fbpx

Fyrir ári skipaði Alþingi nefnd til að undirbúa hátíðahöld í tilefni 100 ára afmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands árið 2018 og í dag var haldin kynning í Listasafni Íslands á þeim verkefnum sem afmælisnefnd var falið  samkvæmt þingsályktun þar um. 

1. desember 2017 markar upphaf 100 ára afmæli fullveldis Íslands. Skrifað var undir samning um stærsta verkefni ársins í þingsályktuninni, sýningu á handritum, listaverkum og skjölum sem minna á grundvöll íslenskrar menningar og forsendur sjálfstæðis og fullveldis þjóðarinnar. Einnig voru kynnt önnur verkefni að viðstöddum fulltrúum þeirra verkefna.

Afmælisnefnd var falið að „stuðla að heildarútgáfu Íslendingasagna á afmælisárinu svo að fornar bókmenntir Íslendinga séu jafnan öllum tiltækar“ og samið var við Jóhann Sigurðsson, útgefanda Sögu forlags um verkið. Ritstjórar verksins eru Örnólfur Thorsson, Bragi Halldórsson, Sverrir Tómasson og Jón Torfason. Útgáfustjóri Sögu forlags er Gísli Sigurðsson, rannsóknarprófessor við Árnastofnun, og jafnframt verkefnastjóri útgáfunnar. Auk þeirra vinna Aðalsteinn Eyþórsson og Bergljót Kristjánsdóttir að verkinu. Útgáfudagur er 1. júní 2018.

Afmælisnefnd var falið að „láta taka saman rit um aðdraganda sambandslaganna, efni laganna og framkvæmd þeirra, svo og rit um inntak fullveldisréttar er Ísland öðlaðist að þjóðarétti árið 1918“ og samið var við Sögufélag um bókina Fullveldi handa byrjendum (bráðabirgðatitill). Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðingur er höfundur hennar og er hugmyndin að bókin verði ríkulega myndskreytt. Jafnframt verður ritgerðasafnið Fullveldisréttur í hugsjón og reynd (vinnuheiti) gefið út um inntak fullveldisréttar. Ritstjórn þess skipa sagnfræðiprófessorarnir Guðmundur Hálfdanarson og Guðmundur Jónsson við Háskóla Íslands, Ragnhildur Helgadóttir, prófessor í lögum við Háskólann í Reykjavík, og Þorsteinn Magnússon, aðstoðarskrifstofustjóri á skrifstofu Alþingis. Höfundar eru Baldur Þórhallsson, Björg Thorarensen, Davíð Þór Björgvinsson, Eva Dóra Kolbrúnardóttir, Guðmundur Hálfdanarson, Guðmundur Jónsson, Ragnhildur Helgadóttir, Rasmus Gjedssø Bertelsen, Silja Bára Ómarsdóttir, Valur Ingimundarson og Þórunn Elfa Bjarkadóttir.

Stærsta einstaka verkefnið verður sýning í samvinnu við Árnastofnun á helstu handritum safnsins til að minna á grundvöll íslenskrar menningar og forsendur sjálfstæðis og fullveldis þjóðarinnar. Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunar og Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, undirrituðu samkomulag þar að lútandi á kálfsskinn sem er táknrænt fyrir handritin.

Afmælisnefnd hefur að undanförnu hvatt til þátttökuverkefna og kannað eftir samstarfi við fjölda aðila og voru þrjú þátttökuverkefni kynnt í morgun.

Landssamband bakarameistara gekk til liðs við afmælisnefndina og ætlar landslið bakara að þróa uppskrift að fullveldisköku sem byggir á gömlum uppskriftum frá upphafi fullveldisins en verður þróuð áfram og færð í nútímalegan búning.  Kakan verður til sölu í bakaríum landsins í kringum 1. desember að ári. 

Hrafnista stendur fyrir þátttökuverkefninu Fullveldisbörnin – aldarafmæli sem felur í sér að næsta sumar býður Hrafnista öllum fullveldisbörnunum til veislu í Hrafnistu í Reykjavík. Þar verður fullveldiskakan forsýnd og smökkuð og fá fullveldisbörnin tækifæri til að koma með álit og ábendingar um þróun hennar.

Umhverfis-Suðurland er þátttökuverkefni í tilefni fullveldisafmælisins sem Samtök sveitarfélaga á Suðurlandi standa fyrir og snýr að umhverfismálum um allt Suðurland. Drög að dagskrá verkefnisins byggja m.a. á umhverfisdögum, viðburðum og fræðslu sem snúa að flokkun, endurvinnslu og tiltekt. Dæmi um fræðsluhugmyndir eru moltugerð, matarsóun, skaðsemi plasts, að halda hænur og taupokasaumur. Verkefnið er unnið í samstarfi umhverfisnefnda sveitarfélaganna ásamt fjölda stofnana, s.s. Náttúrustofu Suðurlands, Kötlu Geopark og Vatnajökulsþjóðgarði.

Merki afmælisársins var jafnframt kynnt. Markmiðið var að fanga anda 100 ára afmælis fullveldis Íslands og hönnun þess var í höndum auglýsingastofunnar Pipars TBWA. Litirnir eru rauður, blár og hvítur og mynstur merkisins sækir fyrirmynd sína til skrauthnúta íslenskra víkinga. Bylgjur þess og óendanleiki lykkjunnar standa fyrir sterk bönd samfélagsins.

Nánari upplýsingar veitir Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, framkvæmdastjóri (862 2277), ragnheidurjona@fullveldi1918.is.