fbpx

Á aðalfundi SASS sem haldinn var á ársþingi samtakanna á Kirkjubæjarklaustri dagana 21. og 22. októbert voru eftirfarandi ályktanir samþykktar:

Atvinnumál
Ársþing SASS haldið á Kirkjubæjarklaustri 21.-22. október 2014 skorar á stjórnvöld að hefja nú þegar vinnu við að ljósleiðaravæða Ísland. Forsenda fyrir jákvæðri byggðaþróun, uppbyggingu- og atvinnu á landsbyggðinni er háhraða nettenging um allt land.

Menntamál
Ársþing SASS shaldið á Kirkjubæjarklaustri 21.-22. október 2014 leggur áherslu á að menntunarstig á svæðinu verði hækkað, m.a. með því að auka tengsl skóla við atvinnulífið og tryggja jöfn tækifæri til náms óháð búsetu Þar skiptir miklu máli að tryggja betra netsamband á öllu svæðinu.

Samgöngur
Ársþing SASS haldið á Kirkjubæjarklaustri 21. og 22. október 2014 leggur áherslu á eftirfarandi atriði við ríkisvaldið til úrbóta í samgöngumálum:

Umferðaröryggi: Mikilvægt er að tryggja öryggi allra vegfarenda með stórauknu fjármagni til viðhalds samgöngumannvirkja. Viðhald vega hefur ekki verið í takt við fjölgun vegfarenda og því brýnt að bæta úr því án tafar. Lögð verði megináhersla á þetta verkefni á næsta ári.

Almenningssamgöngur: Tryggja þarf rekstrarumhverfi almenningssamgangna og að ríkið standi við gerða samninga við sveitarfélögin. Þörf er á skýrari löggjöf um einkarétt sveitarfélaganna og að Samgöngustofu verði tryggð úrræði til að bregðast við brotum á einkaréttinum.

Háhraðanettengingar: Uppbygging háhraða nettengingar þarf að vera forgangsmál í Samgönguáætlun. Háhraða nettenging er forsenda
jákvæðrar byggðarþróunar á landinu öllu og í raun mikilvægasta byggðamál á Íslandi.

Stjórn SASS er falið að fylgja eftir þessum áherslum ársþingsins.

Menningarmál
Ársþing SASS haldið á Kirkjubæjarklaustri dagana 21. og 22. október 2014 minnir á að menningarsamningar ríkis og sveitarfélaga renna út í árslok 2014. Nauðsynlegt er að nýir samningar til lengri tíma verði undirritaðir fyrir lok ársins og fjármagn tryggt til menningarmála, þannig að samfella geti orðið í starfi sunnlensku menningarstofnanna sem eru mjög aðþrengdar eftir niðurskurð á framlögum ríkisvaldsins til málaflokksins síðustu ár. Menningarsamningur við Suðurland var fyrst gerður 2007 og hefur reynslan af honum og starfsemi Menningarráðs Suðurlands verið til fyrirmyndar. Mikilvægt er að heildarfjármagn til menningarmála verði aukið verulega í nýjum samningum til að bæta upp þann niðurskurð sem orðið hefur og tryggja og efla með markvissum hætti áframhaldandi uppbyggingu málaflokksins.

Umhverfis-og skipulagsmál
Ársþing SASS haldið á Kirkjubæjarklaustri dagana 21.- 22. október 2014 leggur áherslu á hagsmunagæslu fyrir sveitarfélögin og vöktun varðandi nýjar lagasetningar og reglugerðir sem varða skipulags- og umhverfismál.
Samstarf verði aukið með gerð svæðisskipulaga sem stuðli að meira samstarfi og samræmingu skipulagsáætlana sveitarfélaganna.
Skipulagsvaldið er hjá sveitarfélögunum og SASS standi vörð um hagsmuni þeirra til að tryggja sjálfstjórnarrétt í skipulagsmálum.

Heilbrigðismál
Ársþing SASS haldið á Kirkjubæjarklaustri dagana 21.- 22. október 2014 leggur áherslu á stefnumörkun um uppbyggingu nýrra hjúkrunarrýma og endurbóta á hjúkrunarýmum sem fyrir eru á starfsvæði SASS.

Stjórn SASS vinnur nú í að kortleggja þörf fyrir endurbætur á hjúkrunarrýmum sem fyrir eru og uppbyggingu nýrra hjúkrunarrýma á starfssvæði SASS með stefnumörkun að markmiði. Í stefnumörkun á að taka mið af þörf fyrir ný hjúkrunarrými skv. biðlistum, endurnýjun eldra húsnæðis (einsmannsstofur í stað fjölbýla) og byggingu hjúkrunarrýma í stað ónothæfs húsnæðis. Jafnframt yrðu kannaðir möguleikar á aukinni heimahjúkrun og félagslegri heimaþjónustu.

Í framhaldi verði skipaður starfshópur sem hafi það að markmiði að móta heildstæðar tillögur í hjúkrunarrýmismálum og öldrunarmálum á svæðinu.

Í ljósi þess að langir biðlistar eru á svæðinu skorar ársþing SASS á stjórnvöld að tryggja fjármagn til uppbyggingar nýrra hjúkrunarrýma og endurbóta eldri bygginga. Þörf fyrir fjölgun hjúkrunar- og hvíldarrýma á svæðinu er veruleg. Samkvæmt samræmdu færni- og heilsumati er staðan nú þannig að 28 manns eru á biðlista eftir hjúkrunarrými og 24 á biðlista eftir hvíldarrými.