Um SASS

 Samþykktir  Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga

 

Markmið og hlutverk

1.1

Samtökin nefnast Samtök sunnlenskra sveitarfélaga, skammstafað SASS. Rétt til aðildar eiga öll sveitarfélög í Suðurkjördæmi. Heimilisfang samtakanna og varnarþing  er að Austurvegi 56 á Selfossi. Samtökin eru þjónustu- og samstarfsvettvangur sveitarfélaganna.

 1.2

Starfsemi SASS gundvallast á 86. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.

Markmið samtakanna eru:

 *      að vinna að hagsmunamálum íbúa aðildarsveitarfélaganna.

*      að vera samráðsvettvangur aðildarsveitarfélaganna.

*      að gæta  hagsmuna aðildarsveitarfélaganna á innlendum sem erlendum vettvangi.

*      að vera aðildarsveitarfélögunum til ráðgjafar um málefni sveitarfélaga.

*      að styðja starf annarra byggðasamlaga aðildarsveitarfélaganna í samræmi við óskir stjórna þeirra hverju sinni.

Um aðalfund SASS og félagafundi

2.1

Aðalfund SASS skal halda á ársþingi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga fyrir lok októbermánaðar ár hvert.  Á ársþinginu eru einnig haldnir aðalfundir Atvinnuþróunarfélags Suðurlands, Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, Skólaskrifstofu Suðurlands og Sorpstöðvar Suðurlands.  Heildarskipulagning ársþingsins skal vera í höndum stjórnar SASS.  Á kosningaári  sveitarstjórna skal þó halda hann  eigi síðar en 15. september. Aðalfundur mótar stefnu samtakanna og ákveður  hvaða mál skuli lögð mest áhersla á fram að næsta aðalfundi.

 2.2

Aukaaðalfund skal boða ef þörf krefur að mati stjórnar eða ef þriðjungur  aðildarsveitarfélaga krefst þess.  Sömu reglur gilda um þá og reglulega aðalfundi.

 2.3

Stjórn SASS semur dagskrá aðalfundar og skal hún  send þingfulltrúum eigi síðar en tveimur vikum fyrir aðalfundinn og skulu aðildarsveitarfélög hafa tilkynnt um fulltrúa á aðalfund fyrir þann tíma.  Með aðalfundarboði skal senda tillögu að fjárhagsáætlun næsta árs, endurskoðaða ársreikninga, ársskýrslu stjórnar  SASS, skýrslur nefnda, tillögur stjórnar og tillögur sem borist hafa  frá  aðildarsveitarfélögunum.  Jafnframt skal senda út með fundarboði; ársskýrslu, ársreikning og fjárhagsáætlun Menningarráðs Suðurlands.

 2.4

Tillögur og ályktanir sem hljóta eiga afgreiðslu á aðalfundi skal senda stjórn  3 vikum fyrir aðalfund. Enga ályktun eða tillögu má bera upp til samþykktar, nema hún hafi verið kynnt og afgreidd frá nefnd.

Um kosningar til aðalfundar SASS

 3.1

Á aðalfundi SASS eiga sæti:

  1. a.      Einn fulltrúi fyrir sveitarfélag sem hefur 200 íbúa eða færri.
  2. b.      Tveir fulltrúar fyrir sveitarfélag sem hefur 201 til 500 íbúa.
  3. c.       Þrír fulltrúar fyrir sveitarfélag sem hefur 501 til 1000 íbúa
  4. d.     Sveitarfélag með yfir 1000 íbúa skal auk þess fá einn fulltrúa fyrir hvert byrjað þúsund íbúa.
  5. e.      Stjórnarmenn SASS og framkvæmdastjórar aðildarsveitarfélaga með málfrelsi og tillögurétti séu þeir ekki  kjörnir fulltrúar

 

Miða skal við íbúafjölda sveitarfélags þann 1. desember næstliðins árs.

Sveitarfélögin þurfa að tilgreina fulltrúa sína á aaðlfundi með kjörbréfi.

3.2

Kjörgengir eru framkvæmdastjórar sveitarfélaga, sveitarstjórnarmenn og varamenn þeirra. Sveitarstjórnarmaður missir kjörgengi sitt á næsta aðalfundi eftir að hann hættir setu í sveitarstjórn.

3.3

Aðalfundurinn er opinn öllum sveitarstjórnarmönnum aðildarsveitarfélaganna í kjördæminu sem áheyrnarfulltrúum.

Um kosningar á aðalfundi SASS

4.1

Á aðalfundi ræður einfaldur meirihluti atkvæða.  Samþykktum SASS verður þó aðeins breytt á aðalfundi með samþykki 2/3 hluta aðildarsveitarfélaga.

4.2

Á aðalfundi skal kosin 7 manna stjórn samtakanna. Samkvæmt tilnefningu skulu stjórnarmenn kosnir þannig úr þeim hópi manna sem eru kjörgengir skv. gr. 3.2.:  1 úr Árborg, 1 úr Hveragerði eða Ölfusi,  1  úr öðrum sveitarfélögum Árnessýslu, 1 úr Rangárvallasýslu, 1 úr Vestur-Skaftafellssýslu,  1 úr Sveitarfélaginu Hornafirði og 1 úr Vestmannaeyjum.  Jafnmargir skulu kosnir til vara af hverju svæði.  Aðalfundur kýs beinni kosningu formann og varaformann stjórnarinnar úr þessum hópi. Enginn skal eiga sæti lengur en 6 ár samfellt í stjórn. 

4.3

Aðalfundur skal kjósa tvo skoðunarmenn ársreikninga og tvo til vara.  Skulu þeir yfirfara  og árita ársreikninga SASS.

4.4

Á aðalfundi SASS skulu kosnar eftirtaldar fastanefndir sem skipaðar skulu 5 fulltrúum og öðrum 5 til vara: samgöngunefnd, velferðarnefnd, menntamálanefnd, fjárhagsnefnd sem fjallar um fjárhagsáætlun og önnur fjármál samtakanna. Auk þess skal kjósa 7 fulltrúa í kjörnefnd og jafn marga til vara sem gerir tillögur til aðalfundar um kjör í stjórn og nefndir. Jafnframt skulu kosnir 5 aðalmenn í Menningarráð Suðurlands og jafn margir til vara.

4.4

Á aðalfundi SASS skulu kosnar eftirtaldar fastanefndir sem skipaðar skulu 5 fulltrúum, og öðrum 5 til vara: samgöngunefnd, velferðarnefnd, menntamálanefnd, fjárhagsnefnd sem fjallar um fjárhagsáætlun og önnur fjármál samtakanna. Auk þess skal kjósa 7 fulltrúa í kjörnefnd og jafn marga til vara sem gerir tillögur til aðalfundar um kjör í stjórn og nefndir. Jafnframt skulu kosnir 5 aðalmenn í Menningarráð Suðurlands og jafn margir til vara.  Formenn og varaformenn nefnda og ráða skulu kosnir sérstaklega.  Stjórn SASS skal setja nefndum og ráðum erindisbréf að fenginni tillögu viðkomandi nefnda og ráða.

4.5

Á aðalfundi skulu kosnar starfsnefndir fundarins; kjörbréfanefnd sem fer yfir kjörbréf fulltrúa, allsherjarnefnd, mennta- og menningarmálanefnd umhverfis- og skipulagsnefnd,  velferðarnefnd, atvinnumálanefnd, samgöngunefnd og auk þess málefnanefndir sem fjalla um einstök mál sem eru til umræðu.

4.6

Aðalfundur kýs menn í starfsnefndir sem starfa að ákveðnum málefnum milli funda, samkvæmt sérstakri samþykkt aðalfundarins.

4.7

Fundargerðir og fundarsamþykktir aðalfundar skal færa í sérstaka gerðabók og jafnframt gerð grein fyrir öðru því sem gerist á aðalfundi.  Fundargerð skal lesin upp í fundarlok og borin undir atkvæði ef þess er kostur en heimilt er að fela fundarstjóra og fundarritara að ganga frá fundargerðinni.   Setja skal SASS sérstök aðalfundarsköp sem aðalfundur þarf að samþykkja.

Um stjórn og  starfslið

5.1

Stjórnin er málsvari samtakanna á milli aðalfunda og fylgir fram samþykktum stjórnarfunda og aðalfundar. Stjórnin vinnur að stefnumarkandi málum og gerir tillögur um ný mál er leggja skal fyrir aðalfund til ákvörðunar. Stjórn SASS fer jafnframt með yfirstjórn á rekstri SASS og ber ábyrgð á að rekstur sé innan þeirra fjárheimilda sem aðalfundur SASS hefur samþykkt.

 5.2

Stjórnarfundi skal halda eftir þörfum en eigi sjaldnar en 6 sinnum á ári og er stjórnarfundur lögmætur sé meirihluti stjórnarmanna mættur.

 5.3

Í kjölfar aðalfundar  eftir sveitarstjórnarkosningar ræður stjórn samtakanna framkvæmdastjóra til fjögurra ára, markar starfssvið hans og launakjör  og gerir við hann skriflegan ráðningarsamning og skal ráðning hans miðuð við áramót.   Aðra starfsmenn ræður framkvæmdastjóri.  Heimild stjórnar þarf að liggja fyrir, ef um fjölgun stöðugilda er að ræða. Um starfskjör starfsmanna SASS fer samkvæmt ákvæðum kjarasamninga og ráðningarsamnings.  Allar ráðningar skulu vera innan ramma markaðrar sameiginlegrar launa- og starfsmannastefnu, sbr. grein 5.4.

5.4

Stjórn SASS mótar starfsmanna- og launastefna fyrir samtökin.  Framkvæmdastjóri SASS ber ábyrgð á að starfsmanna- og launastefnu verði fylgt sbr. grein 5.5.   Stjórnir annarra byggðasamlaga hafa aðgang að starfsmanna- og launastefnu SASS telji þær þörf á.

5.5

Framkvæmdastjóri sér um daglegan rekstur samtakanna og veitir skrifstofu samtakanna forstöðu og annast framkvæmd málefna þeirra eftir því sem stjórn ákveður og hefur á hendi reikningsskil, fjármálastjórn og starfsmannastjórn. Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á að starfsemin sé rekin innan ramma fjárheimilda. Framkvæmdastjóri hefur einnig umsjón með starfsmanna- og launastefnu SASS,  Atvinnuþróunarfélags Suðurlands, Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, Skólaskrifstofu Suðurlands og Sorpstöðvar Suðurlands. Framkvæmdastjóri á sæti á aðalfundi, stjórnar-og nefndafundum samtakanna.

5.6

Framkvæmdastjóri skal að jafnaði boða stjórnar- og nefndafundi í samráði við formann stjórnar eða nefndar.  Telji formaður stjórnar eða nefndar að óeðlilegur dráttur sé á fundarboðun, getur hann hlutast til um fundarboðunina.  Framkvæmdastjóra er skylt að leggja fyrir stjórn öll meiri háttar erindi og nýmæli.

Um árgjöld

6.1

Framlög sveitarfélaganna til samtakanna ákvarðast á aðalfundi og skulu tillögur um framlög þessi fylgja fjárhagsáætlun hverju sinni.   Framlögin skulu miðast við íbúafjölda sveitarfélaganna 1. desember næstliðins árs.

Um aðild og úrsögn

7.1 

Sækist sveitarfélag eftir aðild að  samtökunum skal það senda umsókn til stjórnar eigi síðar en mánuði fyrir aðalfund og skal leggja umsóknina fyrir aðalfund.   Meirihluta atkvæða þarf fyrir samþykki um aðild.  Ef umsókn um aðild er samþykkt skal hún taka gildi næstu áramót eftir aðalfund.

7.2

Sveitarfélag sem hefur fengið samþykkta aðild að samtökunum skal greiða fyrir eignarhlut sinn í hlutfalli við íbúafjölda.  Miða skal við hreina eign samtakanna. 

7.3

Kjósi sveitarfélag að hætta þátttöku í samtökunum, skal tilkynna það stjórninni eigi síðar en mánuði fyrir aðalfund og taki úrsögnin gildi um næstu áramót á eftir.  Á kosningaári skal úrsögn tilkynnast fyrir 1. júlí.  Við úrsögn skal reikna út eignarhlut eða skuld sveitarfélags í samtökunum. Greiðsla til sveitarfélags, eða frá sveitarfélagi, skal vera í hlutfalli við íbúafjölda.  Hætti sveitarfélag þátttöku í samtökunum þá skal jafnframt fara fram endurskoðun á samþykktum þessum.  Um úrsögn að öðru leyti fer samkvæmt ákvæðum 84. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.

7.4

Samtökin verða ekki lögð niður nema tveir löglega boðaðir fundir samþykki það  með 2/3 hluta atkvæða.  Fundirnir skulu haldnir með a.m.k. tveggja mánaða millibili.  Tillaga að félagsslitum skal fylgja fundarboði.  Áður en seinni fundurinn er haldinn skal afstaða aðildarsveitarfélaga til félagsslitanna liggja fyrir.  Til þess að slit á samtökunum nái fram að ganga þurfa 2/3 hlutar sveitarstjórna aðildarsveitarfélaga að staðfesta þau.

Um lagabreytingar og gildistökuákvæði 

8.1

Breyta má samþykktum þessum á aðalfundi ár hvert og skulu tillögur um breytingar á samþykktum fylgja fundarboði.  Tillögur til breytinga á samþykktum skulu sendar stjórn þremur vikum fyrir aðalfund.

8.2

Breyting á samþykktum telst samþykkt, ef hún nýtur stuðnings 2/3 hluta þingfulltrúa á lögmætum aðalfundi.

8.3

Samþykktir þessar  öðlast gildi við samþykki þeirra.

Þannig samþykkt á aðalfundi SASS,  16. október 2009