fbpx

Íbúar í Vogum á Vatnleysuströnd hamingjusamastir

Skýrslan Íbúakönnun á Íslandi – staða og mikilvægi búsetuskilyrða 19 landsvæða á landsbyggðunum frá Hornafirði í austri að Skagafirði í norðri var kynnt í Allsherjarbúð, sal Sambands íslenskra sveitarfélaga í dag, föstudaginn 11. maí. 

Vífill Karlsson, hagfræðingur, dósent og ráðgjafi kynnti niðurstöðu könnunarinnar sem hann hefur unnið að síðustu ár en þar kemur meðal annars fram að:

  • Íbúar í Vogum á Vatnsleysuströnd eru hamingjusamastir.
  • Ungir Íslendingar eru óhamingjusamari en þeir eldri.
  • Íbúar á norðanverðum Vestfjörðum eru ánægðastir með búsetusvæði.
  • Íbúar á Akranesi og í Hvalfirði eru ánægðastir með sveitarfélögin sín.
  • Skagamenn eru auk þess ólíklegastir til að flytjast á brott á næstu tveimur árum.
  • Þeir sem búa fjær höfuðborgarsvæðinu eru óánægðari með fjarskipta- og samgöngumál en nágrannar þess.
  • Nágrannar höfuðborgarsvæðisins eru óánægðari með heilsugæslu og þjónustu við aldraða en þeir sem búa fjær því.

Í könnuninni leitast Vífill meðal annars að við að kanna almenna velferð íbúanna, ánægju þeirra, framtíðaráhorf, búsetuskilyrði sem og stöðu 40 þátta er tengjast búsetuskilyrðum. Skagafjarðarsýsla fær hagstæðustu niðurstöðuna úr þáttunum 40 og fékk 77% hærri einkunn en það landsvæði sem fékk lægstu einkuninna. Akranes og Hvalfjörður koma fast á eftir en Vestmannaeyjar eru í þriðja sæti.

Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi hafa frá árinu 2004 gert íbúakönnun á þriggja ára fresti til að kanna viðhorf íbúa landshlutans til ýmissa mikilvægra mála og hvort sú afstaða taki breytingum frá einu ári til annars. Könnuninni er einnig ætlað að vera innlegg í rannsóknir á búferlaflutningum og vinnumarkaði á Vesturlandi.

Eftir allnokkuð þróunarferli var ákveðið að bjóða öðrum landshlutum að vera með. Það þáðu Suðurland, Reykjanes, Vestfirðir og Norðurland vestra og er þessi skýrsla samantekt og samanburður á þessum landsvæðum.

Meginmarkmið könnunarinnar var að draga fram afstöðu íbúa einstakra landshluta til ýmissa þátta sem telja má meðal mikilvægustu búsetuskilyrða heimilanna. Auk þess var grennslast fyrir um hvort fólk íhugaði brottflutning og ánægju þess með að búa á viðkomandi stöðum, svo eitthvað sé nefnt.

Skýrsluna í heild má finna hér (.pdf) og 20 mínútna myndband þar eru útskýringar á því hvernig best er að lesa úr tölfræðinni er að finna hér.