fbpx

405. fundur stjórnar SASS haldinn að Austurvegi 56, miðvikudaginn 5. september 2007, kl. 16.00

Mætt: Gunnar Þorgeirsson, Margrét K. Erlingsdóttir, Elliði Vignisson, Aldís Hafsteinsdóttir, Jóna Sigurbjartsdóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir, Þórunn Jóna Hauksdóttir og Þorvarður Hjaltason framkvæmdastjóri sem ritaði fundargerð.

Gestir fundarins: Kristín Hreinsdóttir framkvæmdastjóri Skólaskrifstofu Suðurlands og Sveinn Aðalsteinsson verkefnisstjóri.

Dagskrá

1. Málefni Skólaskrifstofu Suðurlands.

Kristín Hreinsdóttir skýrði frá því að iðjuþjálfi hefur hafið störf í fullu starfi á vegum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Suðurlandi og sveitarfélaga í SASS, utan Vestmannaeyjabæjar, en þau greiða 20% rekstrarkostnaðarins. Skólaskrifstofan og sérfræðingar hennar koma að samstarfi við iðjuþjálfann fyrir hönd aðildarsveitarfélaganna. Hún ræddi einnig nauðsyn meira samstarfs skólaskrifstofunnar og félagsþjónustu sveitarfélaganna. Hún gerði síðan grein fyrir starfsemi Gaulverjaskóla, en tilraunaverkefninu þar lýkur um áramótin 2008 – 2009. Mikilvægt er að hennar mati að tryggja áframhald starfseminnar úti í skólunum að tilraunaverkefninu loknu. Hún taldi nauðsyn að breyta kostnaðarskiptingu sveitarfélaganna í ljósi breyttra áherslna í starfinu.

Stjórnin samþykkti að leita eftir áframhaldandi stuðningi ríkisins við verkefnið.

2. Háskólasetur á Suðurlandi.

Sveinn Aðalsteinsson verkefnisstjóri skýrði frá undirbúningi að stofnun Háskólafélags Suðurlands. Stefnt er að samstarfsneti ýmissa aðila, kennsluráðgjafa af hálfu ríkisins, sjálfstæðra rannsóknarstofnana á Suðurlandi, símenntunarmiðstöðva og erlendra háskóla í náinni samvinnu við atvinnulífið. Rætt var um hugsanlega staðsetningu, en mikil áhersla lögð á að um að samstarfsnet verði að ræða um allt Suðurland.

3. Fundargerð Menningarráðs Suðurlands frá 26. júní sl.

Til kynningar. Jóna Sigurbjartsdóttir formaður ráðsins skýrði frá starfsemi þess.

4. Fundargerð Fagráðs Sérdeildar Suðurlands, Vallaskóla, frá 29.maí sl.

Til kynningar.

5. Fundargerð Atvinnumálanefndar SASS frá 24. ágúst sl.

Fundargerðin staðfest. Stjórn SASS samþykkir að taka þátt í útgáfu kynningarblaðs um Suðurland ásamt fleiri aðilum með 100 þúsund króna framlagi.

6. Fundargerð Mennta- og menningarmálanefndar SASS frá 28. ágúst sl.

Fundargerðin staðfest.

7. Fundargerð Samgöngunefndar SASS frá 29. ágúst sl.

Fundargerðin staðfest.

Stjórn SASS tekur sérstaklega undir ályktanir nefndarinnar um Gjábakkaveg og Suðurlandveg:

Ályktun um Gjábakkaveg:

,,Samgöngunefnd SASS leggur áherslu á að að framkvæmdir við Gjábakkaveg hefjist sem fyrst og úrskurður umhverfisráðherra frá 10. maí sl. standi óbreyttur.”

Ályktun um Suðurlandsveg:

,,Samgöngunefnd leggur áherslu á að sveitarfélögin sem í hlut eiga, þ.e. Árborg, Hveragerði og Ölfus, ljúki skipulagsvinnu vegna vegarins sem fyrst. Jafnframt telur nefndin skynsamlegast að verkið verði unnið í einum áfanga.”

8. Hópferð á Opna daga sveitarstjórnarvettvangs ESB í haust.

Samþykkt að formaður og framkvæmdastjóri fari í umrædda ferð.

9. Bréf Samkeppniseftirlitsins, dags. 26. júní 2007, ásamt áliti stofnunarinnar vegna lénsins sudurland.is.

Stjórn SASS sér ekki sérstaka ástæðu til að bregðast við áliti Samkeppniseftirlitsins en vísar til þess að samningur SASS við Sunnan4 ehf og Eyjasýn ehf rennur út 31. desember nk. og verður ekki endurnýjaður.

Aldís vék af fundi.

10. Bréf frá Grímsnes- og Grafningshreppi, dags. 6. júlí 2007, þar sem þess er óskað að SASS vinni að samræmdri umsögn um frumvarp til laga um skyldur eigenda og leigjenda lóða í skipulagðri frístundabyggð.

Lögð fram álit Bláskógabyggða og Grímsnes- og Grafningshrepps. Stjórn SASS tekur undir athugasemdir sveitarfélaganna en bendir á að heppilegt hefði verið að senda samtökunum frumvarpsdrögin til umsagnar.

11. Erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 31. ágúst 2007, varðandi skipulags- og mannvirkjafrumvörp.

Samþykkt að formaður og framkvæmdastjóri sæki samráðsfund um málið sem haldinn verður á vegum sambandsins.

12. Bréf frá Umhverfisráðuneytinu, dags. 20. júní 2007, þar sem óskað er umsagnar um drög að reglugerð um hávaða.

Stjórn SASS gerir ekki athugasemdir við reglugerðardrögin, að öðru leyti en því að ekki er hægt að fallast á að eð eftirlit heilbrigðisnefnda með framkvæmd reglugerðarinnar sé undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar, sbr. 5. grein. Óeðlilegt er að blanda þannig saman verkefnum stofnana sveitarfélaga og ríkis.

13. Skerðing á aflaheimildum í Vestmannaeyjum.

Lagðar fram tillögur Vestmannaeyjabæjar að mótvægisaðgerðum.

Eftirfarandi ályktun var samþykkt:

,,Stjórn SASS styður eindregið hugmyndir Vestmannaeyjabæjar um mótvægisaðgerðir og hvetur ríkisstjórn til að leggjast á árarnar með heimamönnum. Í ljósi íbúaþróunar í Vestmannaeyjum og einhæfs atvinnulífs lýsir SASS enn fremur undrun sinni á því að ríkisstjórn skuli ekki hafa gripið til viðlíka aðgerða hvað Vestmannaeyjar varðar og Vestfirði þar sem aðstæður þessara tveggja svæða er afar svipaðar.

SASS felur framkvæmdastjóra að óska eftir því við fjármálaráðherra og ráðherra byggðamála að þeir gefi SASS svör við því sem fyrst í hvaða farveg tillögur heimamanna fara nú og þá hvort og hvenær aðgerða um hverja tillögu fyrir sig er að vænta. Stjórn SASS væntir þess að svör frá ráðherrunum liggi fyrir á næsta stjórnarfundi.

Greinargerð:

Að beiðni Vestmannaeyjabæjar hefur SASS og AÞS látið vinna úttekt á efnahagslegum áhrifum 30% niðurskurðar á þorskkvóta fyrir Vestmannaeyjar. Niðurstaða þessa mats er að efnahagsleg áhrif fyrir Vestmannaeyjar séu ekki undir 10 milljörðum á þremur árum (3,6 milljarðar á ári) og er Vestmannaeyjabær sá staður á landinu öllu sem verður fyrir þyngsta högginu vegna þessarar aðgerðar. Áfall þetta kemur á erfiðum tíma enda hefur íbúum í Vestmannaeyjum fækkað um nálægt 20% á seinustu 15 árum og eru

Vestmannaeyjar stærsta byggðarlag á Íslandi sem er að glíma við neikvæða íbúaþróun. Þá liggur og fyrir að Vestmannaeyjabær hefur í samvinnu við atvinnulífið í Vestmannaeyjum og Atvinnuþróunarfélag Suðurlands lagt fram drög að mótvægisaðgerðum þar sem fram koma tillögur um aðkomu ríkisins til að milda efnahagsleg áhrif skerðingarinnar.

14. Efni til kynningar

a. Fundargerð Atvinnuþróunarfélags Suðurlands frá 1. júní sl.

b. Fundargerðir Heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 19. júní og 2. september sl.

c. Fundargerðir stjórnar Skólaskrifstofu frá 29. júní og 22. ágúst sl.

d. Fundargerðir Sorpstöðvar Suðurlands frá 23. maí sl.

e. Efni frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

f. Efni frá landshlutasamtökunum.
Fundi slitið kl. 19.15

 

Gunnar Þorgeirsson

Margrét K. Erlingsdóttir

Elliði Vignisson

Aldís Hafsteinsdóttir

Jóna Sigurbjartsdóttir

Unnur Brá Konráðsdóttir

Þórunn Jóna Hauksdóttir

Þorvarður Hjaltason