fbpx

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur boðað til samstarfs vegna aðgerða á Byggðaáætlun 2018-2024 um Náttúruvernd og efling byggða (C9). Um er að ræða verkefni sem fellur einnig að stefnu ríkisstjórnarinnar um átak í friðlýsingum og að skoðaðir verði möguleikar á þjóðgörðum á öðrum svæðum en nú er.

Tilgangur verkefnisins er að greina tækifæri og mögulegan ávinning í héraði af þjónustu sem byggist á nýtingu og umsjón friðlýstra svæða, svo sem í náttúrutengdri ferðaþjónustu. En meginmarkmiðið er að náttúruvernd stuðli að eflingu byggða.

Verkefnið byggir á greiningu á hagrænum áhrifum friðlýstra svæða sem unnin hefur verið af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að frumkvæði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og var kynnt á Umhverfisþingi 9. nóvember sl. Einnig vinnur Hagfræðistofnun, í samvinnu við fleiri aðila, að stöðugreiningu samfélagslegra áhrifa friðlýstra svæða á nærsvæði, sem verða grunnupplýsingar við greiningu á tækifærum og mögulegum ávinningi af nýtingu og umsjón friðlýstra svæða.

Unnið er með svæði með verndargildi sem þurfa að njóta formlegrar verndar samkvæmt mati stjórnvalda og/eða ályktun Alþingis:

  1. Náttúruminjaskrá B: Friðlýsing á nýju svæði.
  2. Stefna ríkisstjórnar: Miðhálendisþjóðgarður.
  3. Verndarsvæði skv. sérlögum (Breiðafjörður, Mývatn og Laxá) þar sem lögð er til stækkun og/eða aukin verndun.
  4. Stefna um sjálfbæra þróun og landsskipulagsstefna: Verndun víðerna.
  5. Núverandi friðlýst svæði þar sem lögð er til stækkun og/eða aukin verndun.

Nú þegar er unnið að friðlýsingu svæða á náttúruverndaráætlun. Sé áhugi fyrir að velja svæði á náttúruverndaráætlun þarf verkefninu að vera lokið á árinu 2019. Svæði sem valin eru geta legið í einum eða fleiri landshlutum og geta verið eitt eða fleiri stök svæði.

Nánari upplýsingar um þessi svæði má m.a. nálgast á kortasjá Náttúrufræðistofnunar Íslands. Þar má sjá tillögur að nýjum svæðum á B-hluta náttúruminjaskrár fyrir vistgerðir og fugla og jarðminjar, núverandi friðlýst svæði og svæði sem njóta verndar samkvæmt sérlögum.

Til ráðstöfunar til verkefnisins eru alls 57 milljónir á tímabilinu 2019-2022. Því má reikna með að hvert verkefni hafi til ráðstöfunar allt að 7 milljónum kr. Verkefnin munu vera á ábyrgð Umhverfis- og auðlindaráðuneytis en framkvæmdir í höndum Landshlutasamtaka sveitarfélaga í hverjum landshluta. 

Tillögur að verkefnum á Suðurlandi skal senda á Þórð Frey Sigurðsson sviðsstjóra þróunarsviðs á netfangið thordur@sass.is fyrir 12. mars n.k.