fbpx

Fundargerð
aðalfundar SASS
haldinn á Hótel Örk í Hveragerði
18. og 19. október 2018

Setning

Eva Björk Harðardóttir, formaður SASS, setti fundinn og bauð fulltrúa velkomna og þakkaði Hvergerðingum móttökurnar.

Kosning fundarstjóra og fundarritara

Formaður tilnefndi Eyþór H. Ólafsson, Þórunni Pétursdóttur og Garðar R. Árnason sem fundarstjóra og Rósu Sif Jónsdóttur sem fundarritara. Var það samþykkt samhljóða.

Í lok máls síns fól formaður fundarstjórum stjórn fundarins.
Eyþór H. Ólafsson tók til máls og bauð fundargesti velkoma í Hveragerði.

Aðalfundur SASS

Starfsskýrsla 2017 – 2018

Eva Björk Harðardóttir, formaður, flutti skýrslu stjórnar. Kynnti hún nýja stjórn SASS. Starfsskýrsla SASS var kynnt á fundi í byrjun júní af fyrrum formanni samtakanna og því kynnti Eva Björk eingöngu helstu verkefni SASS á liðnu tímabili.
Stjórnin ætlar að vinna saman að samgöngu-, orku-, heilbrigðis-, umhverfis-, mennta- og löggæslumálum. Styrking sveitarstjórnarstigsins er einnig málefni sem vinna þarf að en sótt er að úr öllum áttum að sameina sveitarfélögin. Líklegt er að mikil umræða verði um sameiningar sveitarfélaga. Það þarf að gera upp við sig hvort vilji er fyrir sameiningu en líklega verður ekki hjá því komist í einhverri mynd. Fjárlaganefnd hefur óskað eftir fundi með stjórn SASS og hann verður haldinn á morgun.
SASS á 50 ára afmæli á næsta ári, hefur komið upp sú hugmynd að vinna að því tilefni að forvarnarstarfi með ungmennaráðum og æskunni.
SASS hefur unnið að hinum ýmsu stefnum sem hafa verið settar fram og næst með því aukin skilvirkni en einnig verður unnið að ákveðnum verkefnum s.s. um rekstur á sjúkraþyrlu á Suðurlandi. Á næsta tímabili verður m.a. unnið að sameiginlegri búfjársamþykkt fyrir Suðurland og sorp- og orkumálum. Ræddi Eva um stöðu almenningssamgangna en staðan þar er grafalvarleg. Verið er að leita leiða til að halda úti áframhaldandi rekstri á almenningssamgöngum í landshlutanum. Velt er upp spurningunum: á að skera niður, hvar á að skera niður og erum við með því að skera niður að eyðileggja uppbyggingu á almenningssamgangnakerfinu?
Í lokin sagðist Eva Björk hlakka til að nota þingdagana og kvöldið með fundarmönnum.

Ársreikningur SASS 2017

Bjarni Guðmundsson, framkvæmdastjóri, kynnti ársreikning SASS fyrir árið 2017. Tekjur SASS 2017 voru 146 m.kr., rekstrargjöld 169 m.kr., fjármunatekjur 1 m.kr. og rekstrartap ársins var því 22 m.kr. Tapið skýrist af tapi á rekstri almenningssamgangna. Uppgjörið við Brú lífeyrissjóð er ekki meðtalið í framangreindu þar sem hvert aðildarsveitarfélag greiddi sinn hluta af skuldbindingu samtakanna.

Lagt er til að vísa ársreikningnum til fjárhagsnefndar. Var það samþykkt samhljóða.

Fjárhagsáætlun SASS 2019

Bjarni Guðmundsson, framkvæmdastjóri, kynnti fjárhagsáætlun SASS fyrir árið 2019 og fór yfir forsendur tekju- og gjaldaliða.

Lagt er til að vísa fjárhagsáætlun til fjárhagsnefndar. Var það samþykkt samhljóða.

Eyþór tók til máls og lagði hann fram svohljóðandi tillögu stjórnar SASS að kjörbréfanefnd.

Kjörbréfanefnd             Sveitarfélag
Ari Björn Thorarensen    Sveitarfélagið Árborg
Aldís Hafsteinsdóttir       Hveragerðisbær
Kristján Guðnason          Sveitarfélagið Hornafjörður

Var tillagan samþykkt samhljóða og tók kjörbréfanefnd þegar til starfa.

Starfsemi SASS

Þórður Freyr Sigurðsson, sviðsstjóri, fór yfir starfsemi þróunarsviðs SASS.
Minnti hann á að starfsskýrslu SASS er hægt að nálgast á heimasíðu samtakanna. Kynnti hann fyrst samstarfsaðila á svæðinu en stöðugildin sem þeir sinna eru 6. Það er mismunandi hve mikið hver og einn ráðgjafi vinnur en nokkrir koma aðeins inn í tilfallandi verkefni. Það eru tæp þrjú ár síðan að skipulaginu var breytt og hefur það skilað sér vel. Öll starfsemin vinnur eftir stefnu sóknar- og byggðaráætlunar Suðurlands. Unnar eru greiningar, veitt ráðgjöf, með áherslu á atvinnu- og menningarmál ásamt styrkveitingum. Í sumar var samþykkt ný byggðaráætlun og er verið að vinna út frá henni, einnig var á árinu gerður nýr samningur við Byggðastofnun sem fjármagnar störf ráðgjafa á móti SASS.
Fyrstu verkefni nýrrar byggðaráætlunar eru „sértæk verkefni sóknaráætlunarsvæða“ en Byggðastofnun mun úthluta úr samkeppnispotti til landshlutasamtakanna, en einungis þau geta sótt um. Önnur aðgerð snýr að „fjarvinnslustöðvum“, þar geta ríkisstofnanir sótt um í pott. Þriðja verkefnið er „framlög vegna verslunar í strjábýli“ og geta sveitarfélög sem búa langt frá þéttbýlustu stöðunum sótt um þar. Hann hvetur sveitarfélög að nýta sér þetta og einnig til að leita til ráðgjafa á vegum SASS ef einhverja aðstoð vantar.
Uppbyggingarsjóður Suðurlands er að úthluta 70- 80 m.kr. árlega til verkefna. Það er mikil ásókn í sjóðinn sem er gleðiefni. Nú er verið að vinna úr umsóknum úr síðari úthlutun 2018 en um 120 umsóknir bárust.
Uppbyggingarsjóðurinn er góð tenging við atvinnu- og menningarlíf í landshlutanum.
Útbúið var nýtt kynningarefni, bæklinga og auglýsingar og tekið var í notkun nýtt umsóknarform. Það er mikil breidd í verkefnum sem ráðgjafar koma að.
Gerð þjónustukönnunar er orðinn árviss viðburður meðal umsækjanda í sjóðinn. Mikil ánægja er með verkefnin, starfsmenn og þá ráðgjöf sem veitt er. Reynt er að skoða eftir bestu getu hvernig ráðgjöfin er að virka. Þeir sem fá ráðgjöf eru líklegri til að fá styrk. Verkefni sem rágjafar eru að aðstoða við eru m.a. að sækja um í öðrum sjóðum og eru að fá styrki frá þeim.
Benti Þórður á að hægt sé að lesa um einstök verkefni í starfsskýrslu á vef SASS.
Átakið Umhverfis Suðurland sem á uppruna sinn í tillögum og ályktunum af ársþingi SASS á síðasta ári hefur heldur betur skilað sér.
Önnur landshlutasamtök hafa verið að taka upp verkefni sem eiga uppruna hér á Suðurlandinu, má þar nefna, kortavef, ungmennaráð, fyrirtækjagrunna og starfamessu. Næstu skref eru að meta árangur/stöðu sóknaráætlunar 2015-2019 og ákvarða málefni næstu sóknaráætlunar 2020 – 2024, samræma stefnur í landshlutanum og þróa áfram verklag, framkvæmd og hlutverk sóknaráætlunar.

Fundarstjóri gaf orðið laust.

Til máls tók Ásta Stefánsdóttir.

Undirritun samnings um rannsóknarsetur um sveitarstjórnarmál á Laugarvatni
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, skrifuðu undir samstarfssamning um að rannsóknir, nám og önnur fræðsla um sveitarstjórnarmál yrðu efld til muna í nýju Rannsóknarsetri um sveitarstjórnarmál á Laugarvatni. Báðir ávörpuðu þingið en ávarpi ráðherra verður gerð skil hér á eftir.

Íbúaþróun á Suðurlandi
Þórður Freyr Sigurðsson fjallaði um íbúaþróun á Suðurlandi en íbúum hefur fjölgað mikið og þó mest á síðustu 3 til 4 árum. Fór hann yfir íbúaþróun og fjölda útsvarsgreiðenda. Í sumum tilfellum eru útsvarsgreiðendur fleiri en íbúar. Ástæða þess getur verið mikil íbúavelta á svæðum sem gerir það að verkum að sama starfið er unnið af fleirum en einum starfsmanni á ári. Fór hann yfir fjölda utangarðsskráninga á Suðurlandi sem hefur aukist mjög á árunum 2016 og 2017. Í sumum bæjarfélögum stoppa erlendir ríkisborgarar innan við ár á staðnum á meðan 5% íslenskra ríkisborgara koma og fara á sama tímabili.
Þórður fór yfir íbúaveltu eftir sveitarfélögum og ríkisfangi með og án utangarðsskráningar. Það er ólíkt milli sveitarfélaga hvert hlutfall erlendra ríkisborgara er.
Það er hægt að segja að atvinnuleysi hafi þurrkast út á svæðinu árið 2015 en þá er ferðaþjónustan að taka fyrsta stóra stökkið og manna þarf margar stöður með skömmum fyrirvara og í stuttan tíma á meðan á uppbyggingu stendur.
Það eru mikil tækifæri í að fjölga fjölskyldufólki í þeim hópi sem kemur og vinnur. Íslenskum ríkisborgurum í Mýrdalshreppi fækkar þrátt fyrir fjölgun starfa, börnum á leik- og grunnskóla aldri er líka að fækka. Í sumum tilfellum er hægt að segja að fjölgunin sé borin uppi af erlendum ríkisborgurum sem koma og vinna í stuttan tíma. Það þarf að fjölga sérhæfðum störfum á svæðinu, efla innviði og þjónustu. Efla þarf aðlögun erlendra ríkisborgara og fjölga fjölskyldufólki í þeirra hópi.

Lögaðilar – gagnagrunnur
Hrafn Sævaldsson tók til máls og sagði frá áhersluverkefninu „Lögaðilar- gagnagrunnur“. Um er að ræða gagnagrunn og eru allir lögaðilar á Suðurlandi og einhverjir fáir aðilar utan Suðurlands skráðir í gagnagrunninum. Búið er að skrá um 60 breytur en það eru 7.500 lögaðilar skráðir og fer þeim stöðugt fjölgandi í gagnagrunninum. Uppfærslur eru keyptar frá Creditinfo alls 4 sinnum á ári en einstaka aðila þarf að handskrá inn. Gagnagrunnurinn er í eigu SASS og eru stöðugar endurbætur og ný gögn að bætast við. Hægt er að brjóta grunninn niður í 665 rekstrarform eftir hinum ýmsu formum. Gögnin eru yfirfæranleg. Lögð hefur verið áhersla á góða meðferð upplýsinga og er trúnaður mikilvægur.
Ræddi hann um hver tilgangurinn væri, það er verið að svara eftirspurn eftir upplýsingum og spurningum haghafa innan og utan landshlutans, skilja innviði og uppbyggingu atvinnulífsins, til að öðlast þekkingu og miðla henni. Gögnin bæta ákvarðanir og í þeim felast verðmæti o.fl.
Ýmsar gagnaveitur eru notaðar til að afla þessara ganga. Það eru engar beinar fyrirmyndir hér á Íslandi þannig að það er óhætt að segja að þetta sé frumkvöðlastarf. Önnur atvinnuþróunarfélög o.fl. hafa haft samband og sýnt þessu áhuga þetta er gríðarlega öflugt verkfæri til að eiga samskipti við atvinnulífið og til að hafa yfirsýn.
Sýndi hann sem dæmi samantekt úr kerfinu fyrir sjávarútveginn í Eyjum.
Með því að nýta þennan gagnagrunn má fá upplýsingar fyrir atvinnulífið og betri skilning á því. Verkefnið er í stöðugri þróun og verður í raun aldrei lokið.

Niðurstöður kjörbréfanefndar
Aldís Hafseinsdóttir, formaður kjörbréfanefndar, kvaddi sér hljóðs og kynnti niðurstöðu um lögmæti fundarins. Kom fram að kjörnir fulltrúar eru 64 en gild kjörbréf eru fyrir 58 fulltrúa. Alls eru 53 aðalfulltrúar mættir og 5 varamenn. 6 eru fjarverandi. Fundurinn úrskurðast því lögmætur.

Kosning starfsnefna ársþings

Eyþór H. Ólafsson, fundarstjóri, bar upp eftirfarandi tillögur að starfsnefndum:

Starfsnefndir á ársþingi SASS 2018

Kjörnefnd
Aldís Hafsteinsdóttir           formaður, Hveragerðisbær
Kristján Sigurður Guðnason  varaform. Sveitarfélagið Hornafjörður
Drífa Bjarnadóttir                   Mýrdalshreppur
Haraldur Eiríksson                 Rangárþing ytra
Ingibjörg Harðardóttir             Grímsnes- og Grafningshreppur
Valgerður Sævarsdóttir          Bláskógabyggð
Helgi Haraldsson                   Sveitarfélagið Árborg
Steinar Lúðvíksson                Sveitarfélagið Ölfus
Alda Alfreðsdóttir                   SASS – Ráðgjafi

Atvinnumálanefnd
Grétar Ingi Erlendsson       Sveitarfélagið Ölfus og stjórn SASS, formaður
Björgvin Skafti Bjarnason      Skeiða- og Gnúpverjahreppur
Drífa Bjarnadóttir                   Mýrdalshreppur
Eggert Valur Guðmundsson Sveitarfélagið Árborg
Eydís Þ. Indriðadóttir            Flóahreppur
Guðrún Jóhannsdóttir           Sveitarfélagið Árborg
Helgi S. Haraldsson              Sveitarfélagið Árborg
Hrafnkell Guðnason              Flóahreppur
Kolbeinn Sveinbjörnsson      Bláskógabyggð
Kristján S. Guðnason            Sveitarfélagið Hornafjörður
Trausti Hjaltason                   Vestmannaeyjabær
Þorbjörg Gísladóttir               Mýrdalshreppur
Brynja J. Jónasdóttir              Ásahreppur
Hrafn Sævaldsson                 Þekkingarsetur Vestmannaeyja – Ráðgjafi

Allsherjarnefnd
Christiane L. Bahner           Rangárþing eystra, formaður
Árni Eiríksson                        Flóahreppur
Ásta Stefánsdóttir                  Bláskógabyggð
Garðar R. Árnason                Hveragerðisbær
Jón G. Valgeirsson                Hrunamannahreppur
Magnús Gíslason                  Sveitarfélagið Árborg
Matthildur Ásmundardóttir     Sveitarfélagið Hornafjörður
Steinar Lúðvíksson                Sveitarfélagið Ölfus
Valtýr Valtýsson                     Ásahreppur
Yngvi Harðarson                   Rangárþing ytra
Þórður Freyr Sigurðsson       SASS – Ráðgjafi

Fjárhagsnefnd 
Helgi Kjartansson                  Bláskógabyggð og stjórn SASS, formaður
Gísli Halldór Halldórsson         Sveitarfélagið Árborg
Helga Kristín Kolbeinsdóttir     Vestmannaeyjabær
Hjalti Tómasson                       Rangárþing ytra
Ingibjörg Harðardóttir               Grímsnes- og Grafningshreppur
Kristín Magnúsdóttir                 Sveitarfélagið Ölfus
Bjarni Guðmundsson               SASS – Ráðgjafi

Mennta- og menningarmálanefnd
Arna Ír Gunnardóttir               Sveitarfélagið Árborg og stjórn SASS, formaður
Bjarni Þorkelsson                     Grímsnes- og Grafningshreppur
Einar Bjarnason                        Skeiða- og Gnúpverjahreppur
Eva Björk Harðardóttir              Skaftárhreppur og form. stjórnar SASS
Íris Róbertsdóttir                       Vestmannaeyjabær
Jón Bjarnason                          Hrunamannahreppur
Katrín Gunnarsdóttir                 Skaftárhreppur
Kjartan Björnsson                     Sveitarfélagið Árborg
Páll Tómasson                          Mýrdalshreppur
Rebekka Rut Leifsdóttir            Ungmennaráð Suðurlands
Sigrún Sigurgeirsdóttir              Sveitarfélagið Hornafjörður
Smári Bergmann Kolbeinsson  Grímsnes- og Grafningshreppur
Yngvi Karl Jónsson                   Rangárþing ytra
Sigurður Sigursveinsson           HfSu – Ráðgjafi

Samgöngunefnd
Njáll Ragnarsson                       Vestmannaeyjabær, formaður
Benedikt Benediktsson               Rangárþing eystra
Einar Freyr Elínarson                  Mýrdalshreppur
Elín Fríða Sigurðardóttir              Rangárþing eystra
Elliði Vignisson                            Sveitarfélagið Ölfus
Gunnar Egilsson                          Sveitarfélagið Árborg
Kristófer A. Tómasson                 Skeiða- og Gnúpverjahrepps
Sandra Brá Jóhannsdóttir            Skaftárhreppur
Sigurður Sigurjónsson                 Hrunamannahreppur
Sólveig Þorvaldsdóttir                  Sveitarfélagið Árborg
Steindór Tómasson                      Rangárþing ytra
Sæmundur Helgason                   Sveitarfélagið Hornafjörður
Valgerður Sævarsdóttir                 Bláskógabyggð
Þórunn Pétursdóttir                      Hveragerðisbær
Dagný Jóhannsdóttir                    Markaðsstofa Suðurlands – Ráðgjafi
Björn Kristinn Pálmarsson            Grímsnes- og Grafningshreppur

Umhverfis – og skipulagsnefnd
Ágúst Sigurðsson                         Rangárþing ytra, formaður
Anton Kári Halldórsson                Rangárþing eystra
Ásta Berghildur Ólafsdóttir           Ásahreppur
Björk Grétarsdóttir                        Rangárþing ytra og stjórn SASS
Bryndís Eir Þorsteinsdóttir            Hveragerðisbær
Elvar Már Svansson                     Skeiða- og Gnúpverjahreppur
Eyrún M. Stefánsdóttir                  Bláskógabyggð
Eyþór H. Ólafsson                        Hveragerðisbær
Finnur Smári Torfason                  Sveitarfélagið Hornafjörður
Halldóra Hjörleifsdóttir                  Hrunamannahreppur
Jón Páll Kristófersson                   Sveitarfélagið Ölfus
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir      Vestmannaeyjabær og í stjórn SASS
Páll Róbert Matthíasson               Sveitarfélagið Hornafjörður
Rósa Matthíasdóttir                       Flóahreppur
Sigurjón Vídalín Guðmundsson    Sveitarfélagið Árborg
Guðlaug Ósk Svansdóttir              HfSu – Ráðgjafi

Velferðarnefnd
Ásgerður K. Gylfadóttir,             formaður Sveitarfél. Hornafjörður og stjórn SASS
Ari Björn Thorarensen                  Árborg og stjórn SASS
Björn Kristinn Pálmarsson            Grímsnes- og Grafningshreppur
Brynhildur Jónsdóttir                     Sveitarfélagið Árborg
Elín Grétarsdóttir                           Ásahreppur
Guðmundur Oddgeirsson              Sveitarfélagið Ölfus
Helga Fjóla Guðnadóttir                 Rangárþing ytra
Hildur Sólveig Sigurðardóttir          Vestmannaeyjabær
Jón Marteinn Arngrímsson             Ungmennaráð Suðurlands
Margrét Harpa Guðsteinsdóttir       Rangárþing ytra
Steinar Sigurjónsson                      Grímsnes- og Grafningshreppur
Ingunn Jónsdóttir                            HfSu – Ráðgjafi

Tillögurnar um skipan starfsnefnda voru bornar undir atkvæði og samþykktar samhljóða.

Tillaga um laun stjórnar og nefnda/ráða

Eva Björk Harðardóttir, formaður, lagði fram tillögu um laun stjórnar, ráða og nefnda.

Tillaga til aðalfundar SASS 18. – 19. október 2018 um laun stjórnar, ráða og nefnda

1. Laun stjórnar skulu nema 4% af þingfararkaupi fyrir hvern fund. Föst mánaðarlaun formanns skulu nema 10% af þingfararkaupi en auk þess fær formaður 4,5% af þingfararkaupi fyrir hvern stjórnarfund. Fyrir aðra fundi í ráðum og nefndum skulu þau nema 3% af þingfararkaupi fyrir hvern fund.

2. Laun fulltrúa í ráðum og nefndum skulu nema 3% af þingfararkaupi fyrir hvern fund. Laun formanns ráðs eða nefndar skulu nema 4% af þingfararkaupi fyrir hvern fund.

3. Fulltrúar í stjórnum, ráðum og nefndum skulu fá greitt fyrir akstur til og frá fundarstað skv. akstursdagbók í samræmi við reglur RSK um aksturskostnað.

Fundarstjóri gaf orðið laust.

Enginn tók til máls.

Lagt er til að vísa tillögu að launum stjórnar, nefnda og ráða til fjárhagsnefndar. Var það samþykkt samhljóða.

Umræður

Fundarstjóri gaf orðið laust. Enginn tók til máls.

Eva Björk Harðardóttir, formaður, tók til máls og óskaði Laugvetningum og Bláskógabyggð til hamingju með Rannsóknarsetrið að Laugarvatni og þakkaði ráðuneytinu og HÍ fyrir aðkomu að uppbyggingu þess.

Ávarp
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, ávarpaði þingið og óskaði Aldísi Hafsteinsdóttur til hamingju með formannskjörið hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Hann talaði um að þessi vettvangur væri góður kostur til að ná til sveitarstjórnarmanna og var sérstök ánægja að geta undirritað samninginn um Rannsóknarsetur um sveitarstjórnarmál í dag. Ekki voru allir sáttir við flutning á starfsemi íþróttamála frá Laugarvatni. Samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytið mun styðja við verkefni með árlegu framlagi í þrjú ár, heildarstyrkfjárhæðin nemur um 36 m.kr. Þetta verkefni sendir jákvæð skilaboð út í semfélagið og er gott dæmi um það sem hægt er að gera ef vilji er fyrir hendi.
Almennt hefur þróun mála á Suðurlandi verið góð undanfarin ár og er staða landshlutans býsna sterk. Íbúavöxtur hefur verið mikill og hefur í raun orðið fjölgun um allt Suðurland, mið- og austurhluti svæðisins hefur vaxið með aukningu í ferðaþjónustu. Það er verkefni fyrir sóknaráætlun landshlutans að halda utan um og tryggja áframhaldandi vöxt á svæðinu. Stuðningur við frumkvöðla- og nýsköpunarstarf er mikilvægur. Svona vöxtur getur þó verið erfiður. Framboð eftir húsnæði er minna en eftirspurnin, stækka þarf skóla og annað til að allt gangi upp. Passa þarf upp á þjónustu sem ríkið er með tenginu við.
Í nýrri byggðaráætlun er nú í fyrsta skipti aðgerð sem fjallar um vaxtarsvæðin og er markmiðið að koma á samráðsteymum svæða Byggðastofnunar og draga fram lykilatriði fyrir svæðin varðandi stefnumótun. Honum finnst koma til greina að í regluverki Jöfnunarjóðs verði tekinn upp stuðningur við vaxtasvæði, það verður að úthluta í samræmi við vöxt.
Samgöngumál eru mikið í umræðunni þessa dagana og hefur framlag til þeirra mála verið hækkað. Í ár hafa nú þegar verið lagðir miklir fjármunir í lagfæringu vega og hefur sú aukning líklega aldrei verið meiri en nú, en betur má ef duga skal. Það þarf meira fjármagn á öll svæði en það verður að horfa á allt landið og forgangsraða. Framkvæmdaáætlun er jákvæð til næstu fimm ára. Auka á verulega fjármagn til vetrarþjónustu, einnig hækka styrki til almenningssamgangna og framlag til flugvalla. Hvalfjarðargöngin voru nú nýlega gerð gjaldfrjáls og er verið að skoða hvernig má nýta Hvalfjarðarmódelið á fleiri stöðum, t.d. með byggingu brúar yfir Hornarfjarðarfljót, við byggingu Ölfusárbrúar og vinnu við göng í gegnum Reynisfjall.
Samgönguáætlun gerir ráð fyrir að grunnnet samgangna verði að fullu uppbyggt fyrir utan hálendisvegi eftir 15 ár. Umferðamestu vegirnir verða flestir komnir með 2 + 1.
Ræddi hann um sameiningu sveitarfélaga. Gefa má sveitarfélögum svigrúm í fjögur til átta ár í frjálsar sameingingar, eftir þann tíma er líklegt að taki í gildi ákvæði í sveitarstjórnarlögum um lágmarksíbúafjölda.
Að lokum ræddi hann um mikilvægi góðarar samvinnu milli ríkis og sveitarfélaga og að hans dyr standi sveitarstjórnarfólki opnar. Hann vonast eftir að heyra í og sjá sem flesta hjá sér.

Ávarp
Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga

Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, ávarpaði þingið og þakkaði fyrir stuðninginn í formannsslagnum. Hún skilaði góðum kveðjum frá Karli Björnssyni og starfsmönnum sambandsins.
Fór hún yfir úrslit sveitarstjórnarkosninga en kosningaþátttaka hefur farið niður á við undanfarin ár. Árið 2018 var kosninga þátttaka 67,7%. Konum hefur fjölgað í sveitarstjórnum sem er fagnaðarefni.
Sýndi hún skipurit sambandsins og fjölda starfsmanna á sviðum innan sambandsins. Einnig kynnti hún nýja stjórn.
Sambandið er hagsmunagæsluaðili fyrir sveitarfélögin í landinu og er samskiptaaðili við ríkið. Eftir að Jónsmessunefnd var komið á hafa orðið mun betri samskipti milli þessara aðila. Árangur af þessari hagsmunagæslu hefur skilað sér, t.d. þegar ríkið tók á sig 24 ma.kr. halla sem sveitarfélög báru ábyrgð á í A-deild LSR o.fl.
Stjórn sambandsins er að fara í kjarasamningsviðræður við 64 stéttarfélög. Kjarasvið sambandsins mun funda um allt land í undirbúningi næstu kjaraviðræðna. Miklar breytingar hafa átt sér stað í forystuliði stéttarfélaga en kröfugerðir eru komnar fram að hluta.
Fór hún yfir fjármál sveitarfélaga á Suðurlandi (A-hluta) samanborið við landið allt á árunum 2012-2017. Öll sveitarfélög á Suðurlandi eru undir 150% skuldahlutfalli. Fór hún yfir skuldir og skuldbindingar sveitarfélaga og veltufé frá rekstri árið 2017.
Stjórn sambandsins er nú að vinna úr niðurstöðu nýliðins landsþings. Unnið er að ýmsum brýnum verkefnum hjá sambandinu, m.a. þarf að auka nýliðun kennara. Nauðsynlegt er að fá gistináttaskattinn yfir til sveitarfélaga strax á næsta ári og kostnaðarmeta þarf kröfulýsingar hjúkrunarheimila og fjármagna. Styðja þarf landshlutasamtökin í samningaviðræðum um almenningssamgöngur o.fl.
Að lokum fór hún yfir nýtt svið hjá sambandinu sem er Upplýsinga- og kynningarmál sambandsins.
Eva Björk Harðardóttir, formaður, tók til máls og óskaði Aldísi til hamingju með nýjan titil og færði henni gjöf frá SASS.

Ungmennaráð Suðurlands – kynning á starfinu
Jón Marteinn Arngrímsson, formaður Ungmennaráðs Suðurlands, úr Grímsnes- og Grafningshreppi og Rebekka Rut Leifsdóttir, Rangárþingi ytra, sem er fulltrúi í Ungmennaráði Suðurlands kynntu starfsemi ráðsins.

Jón kynnti fundargerð frá síðasta fundi Ungmennaráðs Suðurlands. Þar var mikið rætt um hvað vegir væru slæmir á Suðurlandi, hvernig hægt væri að sporna við slysum og hvað má bæta í samskiptum við útlendinga.
Ungmennaráðið vill fá nettengda strætisvagna og að það sé aðgangur að salerni á lengri leiðum, einnig er nauðsynlegt að bílstjórar geti gert sig skiljanlega.
Ræddi hann um áskoranir ungmennaráðs til SASS og sveitarfélaga á Suðurlandi. Vilja þau stuðla að betra fjármálalæsi ungmenna, fjölga leiguíbúðum fyrir skólafólk sem líkja mætti við stúdentagarðana í Reykjavík ásamt því að beita sér fyrir því að koma á heimavist fyrir nemendur í FSu. Bæta á og auðvelda aðgang að námsbókum, einnig þarf að finna leiðir til að aðstoða nemendur í að greiða fyrir almenningssamgöngur. Efla þarf fræðslu um kynjafræði í öllum skólum. Kynda þarf undir hreyfingu fyrir ungmenni og bjóða upp á ferðir í strætó til að þau geti stundað frístundir, bæta úrræði fyrir ungt fólk á Suðurlandi með fíknivanda. Ungmennaráðið óskar eftir stuðningi SASS við forvarnarstarf og vilja fara með fræðslu inn í alla skóla.
Rebekka Rut tók til máls. Sagði frá ungmennaráðinu og verkefnum sem þau hafa verið að vinna að. Ungmennaráð á Suðurlandi vilja meiri samvinnu við SASS.
Fulltrúar í Ungmennaráði Suðurlands eru 11 en ættu að vera 15. Handbók Ungmennaráðs sveitarfélaganna var afrakstur fundar sem haldinn var árið 2016 en handbókin var kláruð á innan við ári og er aðgengileg inni á heimasíðu SASS. Þessi bók er nú til kynningar í öllum sveitarfélögum á Suðurlandi og er nú þegar búið að fara á 4 staði en stefnan er að klára þessar kynningar á þessu ári, hún er kynnt fyrir bæjarfulltrúum, ungmennaráðum og þeim sem þeim stjórna. Ungmennaráð er vettvangur fyrir ungmenni til að koma sínum málum á framfæri. Sum sveitarfélög eiga þó erfitt með að starfrækja ungmennaráð en vonast er eftir því að það standi til bóta. Að lokum hvöttu þau alla til að kíkja á handbókina sjálfa og taka svo vel á móti þeim þegar þau koma og kynna bókina fyrir sveitarstjórnum.
Fundarstjóri gaf orðið laust.

Enginn tók til máls.

Umhverfis- og auðlindastefna Suðurlands
Guðlaug Svansdóttir, ráðgjafi hjá HfSu, og Halldóra Hreggviðsdóttir, ráðgjafi hjá Alta kynntu málið.
Guðlaug Svansdóttir hjá HfSu tók til máls, en eitt af hennar verkefnum hefur verið vinna að mótun umhverfis- og auðlindastefnu Suðurlands. Ákveðið var á síðasta SASS þingi að fara í þessa vinnu og var hún unnin í samstarfi við Alta.
Halldóra Hreggviðsdóttir frá Alta tók til máls.
Rætt var við vel á annað hundrað manns á sjö stöðum á svæðinu og haldnir voru samráðsfundir við gerð umhverfis- og auðlindastefnu fyrir Suðurland. Með umhverfis- og auðlindastefnu fáum við stjórntæki sem sýnir stefnu í nýtingu, verndun og viðhaldi mikilvægra umhverfisþátta og auðlinda. Það er mikilvægt að forgangsraða.
Árangur umhverfis- og auðlindastefnu er samfélags-, umhverfis- og efnahagslegur. Það þarf þó að gæta að því að stefnan sé skýr og byggð á sérstöðu landshlutans. Hún er stjórntæki og umboð til að framfylgja. Tryggja þarf eignarhald og ávinningur þarf að vera sýnilegur.
Ræddi hún um samráðsfundi en þeir sem þá sóttu voru stoltir af landshlutanum sínum. Það þarf að nýta vannýtt tækifæri og vinna hratt að úrlausnum. Huga þarf vel að ferðaþjónustunni, úrgangsmálum, vatnsvernd og frárennslismálum, meðferð lands, auðlindanýtingu, náttúruvá o.fl.
Að lokum fór hún yfir mikilvægi þess að skipulagning og svæðaskipulag sé grunnurinn í að ná árangri í þessum málum.
Eva Björk Harðardóttir, formaður, þakkaði fyrir og vísaði þessu til umræðu í nefndum.

Skipulagsmál

Þjóðgarður á hálendi Íslands – tækifæri og aðkoma sveitarfélaga? Óli Halldórsson, formaður starfshóps um stofnun miðhálendisþjóðgarðs

Óli Halldórsson tók til máls en hann er formaður nefndar um stofnun Miðhálendisþjóðgarðs.
Fór hann yfir af hverju á að stofna þjóðgarð og fyrir hvern. Meginástæðan er til að vernda einstök svæði, vernda menningarminjar, sem dæmi Þingvelli, þar verða til útivistar- og afþreyingarsvæði og til að efla byggð og samfélag fyrir heimamenn. Í upphafi voru þjóðgarðar erlendis stofnaðir fyrir þéttbýlisbúa og þá eru oft rýmd stór svæði og búin til útivistarsvæði. Það eru til slæmar sögur um hvernig sumir þjóðgarðar hafa verið stofnaðir.
Í dag eru þeir stofnaðir oft og tíðum með markaðsstarfsemi fyrir ferðamenn í huga, þá bæði íslenska og erlenda, og að sjálfsögðu fyrir heimafólk sem er oft og tíðum ekki að nýta sér þessa garða nógu vel og náttúruna sjálfa.
Til að stofna þjóðgarð þarf að teikna landamerki, setja lög og byggja hús. Samstarf milli ríkisvaldsins og heimamanna er forsenda þess að hægt sé að stofna þjóðgarð. Stofnunin er ekki einsskiptisaðgerð, þjóðgarður er framtíðarvinna ekki áhlaupaverk. Það er ekki bara stofnkostnaður, það er líka rekstarkostnaður.
Í hálendisþjóðgörðum er mjög fjölþætt starfsemi. Þar eru beitarlönd, samgöngur, virkjanir, háspennulínur og jarðstengir o.fl. Það er nauðsynlegt að fara í þetta verkefni af metnaði, huga að sveitarfélögum þar sem þjóðgarðarnir eru og passa upp á að vinna með heimamönnum.
Sveitarfélög þurfa að tryggja áhrif sín og leyfa sér að horfa á eigin hagsmuni, hvað viljum við gera, viljum við gera þetta sjálf. Spyrja hvort svæðið sé undir of miklu álagi. Þjóðgarðar eru samstarfsverkefni um skipulag afmarkaðs svæðis.

Reynslusaga ferðaþjónustuaðila af uppbyggingu innan þjóðlenda og þjóðgarðs að Fjallsárlóni Steinþór Arnarson framkvæmdastjóri

Steinþór Arnarson, framkvæmdasstjóri Fjallsárlóns, tók til máls og sagði frá reynslu sinni um rekstur og uppbyggingu fyrirtækis innan þjóðgarðs.
Hann byrjaði með fyrirtæki 2013 og var þá í þjóðlendu sem einnig var nýtt af bændum sem beitiland. Fyrirtækið byggði hús og á sama tíma var settur metnaður í að ganga vel um landið. Við upphaf rekstrarins voru fengin leyfi frá bændum og sveitarfélaginu og var leyfið veitt til eins árs í upphafi.
Síðar var leyfið auglýst til lengri tíma og við það urðu gjöldin gríðarlega há.
Engin aðstaða var í upphafi, vegir voru slæmir. Þegar sett er á fót svona fyrirtæki þá þarf að hrinda í framkvæmd hugmynd og afla tekna, bæði fyrir rekstri og fyrir launum fyrir starfsmenn.
Það getur verið snúið að flytja út í sveit með fjölskylduna og fara svo í sjálfstæðan atvinnurekstur. Hann ræddi um skilningsleysi ráðamanna og það reynir oft á þann sem er að byggja upp atvinnu. Það er ekki endilega gott að vera með þjóðgarð í svona miklu návígi við atvinnu sína. Ríkið vill sölsa allt undir sig og ráða.
Það er erfitt að gera áætlanir um markmið og drauma þegar ríkið fer bakdyramegin og selur og ræður. Það er mikil óvissa að vera með fyrirtæki, þú veist aldrei hverju þú átt von á.
Báðum megin við hann eru staðir sem eru að fá styrki frá ríkinu, samanber þjóðgarðinn í Skaftafelli og við Jökulsárlón, og þar hefur ríkið farið út í það að setja upp aðstöðu.
Það er óvissa um lífsviðurværi. Hann er sáttur við samand sitt við sveitarstjórnina. Hugmynd um risastórt svæði undir þjóðgarð hræðir hann þar sem ekki verður hægt að hafa yfirsýn yfir málin og hann óttast peningasóun.

Hvaða lærdóm má draga af nýjum lögum um skipulag haf- og strandsvæða?
Hvar liggur skipulagsvaldið? Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Árborgar
Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri í Árborg, ræddi um þá baráttu sem hann hefur staðið í um skipulag haf- og strandsvæða fyrir Ísafjarðarbæ.
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar ályktaði að betra væri að hafa engin lög heldur en þau sem samþykkt voru síðastliðið vor um skipulag haf- og strandsvæða. Það var fjöldi annarra sveitafélaga og sambandið sem létu í sér heyra varðandi þessi mál en ekki var á það hlustað. Skipulagsvald er ein af grunnstoðum sveitarfélaga og eru fá verkfæri betur til þess fallin að gera sveitarfélögum kleift að móta sér framtíðarstefnu. Eðlilegt er að sveitarfélögin séu með skipulagsvald yfir strandsvæðum. Þegar frumkvæði heimamanna er virkjað, styrkir það um leið sjálfbæra samfélagsþróun, náttúruvernd, atvinnulíf og þróun. Ríkið á að hafa skipulagsvald yfir hafsvæðum.
Skipulagsvald sveitarfélaga á strandsvæðum yrðu mikið til bóta, skipulagsmálin yrðu skilvirkari, heildstæðari og einfaldari. Þekkingin er til staðar hægt væri að efla íbúalýðræði.
Gísli tók líka dæmi um breytingar sem yrðu til bóta með frumvarpinu og dæmi um lög sem hafa skert skipulagsvald sveitarfélaga.
Það þurfa að vera góðar ástæður til að takmarka skipulagsvald sveitarfélaga. Svæðisráð er að mestu skipað fulltrúum ráðuneyta. Skipulagsstofnun sér hins vegar um gerð skipulagsins í umboði svæðisráðs. Strandsvæðaskipulag sem unnið er með þessum hætti missir oft og tíðum tengsl við staðina sem verið er að skipuleggja þar sem ekki er tenging frá sveitarfélaginu. Sveitarfélögum er svo sent skipulagið til umsagnar og eru umsagnirnar, oftar en ekki, ekki teknar til greina sem er miður.

Pallborðsumræður sem Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri í Bláskógabyggð stjórnar

Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri Bláskógabyggðar, tók til máls og stjórnaði pallborðsumræðum og voru Óli Halldórsson, Steinþór Arnarson og Gísli Halldór Halldórsson við pallborðið.

Eyþór H. Ólafsson, ræddi um Vatnajökulsþjóðgarð. Búð er verið að breyta húsum ítrekað við Skaftafell og er yfirgangur stórfyrirtækja við Vatnajökulsþjóðgarð mikill.
Valtýr Valtýsson ræddi um þjóðgarðinn en hann er búinn að vera í tveimur nefndum. Hann vill brýna fyrir sveitarstjórnarmönnum að láta í sér heyra. Ræddi hann um leyfismál en þau eru oft og tíðum hamlandi.

Guðrún Magnúsdóttir ræddi um friðlýsingar. Ef miðhálendisþjóðgarður verður að veruleika, verður að loka 8 afréttum og þá verður sauðfjárbúskapur ekki lengur til á Suðurlandi.

Ágúst Sigurðsson ræddi um miðhálendisþjóðgarðamál og að rödd nytjaréttarhafa hafi ekki heyrst nóg. Af hverju ættu þeir ekki að hafa eitthvað um málið að segja? Hugmynd um miðhálendisþjóðgarð, hvernig á að hafa þessi þjóðgarðsmál, væri betra að hafa þá minni?
Margrét Harpa Guðsteinsdóttir ræddi um hið mikla flækjustig sem verður þegar unnið er að skipulagsmálum, það er svo margt sem stoppar. Verður auðveldara að skipuleggja þegar þjóðgarðar verða orðnir til? Hvernig er að fá framkvæmdaleyfi fyrir þá staði sem hafa áunnið sér hefðarrétt?

Helgi Kjartansson ræddi um það að taka eigi skipulagsvaldið af sveitarfélögunum og einnig um beitarrétt og friðlýsingar.

Óli tók til máls og svaraði fyrirspurnum sem beint var til hans. Ræddi um ýmis vandamál og mistök sem eru í gangi í Vatnajökulsþjóðgarði, aðgang og aksturleiðir inn í þjóðgarðinn, hann vill að það sé í höndum heimamanna að finna út úr því.
Hann telur að það verði auðveldara að skipuleggja eftir að þjóðgarðar verða til.
Steinþór tók til máls og svaraði spurningum sem var beint til hans. Ræddi hann um leyfisgjöld, sveitarstjórnarmenn höfðu þó áður fyrr rétt til að mótmæla, en nú eru aðrir farnir að reyna að taka til sín enn meira vald.
Gísli Halldór tók til máls og svaraði fyrirspurnum sem beint var til hans um strandsvæði skipulag og þjóðgarð. Fyrir margt löngu bað Ísafjarðarbær fleiri um að standa með þeim í baráttu um skipulag strandsvæða, það var ekki fyrr en fyrir stuttu síðan að aðrir voru til í að vera með.
Sveitarfélög þurfa að vinna saman. Þau þurfa að vanda sig og gera hlutina vel og það þarf að koma á svæðisskipulagi fyrir þjóðgarð svo að sveitarfélög hafi sitt skipulagsvald.
Gunnar Egilsson tók til máls. Í stjórn þjóðgarða þarf meirihluti aðila að vera úr sveitarstjórnum. Öll sveitarfélög eiga að standa saman, ekki bara hér á Suðurlandinu, við virðumst alltaf tapa í úrskurðum um skipulagsmál.
Kolbeinn Sveinbjörnsson tók til máls en hann býr nálægt þjóðgarðinum á Þingvöllum. Ríkið ætti að sinna vel þeim málum sem það er með í dag, t.d. með því að tryggja vegina við þá þjóðgarða sem fyrir eru í dag.
Eva Björk Harðardóttir, formaður, þakkaði fulltrúum fyrir umræður á fundinum í dag.
Eyþór H. Ólafsson, fundarstjóri, þakkaði gestum fyrir komuna og frestaði fundi til morguns.
Nefndarstörf hófust.

Fundarstjórar, Eyþór H. Ólafsson og Garðar Árnason, settu fundinn kl. 11:15 þann 19. október.

Umræður og ályktanir ársþings

Hér á eftir fara tillögur, ályktanir og afgreiðslur starfsnefnda.

Samgöngunefnd

Einar Freyr Elínarson, nefndarmaður samgöngunefndar, tók til máls og lagði fram tillögur nefndarinnar á ársþingi SASS 2018.

Samgöngunefnd ályktar eftirfarandi:

Samgönguáætlun Suðurlands
Vísað er til Samgönguáætlunar Suðurlands 2017-2026 sem kynnt var á ársþingi samtakanna 2017. Skýrslan er ákall sveitarstjórna á Suðurlandi um bætta vegi á Suðurlandi, þörf fyrir nýframkvæmdir, viðhald og bætt öryggi á vegum, betri fjarskipti, ljósleiðara sem og GSM samband. Þá fjallar áætlunin um almenningssamgöngur, að flugsamgöngum og ferjusiglingum meðtöldum.
Ársþing SASS 2018 telur að skýrslan sýni að enn sé aðgerða þörf í samgöngum á Suðurlandi, bæði í uppbyggingu og viðhaldi vegakerfisins til að tryggja öryggi vegfarenda.
Ársþing SASS 2018 fer þess á leit við stjórn SASS að farið verði í að uppfæra þá vinnu sem unnin var í áætluninni og í takt við framkvæmdir sem þegar hefur verið ráðist í frá því skýrslan var gerð. Lagt er til að drögin verði lögð fyrir ársþing SASS 2019.

Umferðaröryggi (einbreiðar brýr, yfirborð vegar)
Ársþing SASS 2018 áréttar niðurstöður Samgönguáætlunar SASS 2017-2026 er varðar öryggi á vegum en fagnar þeim úrbætum sem gerðar hafa verið og voru tilteknar í áætluninni.
Ítrekað er mikilvægi þess að fyrirhuguðum áformum varðandi úrbætur á þjóðvegakerfinu gangi eftir um að tryggja umferðaröryggi s.s. merkingar á vegum. Einnig verði hugað að öryggi hjólandi umferðar, hestaumferðar o.s.frv. Er bent á mikilvægi þess að fara í átak í umferðarfræðslu/forvörnum og gæslu. Upplýsingaveitur eru lykilatriði í að fræða ferðamenn til að draga úr slysahættu á vegum landsins.
Ársþing SASS 2018 leggur áherslu á að litið verið til þeirra forgangsverkefna sem fyrrgreind skýrsla samtakanna tekur til og eiga að vera kláraðar fyrir 2020. Slysahætta af einbreiðum brúm er mikil og nauðsynlegt að gera úrbætur þar á.

Almenningssamgöngur
Ársþing SASS 2018 ítrekar áskorun á ríkisvaldið að standa vörð um almenningssamgöngur í landinu. Óboðlegt er að ekki sé fundin lausn á málinu. Ríkið þarf að sýna ábyrgð og tryggja forsendur almenningssamgangna og það rekstrarfjármagn sem þarf til.
Forsenda þess að ársþing SASS 2018 samþykki fjárhagsáætlun samtakanna fyrir árið 2019 er að samningar náist við ríkið um að halda úti óbreyttum rekstri almenningssamgangna út árið 2019 og að ríkið greiði 50 m.kr. til viðbótar í fjármögnun verkefnisins. Það er jafnframt afdráttarlaus krafa ársþings SASS að ríkið geri upp 36 m.kr. halla vegna ársins 2018. Ef ekki tekst að ná fram verulegum hækkunum til málaflokksins við gerð fjárlaga 2019 telur ársþingið nauðsynlegt að hætta rekstri almenningssamgangna um komandi áramót.
Ársþing SASS 2018 ítrekar fyrri ályktanir um að skilvirkt lagaumhverfi um almenningssamgöngur sé forsenda þess að sveitarfélögin á Suðurlandi geti haldið utan um þetta verkefni. Staða mála nú er í raun algerlega óviðunandi fyrir sveitarfélögin en fyrirséð er að tap verður á rekstri almenningssamgangna hjá SASS fjórða árið í röð.
Ársþing SASS 2018 skorar á stjórn SASS og stjórnvöld að ráðast í þarfagreiningu á þjónustu almenningssamgangna til að mæta betur þörfum notendahópana, sem eru m.a. börn, ungmenni og lífeyrisþegar. Almenningssamgöngur bæta búsetuskilyrði í dreifðum byggðum landsins.
Ársþing SASS 2018 tekur undir ályktun Ungmennaráðs Suðurlands um mikilvægi almenningssamgangna fyrir ungt fólk.
Ársþing SASS 2018 leggur áherslu á að skoðaðar verði leiðir við frekari niðurgreiðslu á innanlandsflugi líkt og aðrar almenningssamgöngur. Lagt er til að þess verði farið á leit við stjórnvöld að vinna við skosku leiðina verði kláruð sem fyrst. Áætlunarflug innanlands er mikilvægur hlekkur í almenningssamgöngum og tryggir aðgengi þeirra sem fjærst búa frá höfuðborgarsvæðinu að nauðsynlegri opinberri þjónustu, sérstaklega heilbrigðiskerfinu.
Ársþing SASS 2018 hvetur til þess að fyrirætlanir um millilandaflug verða teknar til skoðunar við endurskoðun Samgönguáætlunar.
Ársþing SASS 2018 ítrekar mikilvægi fyrri ályktana um að ferjusiglingar til Vestmannaeyja verði skilgreindar sem þjóðvegur. Huga þarf að endurbótum á Landeyjahöfn til að tryggja að höfnin verði heilsárshöfn.

Sjóvarnargarðar, Grynnslin og hafnir á Suðurlandi
Ársþing SASS 2018 ítrekar fyrri ályktanir um að tryggja nægjanlegt fjármagn til viðhalds, rannsókna og uppbyggingar hafna á starfssvæði samtakanna. Vísað er til Samgönguáætlunar Suðurlands 2017-2026 þar sem ítarlega er gert grein fyrir þessum þáttum.

Höfnin í Þorlákshöfn
Ársþing SASS 2018 krefst þess að stjórnvöld tryggi fjármagn til áframhaldandi eflingar og uppbyggingar hafnar í Þorlákshöfn. Höfnin í Þorlákshöfn er orðin gríðarlega mikilvæg hvað varðar atvinnuuppbyggingu fyrir Suðurland í heild.

Vegtollar
Ársþing SASS 2018 leggur til að kafli um veggjöld í Samgönguáætlun SASS 2017-2026 verði endurskoðaður og unnið verði með hugmyndir að heildrænum lausnum hvað varðar veggjöld.
Lögð er áhersla á að hugmyndir um gjaldtöku verði hugsaðar heildrænt og að gjaldtaka einstakra nýframkvæmda séu teknar til sérstakrar skoðunar. Áréttað er að ávallt sé fær hjáleið við gjaldskylda vegi til að tryggja jafnræði búsetu í dreifðum byggðum landsins.
Þá er lögð áhersla á að skipting núverandi tekjustofna skili sér til samgöngubóta og mikilvægt að skipulagsákvörðunarréttur sveitarfélaga sé virtur við nýframkvæmdir vega.

Háhraðatenging
Ársþing SASS 2018 fagnar stefnu ríkisstjórnar í ljósleiðaravæðingu landsins og leggur áherslu á að haldið verði áfram á sömu braut enda er háhraðatenging forsenda búsetu og uppbyggingar atvinnulífs í landinu.
Njáll Ragnarsson, Vestmannaeyjabær og formaður nefndar
Dagný Hulda Jóhannsdóttir, SASS – Markaðsstofa Suðurlands og starfsmaður nefndar
Björn Kristinn Pálmarsson, Grímsnes- og Grafningshreppur
Einar Freyr Elínarson, Mýrdalshreppur
Elín Fríða Sigurðardóttir, Rangárþing eystra
Gunnar Egilsson, Sveitarfélagið Árborg
Kristófer A. Tómasson, Skeiða- og Gnúpverjahreppur
Sandra Brá Konráðsdóttir, Skaftárhreppur
Sigurður Sigurjónsson, Hrunamannahreppur
Sólveig Þorvaldsdóttir, Sveitarfélagið Árborg
Steindór Tómasson, Rangárþing ytra
Sæmundur Helgason, Sveitarfélagið Hornafjörður
Valgerður Sævarsdóttir, Bláskógabyggð
Þórunn Pétursdóttir Hveragerðisbær

Fundarstjóri gaf orðið laust. Enginn tók til máls.
Fundarstjóri bar upp ályktanir samgöngunefndar og voru þær samþykktar samhljóða.

Umhverfis- og skipulagsnefnd

Ágúst Sigurðsson, formaðurmaður umhverfis- og skipulagsnefndar, tók til máls og lagði fram tillögur nefndarinnar á ársþingi SASS 2018.

Umhverfis- og skipulagsnefnd ályktar eftirfarandi:

Miðhálendisþjóðgarður
Ársþing SASS 2018 lýsir yfir áhyggjum af því að fyrirhuguð stofnun miðhálendisþjóðgarðs muni leiða til skerðingar á skipulagsvaldi sveitarfélaga og þess að lýðræðislegt vald muni færast úr héraði til miðlægrar stofnunar. Ljóst er af umræðum á ársþingi SASS að ekki ríkir sátt um fyrirhugaða stofnun miðhálendisþjóðgarðs. Afar óheppilegt er að á sama tíma og þverpólitísk nefnd er að hefja störf séu kynnt drög að frumvarpi um Þjóðgarðastofnun og umfangsmiklar tillögur kynntar um friðunaráform í kjölfar niðurstöðu annars hluta Rammaáætlunar. Slíkum vinnubrögðum er mótmælt.
Vakin er athygli á stöðu nytjarétthafa en þeim hefur verið haldið fyrir utan þessa umræðu og mikilvægt er að þeir eigi fulltrúa í allri vinnu við hugmynd um stofnun þjóðgarðs á afréttum.
Ársþing SASS 2018 fer þess á leit að breyting verði gerð á verklagi varðandi undirbúning að stofnun þjóðgarða almennt, þar sem samþykki sveitarfélaga og nytjarrétthafa verði áskilið, bæði hvað varðar stofnun nýs þjóðgarðs og breytingar á mörkum þeirra þjóðgarða sem þegar eru til. Jafnframt gerir ársþing SASS 2018 alvarlega athugasemd við 10. gr. frumvarpsdraga um þjóðgarðastofnun þar sem veittar eru víðtækar heimildir til eignaupptöku.

Svæðisskipulag Suðurhálendis
Ársþing SASS 2018 hvetur til að unnið verði svæðisskipulag fyrir Suðurhálendið þar sem horft verði til verndunar og nýtingar á svæðinu í heild.

Fráveituframkvæmdir
Ársþing SASS 2018 telur nauðsynlegt að fella niður eða heimila endurgreiðslu virðisaukaskatts af efniskostnaði og sérfræðiþjónustu við fráveituframkvæmdir. Um brýnt hagsmunamál allra sveitarfélaga er að ræða og óeðlilegt að ríkið hafi beinar tekjur af aðgerðum sveitarfélaga sem miða að vernd umhverfis og náttúru.

Umhverfis- og auðlindastefna Suðurlands
Ársþing SASS 2018 leggur fram tillögu um að mótuð verði umhverfis- og auðlindastefna fyrir Suðurland. Stefnan taki mið af niðurstöðum samráðsfunda sem haldnir voru á Suðurlandi í ágúst og september sl. um helstu tækifæri og áskoranir í umhverfis- og auðlindamálum á Suðurlandi.
Leggur ársþing SASS til að stefnan verði eitt af áhersluverkefnum Sóknaráætlunar Suðurlands á árinu 2019. Áhersla er á að verkefnið verði vel afmarkað og að árangur verði mælanlegur með skýrum hætti. Að verkefni loknu eru sveitarfélög á Suðurlandi hvött til að nýta tækifærið og fella stefnuna inn í skipulagsáætlanir sínar við næstu endurskoðun. Aðeins þannig verður stefnan að öflugu stjórntæki til framtíðar.

Umhverfis- og auðlindastefnan taki til eftirfarandi fimm þátta:

1. Lagt er til að unnin verði stöðugreining á kolefnisspori Suðurlands í heild sinni.

2. Auðlindir
Ársþing SASS 2018 leggur til að unnin verði sameiginleg stefna um auðlindir sem taki á eftirtöldum þáttum:

Landbúnaðarland: Skilgreina og flokka landbúnaðarland á Suðurlandi m.t.t. verndunar, nýtingar og endurheimt votlendis. Kanna hver staðan er hjá hinu opinbera og sveitarfélögum, hvaða regluverk og stjórntæki eru til staðar sem getur verið grunnur að sameiginlegri stefnu í málaflokknum fyrir Suðurland.

Landgræðsla: Landgræðsla er öflugt verkfæri til kolefnisjöfnunar, auk þess tekur hún til verndunar og nýtingar lands. Skilgreint verði og flokkað land til landgræðslu. Mótuð verði stefna sem tekur til fyrrgreindra þátta þar sem fram kemur aðgerðaráætlun ásamt innleiðingu í sátt við samfélagið og hagsmunaaðila.

Skógrækt: Kolefnisjöfnun með skógrækt er mikilvæg fyrir Sunnlendinga auk þess sem aukin skógrækt getur haft jákvæð áhrif fyrir íbúa m.a. í formi skjóls fyrir veðri og vindum og til útivistar. Skilgreina þarf og flokka svæði á Suðurlandi fyrir skógrækt með leiðbeinandi ferlum í góðri samvinnu við hagsmunaaðila.

Jarðefni: Skilgreina og kortleggja jarðefni til verndunar og notkunar á Suðurlandi. Hvernig huga skuli málum varðandi þessa auðlind með langtímanot og verndun í huga.

Vatnsvernd: Greina, rannsaka og kortleggja heitt og kalt vatn á Suðurlandi. Kanna vatnsauðlindir og vatnsforða Sunnlendinga, hverju þarf að huga að til framtíðar fyrir allan landshlutann til að tryggja sjálfbæra nýtingu vatns.

Frárennslismál: Greina þarf stöðuna á Suðurlandi (Umhverfisstofnun og sveitarfélög). Uppfylla þarf lög og reglur um fráveitumál og gera áætlanir um úrbætur þar sem þess er þörf m.t.t. til raunhæfra kosta. Unnin verði heildstæð stefna sem einnig tekur til vatnsverndarsvæða, minni rotþróa og meðferðar efna og tækja á vatnsverndarsvæðum.

Vind- og sjávarfallaorka: Skilgreina og kortleggja Suðurland m.t.t. tækifæra í uppsetningu á vindorkugörðum, sjávarfallaorku og minni orkugjafa þar sem sjálfbærni er höfð að leiðarljósi. Greina hvaða þættir hafa áhrif á slíka orkuframleiðslu og hvernig það fer saman við stefnu stjórnvalda í málaflokknum.
Stefnan tekur mið af áherslum Sóknaráætlunar Suðurlands og skal styðja við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, styðja við Aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum 2018 – 2030 og Orkunýtingastefnu SASS 2017-2030 sem byggt yrði á hvað þennan þátt varðar.
Stefnan verður eins og hægt er á rafrænu formi og aðgengileg m.a. á Kortavef Suðurlands. Samráð við hagsmunaaðila í hverjum málaflokki er mikilvægt.

3. Úrgangsmál og meðferð úrgangs
Ársþing SASS 2018 leggur til að unnin verði sameiginleg stefna um úrgangsmál sem taki á tilhögun meðferðar úrgangs á Suðurlandi.
Ársþing SASS 2018 skorar jafnframt á stjórnvöld að leiða sameiginlega stefnumótun um úrgangsmál fyrir landið í heild. Einvörðungu þannig verður hægt að uppfylla kröfur Evrópusambandsins um hringrásarhagkerfi úrgangs.

Á samráðsfundunum var kallað eftir aukinni samvinnu sveitarfélaganna á öllum stigum úrgangsmála með nýtingu og sjálfbærni að leiðarljósi. Líta þyrfti á úrgang sem auðlind og finna nýjar leiðir til að nýta úrganginn á grunni hringrásarhagkerfis.
Jafnframt er bent á bókun Ungmennaráðs Suðurlands um samræmt sorpflokkunarkerfi á öllu Suðurlandi en það er mikilvægt innlegg í stefnumörkun fyrir þennan málafokk.
Málaflokkurinn er umfangsmikill og brýnn, en ljóst er að framundan eru nýjar áherslur stjórnvalda í málaflokknum. Staðan er sú að að verið er að vinna að nýrri stefnu umhverfis- og auðlindaráðherra í úrgangsmálum, sem á að liggja fyrir næsta vor. Stefna ráðherra mun taka mið af nýsamþykktum tilskipunum Evrópusambandsins um hringrásarhagkerfi. Stefnt er að því að mun stærri hluti úrgangs verði endurunninn og að dregið verði stórlega úr urðun úrgangs. Aukin og ítarlegri ákvæði um útvíkkaða framleiðendaábyrgð munu líklega leiða til þess að fjölgað verði tegundum úrgangs sem munu bera úrvinnslugjald.
Áhersla er á að stefna Sunnlendinga verði unnin í nánu samstarfi við stjórnvöld, þar sem sveitarfélögin leitist við að taka þátt í samráði við gerð þeirrar stefnumótunar sem umhverfis- og auðlindaráðherra vinnur nú að. Þannig geti Sunnlendingar haft bein áhrif á mörkun þeirrar stefnu.
Stefnan verði unnin í samvinnu við sorpsamlögin á Suðurlandi og aðra hagsmunaaðila. Skýrsla Sorpstöðvar Suðurlands SOS, Valkostir í söfnun og meðhöndlun úrgangs frá sveitarfélögum á Suðurlandi, verði nýtt við stefnuna enda mjög yfirgripsmikil og þörf greining á stöðunni í málaflokknum á Suðurlandi.

Verkefnið: Stefnan taki til söfnunar, flokkunar, endurnýtingar og urðunar úrgangs á grunni hringrásarkerfisins. Hún taki einnig á fræðslu og leiðum til að auka skilning á mikilvægi úrgangsmála og tiltækum leiðum við meðferð úrgangs til framtíðar. Við mótun stefnunnar verði tekið mið af áherslum Sóknaráætlunar Suðurlands og Heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna. Hún styðji einnig við Aðgerðaráætlun Íslands í loftslagsmálum 2018 – 2030. Stefna verði eins og hægt er á rafrænu formi og aðgengileg á Kortavef Suðurlands.

4. Umhverfisvænar og þematengdar samgöngur
Ársþing SASS 2018 leggur til að unnin verði sameiginleg stefna um ferðaleiðir á Suðurlandi, hjóla- göngu- og reiðleiðir og tengingar þeirra við áningar- og áfangastaði. Markmiðið sé að styrkja betur vannýtt svæði á Suðurlandi m.a. út frá ólíkum markhópum, hægja á ferðamönnum og bæta lífsgæði íbúa. Horft verði til uppbyggingar þemabundinna leiða og uppbyggingar leiðakerfis sem einnig muni styrkja samgöngur á Suðurlandi öllu, íbúum og gestum til heilla.
Á samráðsfundunum var kallað eftir betri stýringu ferðafólks og bætts skipulags áfangastaða, sem gæti tryggt að ekki væri farið yfir þolmörk svæða. Áfanga- og áningarstöðum yrði fjölgað og fundnar leiðir til að ferðamenn staldri lengur við. Í því skyni sé mikilvægt að skipuleggja betur ferðaleiðir, auka fjölbreytni leiðakerfis og tengja betur saman hjóla-, göngu- og reiðleiðir.

Verkefnið: Stefnan taki til mótunar megin hjóla-, göngu- og reiðleiða á Suðurlandi. Við stefnumótunina verði einnig leitast við að tengja lykil áningar- og áfangastaði. Með verkefninu verður allur landshlutinn, áfanga- og áningarstaðir og atvinnuvinnusvæði betur tengd. Verkefnið styður við áfangastaðaáætlun Suðurlands (DMP), ferðamálaáætlun 2011-2020 og Sóknaráætlun Suðurlands. Verkefnið verði eins og hægt er á rafrænu formi og hluti af Kortavef Suðurlands.

5. Náttúruvá
Ársþing SASS 2018 vill tryggja að hugað verði að leiðum til að greina náttúruvá sem og aðrar hættur á Suðurlandi m.t.t. skipulagsáætlana, mannvirkja og framkvæmda í landshlutanum en það var ein af megin áherslum sem fram komu á samráðsfundunum í ágúst og september sl. í tengslum við umhverfis- og auðlindastefnu Suðurlands.
Forvarnir í almannavörnum skipta miklu máli á Suðurlandi til að tryggja öryggi íbúa, ferðamanna sem og eigna og því afar mikilvægt að tillit sé tekið til þeirra í allri skipulagsvinnu sveitarfélaga.
Fyrsta skrefið væri að halda ráðstefnu í samvinnu við lögregluembættin og almannavarnir á svæðinu um náttúruvá og hættur sem skipta máli varðandi skipulagsáætlanir, mannvirki og framkvæmdir. Leggur ársþing SASS til að slík ráðstefna yrði eitt af áhersluverkefnum Sóknaráætlunar Suðurlands á árinu 2019.
Umhverfis- og auðlindastefnan tekur á mörgum gríðarlega mikilvægum þáttum sem öll sveitarfélög á Suðurlandi hafa á sinni verkefnaskrá með einum eða öðrum hætti og fleiri en ein stofnun á vegum sunnlenskra sveitarfélaga hafa unnið að eða hyggjast gera. Jafnframt verði lögð áhersla á samvinnu við þá opinberu aðila sem um mál þessi fjalla. Mikilvægt er því að samræma verkefni á vegum sunnlenskra sveitarfélaga sem snerta þessi mál og að við vinnslu stefnunnar verði ekki um tvíverknað að ræða og tryggt að fjármunir og starfskraftar nýtist sem best.

Ágúst Sigurðsson, Rangárþing ytra og formaður nefndar
Guðlaug Ósk Svansdóttir, SASS – HfSu og starfsmaður nefndar
Anton Kári Halldórsson, Rangárþing eystra
Ásta Berghildur Ólafsdóttir, Ásahreppur
Björk Grétarsdóttir, Rangárþing ytra og stjórn SASS
Bryndís Eir Þorsteinsdóttir, Hveragerðisbær
Ingvar Hjálmarsson, Skeiða- og Gnúpverjahreppur
Eyrún M. Stefánsdóttir, Bláskógabyggð
Eyþór H. Ólafsson, Hveragerðisbær
Finnur Smári Torfason, Sveitarfélagið Hornafjörður
Halldóra Hjörleifsdóttir, Hrunamannahreppur
Jón Páll Kristófersson, Sveitarfélagið Ölfus
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir, Vestmannaeyjabær og stjórn SASS
Páll Róbert Matthíasson, Sveitarfélagið Hornafjörður
Rósa Matthíasdóttir, Flóahreppur
Sigrún Guðmundsdóttir, HES

Fundarstjóri gaf orðið laust. Ásta Stefánsdóttir, Helgi Kjartansson, Eva Björk Harðardóttir, Sandra Brá Jóhannsdóttir, Sæmundur Helgason, Anton Kári Halldórsson, Guðrún S. Magnúsdóttir, Björgvin Skafi Bjarnason og Gísli Halldór Halldórsson tóku til máls.
Fundarstjóri bar upp ályktanir umhverfis- og samgöngunefndar með þeim breytingum sem lagðar voru fram og voru til umræðu og voru þær samþykktar samhljóða.

Allsherjarnefnd
Christiane L. Bahner, formaðurmaður allsherjarnefndar, tók til máls og lagði fram tillögur nefndarinnar á ársþingi SASS 2018.

Allsherjarnefnd ályktar eftirfarandi:

Starfsskýrsla
Allsherjarnefnd leggur til við ársþing SASS 2018 að fyrirliggjandi starfsskýrsla stjórnar SASS verði samþykkt.

Byggða- og sóknaráætlun
Ársþing SASS 2018 skorar á ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála að verja auknu fé til byggðaþróunar á vegum landshlutasamtaka sveitarfélaga. Auka þarf fé til sóknaráætlana landshluta svo þær geti staðið undir væntingum sem sértækar byggðaáætlanir landshlutanna. Með nýrri byggðaáætlun hefur verkefnum landshlutasamtaka fjölgað án þess að fjármagn hafi fylgt. Má þar nefna vinnu við gerð umsókna um sérstæk verkefni sóknaráætlunarsvæða (aðgerð C.1.), framlög vegna verslunar í strjálbýli (aðgerð B.8.) og Fjarvinnslustöðvar (aðgerð A.9.).
Ársþing SASS 2018 leggur til að hafin verði vinna við undirbúning að nýrri stefnumörkun Sóknaráætlunar Suðurlands til ársins 2024. Áfram verði lögð áhersla á samhæfingu milli sóknaráætlana og byggðaáætlunar, eins og kveðið er á um í lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir nr. 69 frá 2015. Samhliða því verði horft til samræmingar á stefnum í landshlutanum og áhersla lögð á bætta upplýsingagjöf um þær stefnur gagnvart íbúum og sveitarstjórnarfólki.

Staða landshlutasamtakanna
Ársþing SASS 2018 fagnar skipan starfshóps sem hefur verið falið að meta stöðu landshlutasamtaka og skilgreina hlutverk þeirra og stöðu, annars vegar gagnvart sveitarfélögum og hins vegar gagnvart ríki.

Ungmennaráð Suðurlands
Ársþing SASS 2018 lýsir yfir ánægju sinni á starfi Ungmennaráðs Suðurlands, en ungmennaráð sveitarfélaga og landshlutasamtaka eru mikilvægur liður til að efla þátttöku ungmenna í sveitarstjórnarmálum. Aðildarsveitarfélög eru hvött til að styðja þátttöku ungmenna, m.a. með því að skipa fulltrúa í ráðið og taka vel á móti fulltrúum þess.
Christiane L. Bahner, Rangárþing eystra og formaður nefndar
Ásta Stefánsdóttir, Bláskógarbyggð
Matthildur Ásmundardóttir, Sveitarfélagið Hornafjörður
Valtýr Valtýsson, Ásahreppur
Jón G. Valgeirsson, Hrunamannahreppur
Þórður Freyr Sigurðsson, sviðsstjóri SASS starfaði með nefndinni.

Fundarstjóri gaf orðið laust. Enginn tók til máls.
Fundarstjóri bar upp ályktanir allsherjarnefndar og voru þær samþykktar samhljóða.

Velferðarnefnd
Ásgerður K. Gylfadóttir, formaðurmaður velferðarnefndar, tók til máls og lagði fram tillögur nefndarinnar á ársþingi SASS 2018.

Velferðarnefnd ályktar eftirfarandi:

Sjúkraflutningar, þ.m.t. sjúkraþyrlur
Ársþing SASS 2018 hvetur til þess að farið verði í tilraunaverkefni með sérstaka sjúkraþyrlu á Suðurlandi með stuttum útkallstíma og sérhæfðum mannskap staðsettri á Suðurlandi í samræmi við skýrslu starfshóps velferðarráðuneytisins.
Sjúkraflutningar á Suðurlandi hafa vaxið gríðarlega með auknum fjölda íbúa og gesta á svæðinu og því þarf að bregðast við með auknu fjármagni og fjölbreyttari lausnum.

ART verkefnið
Ársþing SASS 2018 ítrekar fyrri ályktanir og beinir því til ríkisvaldsins að nauðsynlegt sé að fjármagn fáist til lengri tíma svo hægt verði að tryggja starfseminni eðlilegt starfsumhverfi og börnum og fjölskyldum þeirra öruggt aðgengi að þjónustunni.

Hjúkrunarrými
Ársþing SASS 2018 lýsir áhyggjum sínum af fjármögnun ríkisins til hjúkrunar-, dvalar- og dagvistunarrýma á Suðurlandi. Á Suðurlandi er fjármögnun hjúkrunarrýma 20% undir raunþörf, sem og annars staðar á landinu. Ljóst er af fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2019 að framlög til málaflokksins hækka ekki og standa því engan veginn undir þeirri þjónustu sem þeim er ætlað að veita samkvæmt kröfulýsingum er þau starfa samkvæmt. Ársþingið hvetur ríkisvaldið til þess að bæta hér í og tryggja að fjárframlög standi undir rekstri þessa mikilvæga málaflokks og áframhaldandi aukningu hjúkrunarrýma á Suðurlandi.

HSU – heilbrigðisþjónusta
Ársþing SASS 2018 krefst þess að tekið verði á rekstrarvanda HSU og að fjárframlög fylgi umfangi i starfsemi stofnunarinnar. Frá sameiningu heilbrigðisstofnanna á Suðurlandi hefur vöxtur í starfseminni verið fordæmalaus og hefur vaxið um tugi prósenta á hverju ári.
Áætlaður rekstrarhalli HSU á árinu 2018 er um 200 m.kr. og ríflega 280 m.kr. vantar á árinu 2019 vegna mönnunar lögbundinnar grunnþjónustu í heilsugæslu og sjúkrarýmum á Suðurlandi.

HSU Hornafirði
Ársþing SASS 2018 styður áframhaldandi rekstur Sveitarfélagsins Hornafjarðar á heilbrigðisþjónustu í gegnum þjónustusamning við ríkið.

Löggæsla og sýnileiki hennar
Ársþing SASS 2018 vekur athygli á að þrátt fyrir aukið fjármagn í málaflokkinn er aukningin þó engan veginn næg þar sem álag á starfslið lögreglunnar er gríðarlegt. Við því þarf að bregðast meðal annars með fjölgun starfsfólks svo hægt sé að tryggja fullnægjandi löggæslu, draga úr álagi og bæta starfsumhverfi.

Úrræði fyrir fólk með fíknivanda
Ársþing SASS 2018 tekur undir ályktun Ungmennaráðs Suðurlands um að SASS og sveitarfélögin á Suðurlandi, heilbrigðisráðherra og HSU bæti úrræði fyrir þá sem eiga við fíknivanda að stríða. Ungmennaráðið telur það ekki síður mikilvægt að fylgja eftir þeim ungmennum sem hafa lokið meðferð. Ungmennaráð og ársþing SASS 2018 vill brýna alla þá sem fara með þennan málaflokk að gera meira í málefnum ungs fólks sem hefur lokið meðferð og bæta eftirfylgni eftir meðferðina.

Forvarnarvinna og fræðsla
Ársþing SASS 2018 tekur undir ákall Ungmennaráðs Suðurlands um stuðning SASS og lögreglunnar á Suðurlandi við að efla fræðslu og forvarnir um fíknivandann og stuðla þannig að öflugum forvörnum. Ráðið hvetur til þess að farið verði í samstarf við átakið #égábaraeittlíf og/eða annað sambærilegt og fara með fræðslukynningar í alla skóla.

Heimahjúkrun og félagsleg heimaþjónusta
Ársþing SASS 2018 hvetur ríkið og sveitarfélögin á Suðurlandi til þess að leita leiða til að samþætta heimahjúkrun og félagslega heimaþjónustu með þarfir þjónustuþega að leiðarljósi.

Fæðingarþjónusta í nærumhverfi
Ársþing SASS 2018 kallar eftir efndum gagnvart því að komið verði til móts við fæðandi konur og fjölskyldur þeirra sem verða fyrir auka kostnaði vegna fæðinga fjarri heimabyggð. Brýnt að aukakostnaður vegna slíks verði ekki lagður á fæðandi konur og fjölskyldur þeirra.

Málefni fatlaðra
Ársþing SASS 2018 vekur athygli á að rekstur málaflokks fatlaðs fólks á Suðurlandi er í járnum og lítið svigrúm hefur verið til uppbyggingar og þróunar þjónustunnar.

Fjarheilbrigðisþjónusta
Ársþing SASS 2018 lýsir ánægju með þá vinnu sem verið er að vinna í þessum málaflokki og hvetur ríkið og sveitarfélög til þess að nýta tækifærin í velferðartækni til bættrar þjónustu.
Ásgerður K. Gylfadóttir, Sveitarfélagið Hornafjörður og formaður nefndar
Ingunn Jónsdóttir, SASS og starfsmaður nefndar
Ari Björn Thorarensen, Sveitarfélagið Árborg
Brynhildur Jónsdóttir, Sveitarfélagið Árborg
Elín Grétarsdóttir, Ásahreppur
Guðmundur Oddgeirsson, Sveitafélagið Ölfus
Hildur Sólveig Sigurðardóttir, Vestmannaeyjabær
Margrét Harpa Guðsteinsdóttir, Rangárþing ytra
Steinar Sigurjónsson, Grímsnes- og Grafningshreppur

Fundarstjóri gaf orðið laust. Lilja Einarsdóttir og Arna Ír Gunnarsdóttir tóku til máls.
Fundarstjóri gaf orðið laust. Enginn tók til máls.
Fundarstjóri bar upp ályktanir velferðarnefndar með þeim breytingum sem lagðar voru fram og voru til umræðu og voru þær samþykktar samhljóða.

Mennta- og menningarmálanefnd
Arna Ír Gunnarsdóttir, formaðurmaður mennta- og menningarmálanefndar, tók til máls og lagði fram tillögur nefndarinnar á ársþingi SASS 2018.

Mennta- og menningarmálanefnd ályktar eftirfarandi:

Framboð og aðgengi að (háskóla)menntun á Suðurlandi
Ársþing SASS 2018 lýsir yfir ánægju sinni með nýtt námsframboð Háskóla Íslands í hagnýtum leikskólafræðum á fagháskólastigi í samvinnu við Háskólafélag Suðurlands fyrir leiðbeinendur í leikskólum á Suðurlandi. Ársþingið hvetur til að haldið verði áfram á sömu braut með fleiri námsleiðum á fagháskólastigi, t.d. í ferðamálagreinum, tæknigreinum og fleiri greinum í almennu háskólanámi. Sömuleiðis fagnar ársþingið stofnun nýs rannsóknarseturs Háskóla Íslands á sviði sveitarstjórnarmála á Laugarvatni en hvort tveggja er í samræmi við áherslur SASS um aukið samstarf við Háskóla Íslands.

Heimavistarmál o.fl.
Ársþing SASS 2018 tekur undir tillögur Ungmennaráðs Suðurlands um knýjandi þörf fyrir úrbætur í húsnæðisvanda framhaldsskólanemenda á Suðurlandi. Stærsti framhaldsskóli landshlutans er á Selfossi og sá eini sem er með fjölbreytt námsframboð í starfsnámi auk víðtækrar þjónustu við nemendur með sértækar stuðningsþarfir. Óviðunandi er að þar skuli ekki lengur vera starfrækt heimavist. Ársþingið skorar á ríkisvaldið að ganga til samstarfs við heimamenn um úrlausn á þessum vanda.
Ársþing SASS 2018 hvetur skólanefnd Fjölbrautaskóla Suðurlands til þess að skoða það vandlega að bjóða upp á fjarnám/dreifnám við skólann til þess að auka þjónustu við íbúa Suðurlands. Ársþing SASS tekur undir aðrar tillögur Ungmennaráðs Suðurlands, svo sem dreifingu á greiðslum vegna Strætó, aukins aðgengis að námsráðgjöf og sérhæfðri ráðgjöf og aukinni fræðslu um kynjafræði.

Miðsvæði Suðurlands
Ársþing SASS 2018 skorar á mennta- og menningarmálaráðherra að taka til efnislegrar umfjöllunar tillögur starfshóps sem forsætisráðherra skipaði 9. september 2016 um mótun framtíðarsýnar fyrir svæðið frá Markarfljóti að Öræfum. Í tillögum starfshópsins kemur m.a. fram að menntastofnanir (þ.e. Fræðslunetið og Háskólafélagið) fái stuðning til að halda uppi þjónustu við svæðið og þekkingarsetur á Kirkjubæjarklaustri og í Vík fari á fjárlög.

Tengsl skóla og atvinnulífs
Ársþing SASS 2018 fagnar tilkomu Fab Lab smiðjunnar á Selfossi þar sem fjölþætt samstarf sveitarfélaga, atvinnulífs, skóla og ríkisins hefur orðið að veruleika. Ársþingið hvetur atvinnulíf og skóla á Suðurlandi til frekari dáða varðandi aukið samstarf.

Fjármálalæsi
Ársþing SASS 2018 tekur undir tillögu Ungmennaráðs Suðurlands og hvetur sveitarfélögin á Suðurlandi að stuðla að bættu fjármálalæsi hjá ungmennum á Suðurlandi. Auka fræðslu ungmenna um hvernig peningar og skattkerfið virkar á Íslandi.

Íslenska fyrir útlendinga
Ársþing SASS 2018 beinir þeim tilmælum til fjárlaganefndar að auka framlög til kennslu í íslensku fyrir útlendinga. Á starfssvæði SASS er mikill fjöldi útlendinga og sums staðar er um að ræða umtalsverðan hluta íbúa einstakra sveitarfélaga. Afar brýnt er að fræðsluaðilum sé gert kleift að auðvelda aðlögun þessa hóps að íslensku samfélagi með því að bjóða upp á nám í íslensku með fjölbreyttum aðferðum, með stuðningi hins opinbera.

Menningarmál
Ársþing SASS 2018 leggur áherslu á að standa vörð um fjármagn til menningarmála hjá Uppbyggingarsjóði Suðurlands. Mikil gróska er í menningarmálum og því er mikilvægt að hlúa að slíkri starfsemi.

Menningarsalur Suðurlands
Ársþing SASS 2018 hvetur ríkisvaldið til að ganga til samninga við Sveitarfélagið Árborg og Hótel Selfoss um að fullgera Menningarsal Suðurlands, m.a. til að ríkið geti staðið við skyldur sínar varðandi þjónustu Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Þjóðleikhússins við landsbyggðina.

Arna Ír Gunnarsdóttir, Sveitarfélagið Árborg, stjórn SASS, og formaður nefndar
Sigurður Sigursveinsson, ráðgjafi og starfsmaður nefndar
Bjarni Þorkelsson, Grímsnes- og Grafningshreppur
Einar Bjarnason, Skeiða- og Gnúpverjahreppur
Eva Björk Harðardóttir, Skaftárhreppur og formaður stjórnar SASS
Jón Bjarnason, Hrunamannahreppur
Kjartan Björnsson, Sveitarfélagið Árborg
Páll Tómasson, Mýrdalshreppur
Sigrún Sigurgeirsdóttir, Sveitarfélagið Hornafjörður
Smári Bergmann Kolbeinsson, Grímsnes- og Grafningshreppur

Fundarstjóri gaf orðið laust. Enginn tók til máls.
Fundarstjóri bar upp ályktanir mennta- og menningarmálanefndar og voru þær samþykktar samhljóða.

Fjárhagsnefnd

Helgi Kjartansson, formaðurmaður fjárhagsnefndar, tók til máls og lagði fram tillögur nefndarinnar á ársþingi SASS 2018.

Fjárhagsnefnd ályktar eftirfarandi:

Ársreikningur SASS 2017
Fjárhagsnefnd SASS leggur til að ársreikningur SASS fyrir árið 2017 verði samþykktur eins og hann er lagður fram.

Fjárhagsáætlun SASS 2019
Fjárhagsnefnd SASS leggur til að fjárhagsáætlun SASS fyrir árið 2019 verði samþykkt eins og hún liggur fyrir. Forsendan er þó að samningar náist við ríkið um að halda úti óbreyttum rekstri almenningssamgangna út árið 2019 og ríkið greiði 50 m.kr. til viðbótar í fjármögnun verkefnisins. Það er afdráttarlaus krafa ársþings SASS að ríkið geri upp 36 m.kr. halla vegna ársins 2018.

Þóknun stjórnar og nefnda
Fjárhagsnefnd leggur til að tillaga að launum stjórnar, ráða og nefnda verði samþykkt.

90 daga reglan
Ársþing SASS 2018 telur breytingu á lögum um veitinga- og gististaði (90 daga reglan) sem samþykkt var sumarið 2016 hafa verið misráðna og áréttar nauðsyn þess að gera breytingu á henni og það verði gert í samráði við sveitarfélögin.

Gistináttagjald
Ársþing SASS 2018 telur nauðsynlegt að ríki og sveitarfélög komist að niðurstöðu um gistináttagjaldið og hvernig því skuli skipt á milli sveitarfélaga. Ársþing SASS hvetur ríkið til að ljúka þessari vinnu fyrir áramót þannig að tekjur af gistináttagjaldinu byrji að berast sveitarfélögum í upphafi árs 2019.

Helgi Kjartansson, Bláskógabyggð og formaður nefndar
Bjarni Guðmundsson framkvæmdastjóri SASS starfaði með nefndinni.
Gísli Halldór Halldórsson, Sveitarfélagið Árborg
Helga Kristín Kolbeinsdóttir, Vestmanneyjabæ
Hjalti Tómasson, Rangárþing ytra
Kristín Magnúsdóttir, Sveitarfélagið Ölfus.

Fundarstjóri gaf orðið laust. Gunnar Egilsson og Christiane L Bahner tóku til máls.
Fundarstjóri bar upp ályktanir fjárhagsnefndar og voru þær samþykktar samhljóða.

Atvinnumálanefnd

Grétar Ingi Erlendsson, formaðurmaður atvinumálanefndar, tók til máls og lagði fram tillögur nefndarinnar á ársþingi SASS 2018.

Atvinnumálanefnd ályktar eftirfarandi:

Stefnumótun í atvinnumálum í einstökum sveitarfélögum
Ársþing SASS 2018 leggur til að mótað verði áhersluverkefni, sem hefur það markmið að sveitarfélög komi sér upp skýrri formlegri stefnu í atvinnumálum. Stefnurnar munu gefa skýr skilaboð milli hagahafa á Suðurlandi. Ráðgjafar á vegum SASS munu þá aðstoða sveitarstjórnir við gerð og framkvæmd stefna. Mikilvægt er að vinnan hafi sterka skírskotun til nýsköpunar. Verkefnið getur farið í framkvæmd strax.

Afhendingaröryggi raforku og þriggja fasa rafmagn
Ársþing SASS 2018 krefst þess að afhendingaröryggi í raforku á Suðurlandi verði bætt hið snarasta. Staðan er mjög slæm á mörgum svæðum, bæði þegar horft er til flutnings á orku milli svæða og dreifingu innan svæða. Slæm staða á uppbyggingu á þriggja fasa rafmagni stendur atvinnuuppbyggingu á Suðurlandi fyrir þrifum. Þingið krefst þess af RARIK flýti vinnu sem mest má og að Landsnet styrki byggðalínuna austur um strax.

Fjölgun starfa án staðsetningar
Ársþing SASS 2018 fagnar því að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur sett af stað vinnu vegna fjarvinnslustöðva opinberra stofnana, sbr. aðgerð B.8 í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024. Þingið telur tækifæri í dreifingu starfa án staðsetningar um Suðurland einnig vera meðal einkafyrirtækja og vill beina því til SASS að móta áhersluverkefni við að setja af stað vinnu við að greina þau tækifæri og móta aðgerðir sem hvetja fyrirtæki til að skilgreina störf án staðsetningar. Mikilvægt er að það sé haft hugfast að með aukinni fjarvinnslu getur fólk hagað búsetuvali í samræmi við sínar þarfir.

Vandi sauðfjárbænda
Ársþing SASS 2018 krefst þess að stjórnvöld, forysta bænda og stjórnendur afurðastöðva leysi bráðavanda sauðfjárræktar og móti stefnu til framtíðar svo greinin verði blómleg atvinnugrein. Mikilvægt er að leita nýrra leiða við lausn vandans, þrátt fyrir að ýmislegt jákvætt hafi gerst í þessum málum. Enn er mikill vandi.

Grétar Ingi Erlendsson, Sveitarfélagið Ölfus og formaður nefndar
Hrafn Sævaldsson, SASS og starfsmaður nefndar
Björgvin Skafti Bjarnason, Skeiða- og Gnúpverjahreppur
Drífa Bjarnadóttir, Mýrdalshreppur
Eydís Þ. Indriðadóttir, Flóahreppur
Hrafnkell Guðnason, Flóahreppur
Kolbeinn Sveinbjörnsson, Bláskógabyggð
Kristján S. Guðnason, Sveitarfélagið Hornafjörður
Trausti Hjaltason, Vestmannaeyjabæ
Brynja J. Jónasdóttir, Ásahreppur
Þorbjörg Gísladóttir, Mýrdalshreppur

Fundarstjóri gaf orðið laust. Enginn tók til máls.
Fundarstjóri bar upp ályktanir atvinumálanefndar og voru þær samþykktar samhljóða.

Kosning í stjórnir og nefndir

Aldís Hafsteinsdóttir, formaður kjörnefndar, bar upp eftirfarandi tillögur kjörnefndar um stjórn og nefndir Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga.

Tillaga að stjórn SASS á aðalfundi SASS höldnum á Hótel Örk dagana. 18. og 19. október 2018

Aðalmenn
Ásgerður Kristín Gylfadóttir, Sveitarfélagið Hornafjörður
Eva Björk Harðardóttir, Skaftárhreppur
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir, Vestmannaeyjabær
Björk Grétarsdóttir, Rangárþing ytra
Arna Ír Gunnarsdóttir, Sveitarfélagið Árborg
Ari Björn Thorarensen, Sveitarfélagið Árborg
Helgi Kjartansson, Bláskógabyggð
Friðrik Sigurbjörnsson, Hveragerðisbær
Grétar Erlendsson, Sveitarfélagið Ölfus

Varamenn
Kristján Sigurður Guðnason, Sveitarfélagið Hornafjörður
Einar Freyr Elínarson, Mýrdalshreppur
Njáll Ragnarsson, Vestmannaeyjabær
Lilja Einarsdóttir, Rangárþing eystra
Eggert Valur Guðmundsson, Sveitarfélagið Árborg
Brynhildur Jónsdóttir, Sveitarfélagið Árborg
Ása Valdís Árnadóttir, Grímsnes- og Grafningshreppur
Bryndís Eir Þorsteinsdóttir, Hveragerðisbær
Jón Páll Kristófersson, Sveitarfélagið Ölfus

Formaður: Eva Björk Harðardóttir, Skaftárhreppur
Varaformaður: Helgi Kjartansson, Bláskógabyggð

Tillaga að stjórn SASS og varamönnum var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

Tillaga að kjörnefnd SASS

Aðalmenn:
Kristján Sig. Guðnason, Sveitarfélagið Hornafjörður
Drífa Bjarnadóttir, Mýrdalshreppur
Elís Jónsson, Vestmannaeyjabær
Haraldur Eiríksson, Rangárþing ytra
Ingibjörg Harðardóttir, Grímsnes- og Grafningshreppur
Valgerður Sævarsdóttir, Bláskógabyggð
Helgi Haraldsson, Sveitarfélagið Árborg
Aldís Hafsteinsdóttir, Hveragerðisbær
Steinar Lúðvíksson, Sveitarfélagið Ölfus

Varamenn:
Erla Þórhallsdóttir, Sveitarfélagið Hornafjörður
Bjarki Guðnason, Skaftárhreppur
Helga Jóhanna Harðardóttir, Vestmannaeyjabær
Guðmundur Viðarsson, Rangárþing eystra
Arna Ír Gunnarsdóttir, Sveitarfélagið Árborg
Björgvin Skapti Bjarnason, Skeiða- og Gnúpverjahreppur
Árni Eiríksson, Flóahreppur
Eyþór H. Ólafsson, Hveragerðisbær
Gestur Þór Kristjánsson, Sveitarfélagið Ölfus

Formaður: Aldís Hafsteinsdóttir, Hveragerðisbær
Varaformaður: Kristján Sig. Guðnason, Sveitarfélagið Hornafjörður

Tillaga kjörnefndar að kjörnefnd var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

Kjörnefnd óskar staðfestingar fundarmanna á eftirfarandi tilnefningum:

Stjórn Fræðslunets Suðurlands Skipað til 1 árs í senn

Aðalmaður:
Gunnar Þorgeirsson, Grímsnes- og Grafningshreppur

Varamaður:
Einar Freyr Elínarson, Mýrdalshreppur

Stjórn Markaðsstofu Suðurlands til 1 árs í senn.

Aðalmaður:
Pálmi Kristjánsson, Mýrdalshreppur
Ása Valdís Árnadóttir, Grímsnes- og Grafningshreppur

Til vara:
Grétar Ingi Erlendsson, Sveitarfélagið Ölfus
Eva Björk Haraðdóttir, Skaftárhreppur

Fagráð Upplýsingamiðstöðvar Suðurlands til 1 árs í senn

Aðalmaður:
Ásta Berghildur Ólafsdóttir, Ásahreppur

Til vara:
Sæmundur Helgason, Sveitarfélagið Hornafjörður

ML
Aðalmenn:
Gunnar Þorgeirsson, Grímsnes- og Grafningshreppur
Eydís Indriðadóttir, Flóahreppur

Til vara:
Friðrik Sigurbjörnsson, Hveragerðisbær
Kristín Þórðardóttir, Rangárþing eystra

FSU
Aðalmenn
Elín Einarsdóttir, Mýrdalshreppur
Jón G. Valgeirsson, Hrunamannahreppur

Varamenn eru:
Halldóra Hjörleifsdóttir, Hrunamannahreppur
Benedikt Benediktsson Rangárþing eystra

Skólanefnd FAS:
Aðalmenn
Eva Björk Harðardóttir, Skaftárhreppur
Sæmundur Helgason, Sveitarfélagið Hornafjörður

Varamenn:
Ásgerður K. Gylfadóttir, Sveitarfélagið Hornafjörður
Gunnar Þorgeirsson, Grímsnes- og Grafningshreppur

Tillögur kjörnefndar voru bornar undir atkvæði og samþykktar samhljóða.

Fundarstjóri lagði til að vísa tillögum og ályktunum frá nefndum til stjórnar til nánari útfærslu. Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
Nú var komið að fundarlokum og gaf fundarstjóri formanni, Evu Björk Harðardóttur orðið. Formaður SASS þakkaði það traust sem henni er sýnt til að leiða samtökin. Þakkaði hún góðan, málefnalegan og gagnlegan fund. Einnig þakkaði hún starfsmönnum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga fyrir góðan undirbúning fyrir fundinn og Hvergerðingum viðurgjörning allan.
Fundi slitið kl: 12:50
Rósa Sif Jónsdóttir, fundarritari

Fundargerð aðalfundar SASS 2018 (.pdf)