frá 3. júní sl.

Formaður skýrði frá fundinum.

 3. Ársþing SASS.

a. Bréf frá Hrunamannahreppi , dags. 9. júní 2010, vegna tímasetningar ársþingsins.

Samþykkt að fresta fundinum til 13. og 14. september.

b. Drög að dagskrá. Lögð fram og rædd.

 4. Tilfærsla á málefnum fatlaðra.

a. Yfirlit um afstöðu aðildarsveitarfélaganna til tillögu um sameiginlegt þjónustusvæði á starfssvæði SASS. Framkvæmdastjóri skýrði frá. Líkur eru á að um eitt þjónustusvæði verði að ræða utan Vestmannaeyja og Hornafjarðar en ekki hafa borist svör frá sveitarfélögum í Rangárvallasýslu. Hann greindi einnig frá því hvernig mál stæðu í samningnum ríkis og Sambands íslenskra sveitarfélaga um tilfærsluna.

b. Næstu skref málsins.

Sigurður H. Helgason stjórnsýsluráðgjafi mun aðstoða við nánari útfærslu skipulags þjónustusvæðisins. Stefnt er að því að afgreiða samþykktir þjónustusvæðisins á aðalfundi SASS í haust.

 5. Málefni Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og annarra sjúkrahúsa í nágrenni Reykjavíkur.

Úttekt Guðrúnar Bryndísar Karlsdóttur á skýrslu um endurskipulagningu sjúkrahúsþjónustu á Suðvesturhorninu rædd.

Samþykkt að taka þátt í að senda heilbrigðisráðherra ásamt Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi og Hafnafjarðarbæ erindi vegna málsins og taka þátt í þeim kostnaði sem af úttektinni leiðir.

 6. Umsagnir um þingmál.

1. Eftirfarandi umsögn um tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012, 582. mál, hefur verið send samgöngunefnd Alþingis:

,,Suðurlandsvegur á milli Selfoss og Reykjavíkur

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga leggja mikla áherslu á að Suðurlandsvegur á milli Selfoss og Reykjavíkur verði tvöfaldaður og til þess liggja fjölmörg rök. Í fyrsta lagi er mjög mikil og vaxandi umferð um veginn. Í öðru lagi er há slysatíðni á veginum og í þriðja lagi liggur fyrir að arðsemi tvöföldunar er mjög mikil.. Einnig er ljóst að almenningur telur þessa framkvæmd langbrýnasta úrlausnarefnið í samgöngumálum þjóðarinnar, sbr. skoðanakönnun Gallup á síðasta ári en niðurstaða hennar var sú að 55% þeirra sem tóku afstöðu töldu tvöföldun Suðurlandsvegar mikilvægasta verkefnið í samgöngumálum þjóðarinnar.

Fjármögnun framkvæmda

Vegna tillagna sem fram koma í þingsályktunartillögunni um veggjöld í tengslum við tvöföldun Suðurlandsvegar gera Samtök sunnlenskra sveitarfélaga eftirfarandi athugasemdir.

Sanngjarnara og ódýrara væri að legga á sérstakt eldsneytisgjald til að fjármagna þessar framkvæmdir sem og aðrar brýnar samgönguframkvæmdir annars staðar á landinu. Með þeim hætti eru bein tengsl á milli notkunar og gjalda auk þess sem allir vegfarendur greiða hvort sem farið er um fáfarna eða fjölfarna vegi. Þá er augljóst að nokkur kostnaður verður vegna innheimtu veggjalda sem hægt væri að komast hjá með álagningu sérstaks eldsneytisgjalds.

Ef hins vegar veggjöld verða tekin upp þá er mikilvægt að tillit verði tekið til eftirfarandi atriða:

– Að jafnræðis verði gætt á milli landsmanna og komið verði á heildstæðu kerfi sem nýst geti við stærri framkvæmdir í vegagerð.

– Að eldsneytisgjöld verði lækkuð að sama skapi.

– Að tekið verði við ákvörðun veggjalds tillit til þess sparnaðar sem ávinnst vegna framkvæmda. Áætlað hefur verið að með tvöföldun Suðurlandsvegar geti sparast allt að 500 milljónir króna árlega , þar af sparnaður tryggingafélaga um 300 milljónir króna og ríkisins um 200 milljónir króna vegna ýmiss kostnaðar sem af umferðarslysum hlýst.

Umbætur í samgöngumálum í A-Skaftafellssýslu

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga benda á að í áætluninni er ekki gert ráð fyrir framkvæmdum við brú yfir Hornafjarðarfljót sem er brýnt hagsmunamál. Þá vekja Samtök sunnlenskra sveitarfélaga sérstaka athygli á að enn er fjöldi einbreiðra brúa í vegakerfinu á suðursvæðinu. Það sem stingur mest í augun er að um 20 einbreiðar brýr eru á þjóðvegi 1 í Skaftafellssýslum, flestar í A-Skaftafellssýslu. Á meðan þær eru við lýði er öryggi vegfaranda ógnað og sú ógn fer vaxandi með síaukinni og þyngri umferð. Í því sambandi benda samtökin á að akstur stórra flutningabíla hefur stóraukist á undanförnum árum eftir að sjóflutningar lögðust af. Gríðarlega mikilvægt er að gert verði stórátak í að byggja nýjar brýr á þessari leið og því átaki verði lokið innan 5 ára.”

2. Eftirfarandi umsögn um frumvarp til barnaverndarlaga, 557. mál. 582. mál, hefur verið send félagsmálanefnd Alþingis:

,,Samtök sunnlenskra sveitarfélaga gera alvarlegar athugasemdir við 39. grein frumvarpsins, en í henni segir m.a. ,,Hverju sveitarfélagi er skylt að sjá til þess að skólaskyld börn, sem ráðstafað hefur verið tímabundið í fóstur til fósturforeldra sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu, njóti skólavistar og ber að greiða allan venjubundinn kostnað sem hlýst af skólagöngubarnsins, svo sem vegna skóla og aksturs. Sveitarfélag sem ráðstafar barni í tímabundið fóstur ber þó ábyrgð á að greiða kostnað vegna sérfræðiþjónustu eða sérþarfa fósturbarns í tengslum við skólagöngu.“

Hér er um verulega breytingu frá núgildandi reglum þar sem að hingað til hefur lögheimilissveitarfélag greitt allan kostnað vegna fósturbarna. Ljóst er að þessi breyting leiðir til aukins kostnaðar viðtökusveitarfélaga sem í mörgum tilfellum eru fámenn sveitarfélög á landsbyggðinni og því er kostnaðaraukinn tilfinnanlegri. Augljós rök eru fyrir því að ef kostnaður er færður á milli sveitarfélaga færist samsvarandi tekjur einnig. Engin rök og engin fordæmi eru hins vegar fyrir því að sveitarfélag greiði kostnaðinn af lögboðnum skyldum annars sveitarfélags. Þessi breyting mun heldur engan vanda leysa því sveitarfélög hafa almennt ekki deilt sín á milli um venjubundinn kostnað vegna skólagöngu fósturbarna, fremur hafa slíkar deilur snúist um þann viðbótarkostnað sem af skólagöngu þeirra hlýst.“

3. Erindi frá Iðnaðarnefnd Alþingis, dags. 24. júní 2010, þar sem óskað er umsagnar um frumvarp til laga um verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og háhitasvæða (heildarlög), 660. mál. http://www.althingi.is/altext/138/s/1280.html

Formanni og framkvmdastjóra falið móta tillögu að umsögn.

 7. Erindi til kynningar.

a. Efni frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

b. Efni frá landshlutasamtökunum.

Fundi slitið kl. 13.30