fbpx

haldinn að Austurvegi 56, Selfossi, föstudaginn 12. nóvember 2010 kl. 12:00

Mætt: Elfa Dögg Þórðardóttir, Aðalsteinn Sveinsson, Guðfinna Þorvaldsdóttir, Elín Einarsdóttir, Reynir Arnarson, Sigríður Lára Ásbergsdóttir, og Þorvarður Hjaltason framkvæmdastjóri sem ritaði fundargerð. Elliði Vignisson boðaði forföll.

Gestur fundarins: Magnús Skúlason framkvædastjóri HSu.

Dagskrá

 1. Fundargerð fjárhagsnefndar frá 12. október sl.

Fundargerðin staðfest.

 2. Fundargerð velferðarmálanefndar frá 12. október sl. ásamt drögum að erindisbréfi.

Fundargerðin og erindisbréfið staðfest.

 3. Fundargerð menntanefndar frá 26. október sl. ásamt drögum að erindisbréfi.

Fundargerðin og erindisbréfið staðfest. Stjórn SASS tekur undir hugmyndir nefndarinnar um menntaþing.

 4. Fundargerð samgöngunefndar frá 29. október sl. ásamt drögum að

erindisbréfi.

Fundargerðin og erindisbréfið staðfest.

 5. Fundargerð starfshóps um sameiningarkosti sveitarfélaga á Suðurlandi frá 21. september sl. ásamt bréfi til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga þar sem óskað er eftir styrk til verkefnisins.

Til kynningar.

 6. Fundargerð aðalfundar Suðurlandsvegar ehf.

Félagið hefur verið lagt niður. Hlutur SASS að upphæð kr. 150.00 ásamt áunnum vöxtum verður endurgreiddur.

 7. Málefni heilbrigðisþjónustunnar á Suðurlandi.

Lagðar fram breytingartillögur sem forsvarsmenn heilbrigðisstofnananna þriggja á Suðurlandi hafa sent heilbrigðisráðherra og fjárlaganefnd að beiðni heilbrigðisráðuneytisins. Magnús Skúlason gerði nánari grein fyrir tillögum HSu. Tillögurnar gera ráð fyrir 130 m.kr niðurskurði í stað 412,5 m.kr. sem gerir um 6,5% niðurskurð. Hann lagði einnig fram tölur sem sýna að niðurskurðartillaga upp á 412,5 m.kr leiðir til 635 – 685 m.kr. útgjaldaauka fyrir ríkið. Þá er ótalinn kostnaður sjúklinga og aðstandenda sem nemur um 170 m.kr.

Stjórn SASS tekur undir tillögur heilbrigðisstofnananna um endurskoðun á niðurskurðartillögum fjárlagafrumvarpsins og hvetur Alþingi og ráðuneyti til að samþykkja framkomnar tillögur þeirra.

 8. Staðsetning nýs fangelsis.

Eftirfarandi ályktun var samþykkt:

,,Stjórn SASS leggur mikla áherslu á að nýju fangelsi sem fyrirhugað er að reisa verði valinn staður í tengslum við núverandi ríkisfangelsi á Litla-Hrauni. Áratugahefð er fyrir starfsemi fangelsis á Litla-Hrauni í góðri sátt við samfélagið. Mikil þekking og reynsla er þar fyrir hendi auk þess sem landrými er nægt. Einnig er ljóst að hagkvæmara er að auka við núverandi starfsemi þar sem sameiginleg stoðþjónusta og aðstaða nýtist en að koma á fót nýrri stofnun. Þá hefur Sveitarfélagið Árborg lýst sig reiðubúið til samstarfs við ríkisvaldið um frekari uppbyggingu. Stjórn SASS skorar á dómsmálaráðherra að taka tillit til þessara sjónarmiða þegar ákvörðun verður tekin um staðsetningu fangelsins.”

 9. Undirbúningur að menningarsamningi fyrir Suðurland.

Kynnt sameiginleg drög landshlutasamtakanna að samningi. Von er á tillögum ráðuneytisins á næstu dögum.

10. Húsnæðismál stofnana á Austurvegi 56.

Framkvæmdastjóri lagði fram minnisblað um húsnæðismál stofnananna og hugsanlega stækkun húsnæðisaðstöðunnar. Stjórn samþykkir að kanna málið frekar sem og aðra möguleika sem til greina koma.

11. Erindi frá Alþingi þar sem óskað er umsagnar um eftirtalin þingmál:

a. Frumvarp til laga um verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og jarðhita, 77. mál. www.althingi.is/altext/139/s/0081.html.

Eftirfarandi umsögn var samþykkt:

,,Áætlunin felur í sér skerðingu á skipulagsvaldi sveitarfélaga. Samkvæmt frumvarpinu verður sveitarfélögum skylt að setja inn á skipulag virkjanakosti sem eru í nýtingarflokki, án tillits til vilja sveitarstjórna og íbúa svæðanna. Þá er ekki gert ráð fyrir að sveitarfélögin hafi heimild til að setja inn virkjanakosti sem kunna að skapast við nýjar aðstæður. Tryggja þarf feril slíkra mála og finna þeim leið inn í nýtingarflokk sé virkjanakostur talinn álitlegur.

Einnig er gerð atugasemd við það ákvæði frumvarpsins sem kveður á um verndar- og nýtingaráætlun taki ekki til landsvæða sem njóta friðlýsingar í samræmi við 50. gr. laga um náttúruvernd nema tiltekið sé í friðlýsingarskilmálum að virkjunarframkvæmdir séu heimilar á viðkomandi svæði. Megintilgangur frumvarpsins er að meta á heildstæðan hátt alla virkjunarkosti sem til staðar eru og því er umrætt ákvæði í mótsögn við þann megintilgang. Gagnlegt hýtur að teljast þegar ákvörðun um friðlýsingu er tekin að sem fyllstar upplýsingar liggi fyrir um viðkomandi svæði.

Að öðru leyti er tekið undir umsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga frá 12. ágúst sl.”

b. Tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2010-2013. www.althingi.is/altext/139/s/0043.html, 42. mál.

Stjórn SASS ítrekar afstöðu sína frá 12. maí sl. til þessa máls.

c. Frumvarp til breytinga á raforkulögum, EES-reglur, 60. mál. www.althingi.is/altext/139/s/0061.html.

Eftirfarandi umsögn var samþykkt:

,,Stjórn SASS fagnar þeim breytingum að stórnotendum sé gert kleift að tengjast virkjunum beint án milligöngu flutningsfyrirtækja ásamt heimild um afslátt á úttektargjaldi sem numið getur allt að 60 %.

Stærsti hluti íslenskrar garðyrkju er á Suðurlandi og er áætlað að til hennar teljist um 350 störf á ársgrundvelli á starfssvæði SASS auk afleiddra starfa. Um 80 % af allri framleiðslu grænmetis og kornræktar fer fram á Suðurlandi. Rafmagnskostnaður þessara aðila hefur hækkað gífurlega á síðustu misserum sem á rætur sínar að rekja m.a. til þess að flutningskostnaður er nú orðinn um 55 % af heildarkostnaði. Raforkan er á samkeppnismarkaði, en RARIK er í einokunarstöðu gagnvart dreifingu.

Garðyrkjubændur hafa lagt á það áherslu að skilgreining dreifbýlis sé ekki réttlát leið þegar álagning á dreifingu er ákvörðuð, heldur sé eðlilegra að miða við notkun. Þessu til rökstuðnings má nefna að garðyrkjubændur í Laugarási nota um 15 sinnum meira rafmagn á ári en 200 manna íbúabyggð. Ef íbúabyggðin er með 200 íbúa eða fleiri skilgreinist hún sem þéttbýli og nýtur fyrir vikið betri kjara vegna minni dreifingarkostnaðar. Stjórn SASS telur eðlilegt og sanngjarnt að garðyrkjubændur verði skilgreindir sem ákveðinn flokkur stórnotenda og njót góðs af lágum dreifingarkostnaði miðað við orkunotkun en nú greiða þeir sömu gjöld á hverja orkueiningu vegna dreifingar og einstaklingar í dreifbýli (t.d. í Laugarási) þrátt fyrir það að nota margfalt meiri raforku.

12. Efni til kynningar.

a. Efni frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

b. Efni frá landshlutasamtökunum.

Fundi slitið kl. 14.15