fbpx

402. fundur stjórnar SASS

haldinn að Austurvegi 56, föstudaginn 20. apríl 2007, kl. 12.00

Mætt: Gunnar Þorgeirsson, Margrét K. Erlingsdóttir, Aldís Hafsteinsdóttir, Jóna Sigurbjartsdóttir, Ingvar P. Guðbjörnsson, Elliði Vignisson og Þorvarður Hjaltason framkvæmdastjóri sem ritaði fundargerð.

Þórunn Jóna Hauksdóttir og varamaður hennar boðuðu forföll.

Gestur fundarins: Kristján Vigfússon ráðgjafi.

Dagskrá

1. Endurskoðun á stjórnskipulagi SASS og AÞS.

Gunnar Þorgeirsson og Kristján Vigfússon skýrðu frá hugmyndum að fyrirhugaðri vinnu. Stefnt er að sameiginlegum fundi stjórna SASS og AÞS.

2. Bréf frá Sveitarfélaginu Árborg, dags. 28. mars 2007, þar sem gerð er athugasemd um fundartíma aðalfundar SASS 1. og 2. nóvember nk.

Lagt fram og rætt.

3. Bréf frá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, dags. 6. febrúar 2007, þar sem óskað er stuðnings við rannsókn á snefilefnum á neysluvatni og hitaveituvatni á Suðurlandi.

Styrkbeiðninni hafnað.

4. Tillaga um orkuframleiðslu og orkunýtingu á Suðurlandi.

Eftirfarandi tillaga var lögð fram:

,,Samtök sunnlenskra sveitarfélaga vekja athygli á breyttum aðstæðum sem hafa skapast í orkumálum á Íslandi vegna niðurstöðu nýafstaðinnar kosningar í Hafnarfirði sem hefur stöðvað frekari stækkunaráform Alcan í Straumsvík og þar með fyrirhugaða aukna orkusölu Landsvirkjunar til fyrirtækisins.

Í ljósi þessa telja samtökin eðlilegt að raforka frá virkjunum sem kunna að verða reistar á Suðurlandi verði nýtt til orkufreks iðnaðar á Suðurlandi, en nú þegar eru uppi áform um slíka atvinnustarfsemi. Til þess liggja margvísleg rök. Langstærstur hluti þeirrar raforku sem framleidd hefur verið á Íslandi hefur komið frá virkjunum á Suðurlandi en orkan hefur hingað til verið nýtt til atvinnuuppbyggingar í öðrum landshlutum. Því er eðlilegt og rétt að grípa tækifærið sem nú gefst til að nýta orkuna í héraði. Þá benda samtökin á að með því að nýta orkuna sem næst virkjunum verða flutningslínur styttri og ódýrari. Styttri flutningslínur leiða einnig til minna orkutaps og minni sjónmengunar sem hvort tveggja er æskilegt vegna umhverfissjónarmiða.

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga leggja því mikla áherslu á að sú orka sem kann að verða virkjuð á Suðurlandi á næstu árum verði nýtt í héraði.”

Tillagan samþykkt með 5 atkvæðum.

Margrét Erlingsdóttir greiddi atkvæði á móti og lagði fram eftirfarandi bókun:

,, Ég tel ótímabært og óvarlegt að stjórn SASS álykti um nýtingu á raforku frá hugsanlegum virkjunum á Suðurlandi á þessari stundu. Afstaða sveitarfélaga á samstarfssvæði SASS um þær virkjanir sem eru í umræðunni liggur ekki fyrir og er málið á mjög viðkvæmu stigi í umræðunni. Þau sveitarfélög sem koma að virkjanasvæðum í neðri hluta Þjórsár, Ásahreppur, Flóahreppur og Skeiða- og Gnúpverjahreppur eiga ekki fulltrúa í stjórn SASS og tel ég skyldu stjórnar SASS að kanna vilja þessara sveitarfélaga nánar áður en ályktun af þessu tagi verði afgreidd. Í nýlegri skoðanakönnun sem gerð var meðal Sunnlendinga um virkjanir í neðri hluta Þjórsár kom fram að 57% aðspurðra voru á móti virkjunaráformum.

Í samstarfssamningi meirihlutaflokkanna í sveitarfélaginu Árborg kemur fram; Fulltrúar meirihlutaflokkanna í bæjarstjórnar Árborgar telja samstarf sveitarfélaga á Suðurlandi mikilvægt og að Árborg gegni veigamiklu hlutverki sem stærsta sveitarfélagið í héraðinu. Ég tel það skyldu okkar í stjórn SASS að líta til alls svæðisins þess vegna get ég sem varaformaður SASS alls ekki stutt þessa ályktun. “

Aðrir stjórnarmenn lögðu fram eftirfarandi bókun:

,,Framkomin ályktun er í fullu samræmi við ítrekaðar ályktanir aðalfundar SASS. Stjórn SASS ber að framfylgja vilja aðalfundar. Í umræddri ályktun stjórnar SASS er hvergi getið um virkjanir í neðrihluta Þjórsár. Ein stærsta virkjun Íslands er aftur á móti þegar staðreynd á Hellisheiði og frekari áform eru þar um stækkun. Það er skýlaus og sjálfsögð krafa Sunnlendinga að sunnlensk orka sé nýtt á svæðinu. “

5. Tillaga um framhaldsskóla í Rangárvallasýslu.

Eftirfarandi ályktun var samþykkt:

,,. Stjórn SASS fagnar hugmyndum sveitarstjórnarmanna í Rangárþingi um aukið aðgengi íbúa að framhaldsmenntun. Á Suðurlandi eru nú þegar starfandi öflugir framhaldsskólar og mikilvægt að íbúar á Suðurlandi hafi greiðan aðgang að framaldsmenntun.”

6. Skipan 5 manna menningarráðs Suðurlands.

Frestað til næsta fundar.

Elliði vék af fundi.

7. Bréf frá umhverfisnefnd Alþingis, dags. 20. mars 2007, þar sem óskað er umsagnar um frumvarp til skipulagslaga, 661. mál heildarlög og frumvarpt til laga um mannvirki, 662. mál, heildarlög.

Samþykkt að óska eftir áliti embættismanna sveitarfélaganna á frumvörpunum.

8. Ársskýrsla Fræðslunets Suðurlands 2006.

Stjórn SASS lýsir yfir ánægju með öfluga starfsemi, greinargóða skýrsla og góða rekstrarafkomu.

9. Efni til kynningar.

a. Fundargerð Atvinnuþróunarfélags Suðurlands 2. mars sl.

b. Fundargerðir Heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 6. mars og 17. apríl sl.

c. Fundargerð Sorpstöðvar Suðurlands frá 26. mars sl.

d. Fundargerð Skólaskrifstofu Suðurlands frá 28. mars sl.

e. Efni frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Fundi slitið kl. 14:35

Gunnar Þorgeirsson

Margrét Erlingsdóttir

Ingvar P. Guðbjörnsson

Elliði Vignisson

Aldís Hafsteinsdóttir

Jóna Sigurbjartsdóttir

Þorvarður Hjaltason