fbpx

haldinn að Austurvegi 56, Selfossi föstudaginn 14. september 2012, kl. 11.00

Mætt: Elfa Dögg Þórðardóttir, Guðfinna Þorvaldsdóttir, Elín Einarsdóttir, Sigríður Lára Ásbergsdóttir (í síma), Reynir Arnarson (í síma), Gunnlaugur Grettisson, Unnur Þormóðsdóttir og Þorvarður Hjaltason sem ritaði fundargerð.

Gestir fundarins: Einar Kristjánsson frá Strætó bs og Smári Ólafsson frá VSÓ ráðgjöf.

Dagskrá:

 1. Almenningssamgöngur
a. Yfirlit yfir fjárhagslegan rekstur almenningssamgangna fyrstu átta mánuði ársins. Samkvæmt yfirlitinu hefur reksturinn gengið vel en óvæntur kostnaður s.s. vegna aksturs í tengslum við ferðir Herjólfs til Þorlákshafnar hefur valdið því að örlítill halli er á rekstrinum fyrstu 8 mánuðina sem er þó innan við 1% af heildarútgjöldum. Einar Kristjánsson sviðsstjóri hjá Strætó gerði grein fyrir rekstrinum að öðru leyti, nýtingu vagna, fjölda farþega o.fl. og lagði fram tillögur að akstursáætlun fyrir næsta ár. Tímabilin skiptast þannig:

Vetraráætlun:
• 6. janúar – 18. maí og 15. september – 4. janúar
• Enginn akstur á jóladegi og nýársdegi.
• Tvær ferðir á dag á Herjólf
• Þrjár ferðir í viku milli Víkur og Hafnar í pöntun (þriðjudag, föstudag og sunnudag).

Sumaráætlun:
• 19. maí – 14. september
• Þrjár ferðir á dag á Herjólf
• Tvær ferðir á dag milli Víkur og Hafnar

Taka þarf ákvörðun um þessa tilhögun fyrir 15. október nk.

Sigríður Lára gerði athugasemd við að brottfarartíma frá Þorlákshöfn hefði verið flýtt og óskaði eftir að það yrði endurskoðað.
b. Samningur milli SASS og sveitarfélagsins Ölfuss um viðbótarakstur, dags. 13. ágúst 2012.
Til kynningar.
c. Afrit af bréfi Málflutningsstofu Reykjavíkur f.h. Bíla og fólks ehf., dags. 23. ágúst 2012, þar sem krafist er bóta vegna þess að ekki hafi verið gengið að tilboði fyrirtækisins í októbermánuði á síðasta ari. Óskari Sigurðssyni hrl. hefur verið falið að svara bréfinu.
d. Bréf frá Samkeppniseftirlitinu, dags. 28. ágúst 2012, þar sem óskað er upplýsinga um samning SASS og Reykjavík Excursions frá 1. júní 2012 ásamt svarbréfi Óskars Sigurðssonar hrl. fyrir hönd SASS, dags. 12. september 2012.
e. Afrit af bréfi innanríkisráðuneytisins til Vegagerðarinnar, dags. 4. júlí 2012, varðandi viðbótarframlög á næsta ára til almenningssamgangna á vegum landshlutasamtaka. Framlagið til SASS nemur 29 millj. króna.

 2. Fundargerðir
a. Fundargerð framkvæmdaráðs sóknaráætlunar frá 11. september sl.
Til kynningar.
b. Fundargerðir samgöngunefndar frá 22. ágúst og 12. september sl.
Fundargerðirnar samþykktar.

 3. Ársþing SASS
Eftirfarandi atriði voru rædd en afgreiðslu frestað til næsta fundar:
a. Drög að dagskrám ársþings og aðalfundar SASS.
b. Drög að fjárhagsáætlun.
c. Tillaga að sameiningu SASS og AÞS. Sjá skýrslu R3 ráðgjafar.
d. Tillaga að breytingum á samþykktum SASS. Sjá skýrslu R3 ráðgjafar.
e. Tillögur til ársþings.
f. Skýrsla stjórnar.
g. Útsending gagna. Ákveðið að fundargögn verði hýst á heimasíðu SASS á sérstöku svæði sem væntanlegir aðalfundarfulltrúar munu fá aðgang að.

 4. Bréf frá Fjárlaganefnd Alþingis, dags. 3. september 2012, varðandi fundi nefndarinnar með sveitarfélögum og samtökum þeirra í októbermánuði nk.
Samþykkt að óska eftir fundi með nefndinni.

 5. Bréf frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna ársfundar sjóðsins 26. september nk.
Til kynningar.

 6. Bréf frá innanríkisráðuneytinu, dags. 30. ágúst 2012, þar sem boðið er til samráðs um innanríkisstefnu landsmanna.
Til kynningar.

 7. Afrit af bréfi Bláskógabyggðar til fjármálaráðuneytisins , dags. 7. september 2012, varðandi umræðu um hækkun virðisaukaskatts á  sölu gistingar.

Af sama tilefni samþykkti stjórn SASS eftirfarandi ályktun:

,,Stjórn SASS mótmælir harðlega fyrirhugaðri hækkun virðisaukaskatts á sölu gistingar. Stjórn SASS bendir í fyrsta lagi á að hækkun á virðisaukaskatti mun hafa mjög slæm áhrif á afkomu ferðaþjónustunnar og tengdra greina þar sem líkur eru á minnkandi framlegð auk þess sem ferðamönnum mun að öllum líkindum fækka. Líklegt er því að tekjur ríkissjóðs vegna þessarar starfsemi minnki þegar upp er staðið en hækki ekki eins og vafalaust er ætlunin. Í öðru lagi gerir stjórn SASS alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð ríkisins í þessu máli þar sem þessar skattahækkanir eru mjög seint boðaðar og því ómögulegt fyrir viðkomandi ferðaþjónustufyrirtæki að bregðast við tímanlega vegna kynningar og markaðssetningar fyrir næsta ár. Í þriðja lagi bendir stjórn SASS á að ferðaþjónustan er sá atvinnuvegur sem vaxið hefur hraðast á síðustu árum og hefur verið mikil lyftistöng fyrir atvinnulífið í kjölfar kreppunnar sem skall á haustið 2008. Það á ekki síst við um Suðurland þar sem ferðaþjónustan er hvað öflugust.

Í ljósi alls þessa skorar stjórn SASS á ríkisstjórn og Alþingi að draga þessi áform til baka.

 8. Fundargerðir o.fl. frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Til kynningar.

 9. Fundargerðir frá landshlutasamtökunum.
Til kynningar.

10. Ársreikningur 2011
Ársreikningurinn undirritaður.

Fundi slitið kl. 13.30