sass@sass.is 480-8200

Starfsmannastefna SASS

1. kafli   Markmið og gildissvið
2. kafli   Ráðningar og val
3. kafli   Vinnustaðurinn
4. kafli   Starfsskyldur
5. kafli   Stjórnendur
6. kafli   Starfsþróun
7. kafli   Launastefna
8. kafli   Starfsferill
9. kafli   Upplýsingar
10. kafli   Framkvæmd

1. kafli. Markmið og gildissvið

1.1 Markmið starfsmannastefnu Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga og stofnana sem reknar eru á vegum þeirra, þ.e. Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, Skólaskrifstofu Suðurlands og Sorpstöðvar Suðurlands, hér eftir nefnt einu nafni SASS, er að skapa starfsmönnum SASS góð starfsskilyrði, þannig að þeir geti veitt viðskiptavinum samtakanna góða þjónustu og jafnframt notið ánægju í starfi. Markmiðið er að hafa ávallt á að skipa hæfum og áhugasömum starfsmönnum sem veitt geta góða þjónustu og brugðist við síbreytilegum þörfum. Starfsmannastefna samtakanna á að tryggja starfsmönnum ákveðin starfsskilyrði og möguleika á að vaxa og dafna í starfi. Tillit skal tekið til persónulegra aðstæðna starfsmanna, þannig að hægt sé eftir föngum að samræma starfs- og fjölskylduábyrgð.

1.2 Með starfsmannastefnunni er sett það grundvallarmarkmið, að öllum sem starfa fyrir SASS beri að vinna fyrst og fremst í þágu aðildarsveitarfélaganna og íbúa þeirra. Markmiðið leggur þær skyldur á herðar starfsmönnum SASS að setja ávallt almannahagsmuni ofar sérhagsmunum, hvort heldur er sínum eigin, einstakra hópa eða fyrirtækja.

1.3 Valdi, ábyrgð og ákvörðunum skal dreift þannig að sjálfstæði og frumkvæði starfsmanna fái að njóta sín.

1.4 Stefnt skal að því að skipurit, starfsmannastefna og starfslýsingar vegna einstakra starfa hjá SASS svari ávallt kröfum tímans um skilvirkni og hagkvæmni og taki breytingum á grundvelli þess. Gögn þessi skulu reglulega yfirfarin og uppfærð m.t.t. breytinga og vera öllum aðgengileg.

1.5 Einstakar stofnanir skulu setja sér markmið og reglur í þeim tilgangi að ná með sem bestum árangri markmiðum starfsmannastefnunnar.

1.6 Starfsmannastefna SASS tekur til allra þeirra sem ráðnir eru til skamms eða langs tíma í þjónustu SASS og ber þeim að vinna samkvæmt ákvæðum starfsmannastefnunnar.

Efst í skjal

2. kafli. Ráðningar og val

2.1 Samtök sunnlenskra sveitarfélaga leitast ávallt við að ráða sem hæfasta starfsmenn til starfa. Allir umsækjendur hafa jafnan rétt til vinnu hjá samtökunum og ráðningar byggjast á hæfileikum, menntun og reynslu þess sem ráðinn er og hæfni viðkomandi til að inna starfið vel af hendi. Tekið skal ítrasta tillit til jafnréttissjónarmiða við ráðningar í störf, tilfærslu milli starfa og kjaraákvarðanir.

2.2 Stjórn SASS ákveður fjölda heimilaðra stöðugilda hverju sinni. Ekki skal ráðið í nýtt starf án þess að framkvæmdastjóri SASS eða viðkomandi yfirmaður stofnunar (framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits og forstöðumaður Skólaskrifstofu), í samráði við viðkomandi nefnd/stjórn, skili kostnaðarmati og greinargerð um starfið og þörf fyrir ráðningu í það til stjórnar SASS og skal starfið ekki auglýst fyrr en stöðugildisheimild er veitt af stjórninni.

2.3 Að jafnaði skulu öll laus störf sem fastráðið er í hjá SASS auglýst til umsóknar.

2.4 Stjórn SASS ræður framkvæmdastjóra SASS og forstöðumann Skólaskrifstofu að fenginni tillögu stjórnar Skólaskrifstofu. Forstöðumenn ráða annað starfsfólk að fenginni staðfestingu framkvæmdastjóra SASS. Lögum samkvæmt ræður Heilbrigðisnefnd heilbrigðisfulltrúa þ.m.t. framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlitsins. Heimild stjórnar SASS þarf að liggja fyrir, ef um fjölgun stöðugilda er að ræða. Sömu tengsl eru milli aðila hvað varðar veitingu áminninga og uppsagnir.

2.5 Þeir sem taka ákvarðanir um ráðningu starfsfólks skulu gæta persónulegs hlutleysis í hvívetna og forðast að láta skyldleika, vensl, vinskap eða stjórnmálaskoðanir ráða ákvörðun sinni, sbr. ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

2.6 Gerðir skulu formlegir ráðningarsamningar við alla starfsmenn þegar við upphaf starfs þeirra og skal framkvæmdastjóri SASS yfirfara þá og staðfesta áður en þeir eru undirritaðir af starfsmanni og yfirmanni stofnunar.

2.7 Starfslýsingar skal gera fyrir öll störf hjá samtökunum. Nýjar starfslýsingar skulu staðfestar af stjórn SASS en lagfæringar og breytingar á þeim vegna nýrra og breyttra verkefna eru í höndum framkvæmdastjóra SASS í samráði við yfirmenn stofnana.

2.8 Taka skal vel á móti nýju starfsfólki svo það finni sig velkomið til starfa. Það skal frætt um vinnubrögð og starfsvenjur á nýjum vinnustað, starfsmannastefnu samtakanna, markmið og starfshætti.

2.9 Starfsmannastefna SASS skal kynnt fyrir öllum nýjum starfsmönnum og skal hún vera hluti af þeim ráðningarkjörum sem ráðningarsamningar byggjast á.

Efst í skjal

3. kafli. Vinnustaðurinn

3.1 Allir starfsmenn SASS skulu leggja sitt af mörkum til að skapa jákvætt og vinsamlegt andrúmsloft á vinnustað. Stuðlað skal að því að jákvætt viðmót og gagnkvæm virðing ríki milli allra þeirra sem starfsmannastefnan nær til. Sama gildir um samskipti starfsmanna og kjörinna fulltrúa í stjórnum og nefndum.

3.2 Ávallt skal haft að leiðarljósi að skapa aðstæður til að vellíðan og heilbrigði starfsmanna sé sem mest. Tryggt skal að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustað starfsmanna sé í samræmi við lög og reglugerðir. Jafnframt er starfsmönnum skylt að fylgja þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra um öryggi og gætni í starfi.

3.3 Leitast skal við að skapa starfsmönnum SASS aðstæður til að samræma kröfur starfs- og fjölskylduábyrgðar eins og kostur er. Konum og körlum skal gert kleift að minnka við sig vinnu tímabundið vegna fjölskylduábyrgðar, s.s. vegna umönnunar barna og sjúkra á heimili. Starfsmenn skulu eiga kost á hlutastörfum og sveigjanlegum vinnutíma eftir því sem aðstæður framast leyfa.

3.4 Hagræða skal vinnuaðstæðum ef kostur er fyrir starfsfólk sem er ekki fullfært um að mæta þeim skyldum og skilyrðum sem almennt eru sett á viðkomandi vinnustöðum sökum veikinda, aldurs eða almenns heilsufars.

3.5 Vinnustaður skal vera reyklaus á grundvelli ákvæða laga og reglugerða þar að lútandi.

3.6 Ekki skulu höfð um hönd vímuefni af neinu tagi. Starfsmönnum sem vilja vinna úr vandamálum sem tengjast misnotkun vímuefna skal veita leiðbeiningar og aðstoð til þess. Ef starfsmaður þarfnast meðferðar á stofnun vegna vanda síns, á hann rétt á sérstöku veikindaleyfi vegna fyrstu dvalar sinnar á meðferðarstofnun. Verði áfram til staðar vandi á þessu sviði hjá viðkomandi sem sannarlega kemur niður á vinnu hans fyrir samtökin skal hann leystur frá störfum, að undangenginni skriflegri áminningu.

Efst í skjal

4. kafli. Starfsskyldur

4.1 Starfsmönnum ber að uppfylla þær skyldur sem settar eru gagnvart viðkomandi í lögum og reglugerðum. Starfsmenn skulu vinna á grundvelli þeirra og fylgja þeim reglum sem í gildi eru í hverri stofnun svo og ákvæðum stjórnsýslulaga.

4.2 Starfsmönnum ber að hlíta lögmætum fyrirmælum yfirmanna sinna, sýna heiðarleika, trúmennsku og vandvirkni og gæta þagmælsku og trúnaðar um atriði sem þeir verða áskynja í starfi enda varði þau hagsmuni sem telja verður þess eðlis.

4.3 Ætlast er til að starfsmenn SASS stundi ekki starfsemi sem telja má að sé í samkeppni við starfsemi samtakanna nema í fullu samráði við yfirmann eða þiggja greiðslur eða annan viðurgjörning frá viðskiptamönnum sem túlka má sem þóknun fyrir greiða.

4.4 Lögð er áhersla á að starfsmenn séu stundvísir og við störf á þeim tíma sem samið hefur verið um og fram kemur í ráðningarsamningi.

Efst í skjal

5. kafli. Stjórnendur

5.1 Með starfsmannastefnunni er gerð sú krafa að stjórnendur tileinki sér góða og árangursríka stjórnunarhætti og þeir hafi yfirsýn yfir verksvið sitt og samhæfi störf undirmanna sinna þannig að markmiðum SASS og stofnananna svo og starfsmannastefnunnar verði náð með sem hagkvæmustum hætti.

5.2 Stjórnendur skulu leitast við eins og kostur er að upplýsa starfsmenn um starfsemi samtakanna og allar ákvarðanir er varða starfssvið þeirra. Upplýsingastreymið skal miða að því að efla sem besta heildaryfirsýn starfsmanna bæði hvað varðar þeirra nánasta starfsumhverfi sem og alla meginþætti í starfsemi samtakanna.

5.3 Stjórnendur skulu leitast við að hafa samráð við starfsmenn um málefni vinnustaðarins og beita sér fyrir sem víðtækastri sátt um stefnu og starfshætti.

5.4 Stjórnendur skulu leggja sig fram um að stuðla að starfsánægju starfsmanna á vinnustað. Þeir skulu kappkosta að leysa ágreiningsefni sem upp kunna að koma milli starfsmanna sem allra fyrst eftir að þeim verður kunnugt um þau og gæta þess að virða andmælarétt aðila í því sambandi.

5.5 Stjórnendur eiga að ræða skipulega og reglulega við starfsfólk sitt á almennum starfsmannafundum og í einkaviðtölum um framkvæmd starfslýsinga, vinnuframlag og möguleika starfsmanna á þróun í starfi, jafnframt því að sinna upplýsingaskyldu sinni gagnvart starfsmönnum skv. starfsmannastefnunni.

5.6 Yfirmenn stofnana skulu reglulega fara yfir starfslýsingar starfsmanna og gera leiðréttingar og breytingar á þeim í samræmi við breytingar á starfi í samráði við framkvæmdastjóra SASS. Slíkar breytingar skulu kynntar öðrum samstarfsmönnum sem málið varðar.

5.7 Yfirmenn stofnana skulu leitast við að dreifa valdi sínu, ábyrgð og verkefnum þannig að undirmenn þeirra hafi möguleika á að þróast og eflast í starfi að teknu tilliti til aðstæðna og gildandi starfssviðs hverju sinni.

5.8 Yfirmenn stofnana skulu skipuleggja störf einstakra starfsmanna og stofnana þannig að framkvæma megi frammistöðumat, árangursúttekt og almennt gæðaeftirlit eftir því sem við verður komið.

5.9 Yfirmönnum stofnana ber að fylgjast með mætingum, fjarveru á vinnutíma og brotthvarfi af vinnustað áður en reglulegum vinnudegi lýkur, kanna ástæður fyrir slíku og gera viðeigandi ráðstafanir ef þörf er á. Einnig skulu forstöðumenn halda skrá yfir orlofs- og veikindadaga starfsmanna.

Efst í skjal

6. kafli. Starfsþróun

6.1 SASS rekur starfsþróunarstefnu sem hefur það markmið að auka starfsánægju og þroska hvers starfsmanns.

6.2 Unnið skal markvisst að bættri verkkunnáttu hvers starfsmanns um leið og unnið er að því að auka hæfni vinnustaðarins til að takast á við síbreytileg viðfangsefni. Fagleg og persónuleg hæfni hvers starfsmanns skal nýtt og aukin með tilliti til sameiginlegra hagsmuna starfsmannsins og vinnustaðarins.

6.3 Samtök sunnlenskra sveitarfélaga skal vera vinnustaður þar sem starfsfólk á möguleika á starfsframa eins og tök eru á. Starfsfólk á þannig að geta eflst í starfi til að geta tekið við nýjum hlutverkum á vinnustað sínum skapist aðstæður til þess.

6.4 Starfsmönnum er skylt að viðhalda faglegri þekkingu sinni í samræmi við síbreytilegar kröfur sem gerðar eru til samtakanna og starfsmanna þeirra og skulu samtökin stuðla að og aðstoða starfsmenn við að afla sér endurmenntunar í samræmi við sérstak endurmenntunaráætlun sem hver stofnun setur fram og leggur fyrir stjórn SASS. Ef nauðsynlegt er að breyta starfslýsingum og verkefnum skulu starfsmenn hlíta því enda samrýmist slíkar breytingar ákvæðum kjara- og ráðningarsamninga viðkomandi.

Efst í skjal 7. kafli. Launastefna

7.1 Launastefna SASS er að greiða fyrir störf hjá samtökunum á svipaðan hátt og tíðkast fyrir sambærileg störf hjá sveitarfélögum og fyrirtækjum þeirra sem reka svipaða starfsemi og gert er hjá SASS. Jafnframt er stefnt að því að að launakjör samtakanna laði að hæft starfsfólk og haldi því í starfi.

7.2 Til að ná þessum markmiðum er það stefna SASS að fela Launanefnd sveitarfélaga umboð til samningagerðar fyrir sem flest störf hjá samtökunum enda vinni nefndin á grundvelli þeirra. Ábyrgð á gerð kjarasamninga vegna annarra starfa ber stjórn SASS, en getur falið framkvæmdastjóra í samvinnu við forstöðumenstofnana frágang samninga eða nánari útfærslu þeirra eftir atvikum.

7.3 Ef starf er þess eðlis að því fylgi þörf á reglulega unninni yfirvinnu sem yfirmaður hefur ekki tök á að hafa náið eftirlit með þá skal hann ákvarða viðkomandi starfsmanni fasta yfirvinnugreiðslu á mánuði í samvinnu við og með staðfestingu framkvæmdastjóra SASS. Skal heildaryfirvinnustundafjöldi ársins samsvara mati aðila á raunverulega unninni yfirvinnu starfsmannsins á sama tímabili. Við ákvörðun fastrar yfirvinnu skulu tímabundnar sveiflur í yfirvinnu innan ársins jafnaðar út á mánaðargrundvelli. Sannarleg breyting á ársgrundvelli til lengri tíma litið á raunverulega unninni yfirvinnu skal leiðrétt í fastri mánaðarlegri yfirvinnugreiðslu eftir sérstakt endurmat aðila í samráði við og með staðfestingu framkvæmdastjóra SASS. Sé ekki um fasta yfirvinnu að ræða skulu framkvæmdastjóri og yfirmenn stofnana annast skráningu eða staðfesta unna yfirvinnu undirmanna sinna.

7.4 Yfirmenn stofnana skulu staðfesta akstursreikninga, dagpeningagreiðslur og aðra reikninga sem undirmenn leggja fram. Ef aksturstarfsmanns á eigin bifreið í þágu samtakanna er reglulegur og yfirmaður hefur ekki tök á að hafa náið eftirlit með honum þá skal hann ákvarða viðkomandi starfsmanni fasta akstursgreiðslu á mánuði í samvinnu við og með staðfestingu framkvæmdastjóra SASS. Skal heildarakstursmagn ársins samsvara mati aðila á raunverulegum akstri starfsmannsins á sama tímabili. Við ákvörðun fastra akstursgreiðslna skulu tímabundnar sveiflur í akstrinum innan ársins jafnaðar út á mánaðargrundvelli. Sannarleg breyting á ársgrundvelli til lengri tíma litið á raunverulegum akstri skal leiðréttur í fastri mánaðarlegri akstursgreiðslu eftir sérstakt endurmat aðila í samráði við og með staðfestingu framkvæmdastjóra SASS. Ef þörf er á verulegum akstri vegna vinnu starfsmanns er það stefna SASS að útvega til þess eigin bifreiðar.

7.5 Ef beiðnir starfsmanna um fasta yfirvinnu og/eða akstursgreiðslur eða breytingar á þeim eru að mati yfirmanns og framkvæmdastjóra SASS þess eðlis að jafna megi þeim við kröfur um bætt launakjör án þess að þær séu grundvallaðar á raunverulegum magnbreytingum skal vísa slíkum beiðnum til umfjöllunar í stjórn SASS. 7.6 Hafi starfsmaður vegna starfs síns bifreið í eigu SASS til umráða skal hún vera merkt samtökunum og nýting hennar eingöngu vera í þágu þeirra. Ef starf er þess eðlis að grípa þurfi til nota á bifreiðinni utan reglulegs vinnutíma er starfsmanni með samþykki yfirmanns heimilt að staðsetja hana við heimili sitt á þeim tíma.

7.7 Hjá SASS skal leitast við að virða eins og kostur er hefðbundna stéttarfélagsaðild starfsmanna og þá verkaskiptingu sem stéttarfélög almennt viðhafa í þeim efnum. Meginreglan skal vera að launa- og starfskjör einstakra starfsmanna séu einungis byggð á einum heilsteyptum kjarasamningi en ekki sótt í fleiri en einn kjarasamning. Einnig að sams konar störf hjá samtökunum tilheyri öll sama stéttarfélaginu enda teljist þau til sömu starfsstéttar.

Efst í skjal

8. kafli. Starfsferill

8.1 Hjá SASS skal skapa starfsfólki möguleika á samfelldum starfsferli þannig að eftir föngum verði tekið tillit til breytinga á aldri og persónulegum högum, aukinnar reynslu og menntunar, skertrar starfsgetu og fleiri þátta sem geta valdið þörf einstaklingsins fyrir breytingu á starfi.

8.2 Almennir starfsmenn SASS skulu láta af störfum eigi síðar en í lok þess mánaðar sem þeir verða 70 ára. Forstöðumenn stofnana skulu láta af þeim störfum þegar þeir verða 65 ára nema stjórn SASS samþykki annað en eiga þess jafnframt kost að fá önnur minna krefjandi störf án þess að grunnlaun þeirra lækki og lífeyrisréttindi skerðist.

Efst í skjal

9. kafli. Upplýsingar

9.1 Haft skal að leiðarljósi í starfsemi SASS að umboð og ábyrgðarsvið starfsmanna sé skýrt og að skýrar og einfaldar reglur gildi um samskipti, boðleiðir og upplýsingastreymi milli starfsmanna, stjórnarmanna og aðildarsveitarfélaga til þess að upplýsingar eigi greiða leið milli þeirra. Lög, reglugerðir, samþykktir, skipurit og starfslýsingar sem varða samtökin og starfsmenn skulu vera öllum aðgengilegar.

9.2 Framkvæmdastjóri SASS annast samskipti við fjölmiðla að því er tekur til rekstrar og ákvarðana stjórnar SASS. Yfirmenn stofnana skulu gefa fjölmiðlum og öðrum sem eftir leita upplýsingar um starfsemi stofnanana í samræmi við lög þar að lútandi. Berist starfsmanni fyrirspurn frá fjölmiðli um tiltekið atriði sem ekki verður talið almenns eðlis og þar sem ekki liggur fyrir ótvíræð afstaða viðkomandi stjórnar, nefndar eða stofnunar skal starfsmaður vísa fyrirspurninni til viðkomandi yfirmanns stofnunar. Allir stjórnendur á vegum SASS skulu hafa frumkvæði að reglubundinni miðlun upplýsinga um starfsemi þess til fjölmiðla og inn á heimasíðu stofnunarinnar á veraldarvefnum.

Efst í skjal

10. kafli. Framkvæmd

10.1 Framkvæmdastjóri SASS skal hafa eftirlit og umsjón með framkvæmd starfsmannastefnunnar.

10.2. Framkvæmdastjóri SASS hefur yfirumsjón með framkvæmd kjarasamninga og ber ábyrgð á að tryggt sé af hálfu skrifstofu SASS að staðið sé að fullu við öll ákvæði þeirra. Hann úrskurðar um vafaatriði eða vísar þeim áfram til samstarfsnefnda aðila skv. ákvæðum kjarasamninga ef þau eru þess eðlis.

10.3 Framkvæmdastjóri SASS hefur yfirumsjón með gagnasöfnun á vegum skrifstofunnar með það að markmiði að þau séu ávallt aðgengileg eins og við á fyrir forstöðumenn stofnana og stjórn SASS til að byggja á athuganir á stöðu og þróun launatengdra þátta og launakostnaðar hjá SASS.

10.4 Hver stofnun SASS skal gera sérstaka starfsáætlun um framkvæmd starfsmannastefnunnar.

10.5 Ákvæði starfsmannastefnu SASS geta ekki skert kjarasamningsbundin réttindi starfsmanna og skulu þau framkvæmd á grundvelli stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Þannig samþykkt á fundi stjórnar SASS 3. nóvember 1999.