fbpx

401. fundur stjórnar SASS haldinn að Austurvegi 56, Selfossi, miðvikudaginn 7. mars 2007, kl. 17.00

Mætt: Gunnar Þorgeirsson, Margrét K. Erlingsdóttir, Aldís Hafsteinsdóttir, Jóna Sigurbjartsdóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir, Snorri Finnlaugsson og Þorvarður Hjaltason framkvæmdastjóri sem ritaði fundargerð. Elliði Vignisson boðaði forföll.

Í uppafi fundar leitaði formaður afbrigða og lagði fram bréf frá Birni B. Jónssyni varaformanni SASS, dags. 7. mars 2007, þar sem hann óskaði eftir að víkja sæti fram að næsta aðalfundi samtakanna. Ósk hans var samþykkt og um leið þakkaði stjórn honum fyrir ánægjulegt samstarf. Stjórnin samþykkti að Margrét Katrín Erlingsdóttir tæki við sem varaformaður, en hún kemur inn í stjórnina í stað Björns.

Dagskrá

1. Fundargerð Mennta- og menningarmálanefndar SASS frá 13. febrúar sl.

Fundargerðin staðfest.

2. Fundargerð Atvinnumálanefndar SASS frá 19. febrúar sl.

Fundargerðin staðfest.

3. Fundargerð Samgöngunefndar SASS frá 20. febrúar sl.

Fundargerðin staðfest

4. Fundargerð Velferðarmálanefndar frá 7. mars.

Fundargerðin staðfest.

5. Fundargerð Fagráðs Sérdeildar Suðurlands, Vallaskóla, frá 22. febrúar sl.

Til kynningar.

6. Bréf frá Fræðsluneti Suðurlands, dags. 28. febrúar 2007, þar sem óskað er áframhaldandi samstarfs vegna Vísinda- og rannsóknasjóðs FnS.

Samþykkt að styrkja starfsemi sjóðsins áfram næstu 5 árin með árlegu 250 þúsund króna framlagi.

7. Menningarsamningur Suðurlands.

Staða mála kynnt. Formaður og framkvæmdastjóri áttu fund með menntamálaráðherra og starfsmönnum ráðuneytisins 21. febrúar sl. um málið. Niðurstaða fundarins var sú að stefnt skyldi að sérstökum menningarsamningi fyrir Suðurland og frá honum yrði gengið á næstu vikum. Lögð fram drög að samningi á milli ráðuneytisins og sveitarfélaganna sem send verða ráðuneytinu. Einnig samþykkt að senda drög að samstarfssamningi sveitarfélaganna til aðildarsveitarfélaganna til staðfestingar.

8. Málþing um atvinnumál 30. mars nk.

Drög að dagskrá lögð fram og kynnt.

9. Ákvörðun um fundarstað aðalfundar 2007.

Samþykkt að halda aðalfundinn á Kirkjubæjarklaustri 1. og 2. nóvember nk.

10. Umsögn SASS um samgönguáætlun.

Stjórn SASS hefur samþykkt eftirfarandi umsögn og sent Samgöngunefnd Alþingis:

,,Samtök sunnlenskra sveitarfélaga lýsa yfir ánægju með þá stefnu um stóraukið fjármagn til samgöngumála sem fram kemur í þingsályktunartillögunni.

Samtökin fagna stórauknum framlögum til Suðurlandsvegar og leggja áherslu á í að um leið og tillagan hefur verið samþykkt verði hafist handa og auglýst eftir tilboðum í samræmi við þá heimild til einkafjármögnunar sem felst í tillögunni. Um fjögurra akreina veg verði að ræða. Sama á við um tillögu um Bakkafjöruhöfn og fagna samtökin þeim mikla vilja sem fram kemur í tillögunni til að bæta samgöngur við Vestmannaeyjar. Einnig fagna samtökin því stóraukna fjármagni sem ætlað er til uppbyggingar tengivega en mikilvægi þeirra hefur aukist verulega á undanförnum árum.

Samtökin lýsa þó vonbrigðum með þann hægagang sem áætlaður er við uppbyggingu Suðurstrandarvegar, en fyrirheit um lagningu hans voru gefin við kjördæmabreytinguna árið 1999 og telja samtökin því eðlilegt að framkvæmdum við hann ljúki á næstu 4 árum. Jafnframt benda samtökin á þörf fyrir jarðgöng í gegnum Reynisfjall og einnig á uppbyggingu Kjalvegar. Nauðsynlegt er að á 12 ára áætlun verði gert ráð fyrir fjármunum til undirbúnings þessara framkvæmda.”

Fram kom að formaður og framkvæmdastjóri fóru á fund samgöngunefndar Alþingis til að gera nánari grein fyrir afstöðu samtakanna.

11. Sameiginleg ályktun stjórna SASS og SSS um Suðurstrandarveg.

Stjórnir SASS og Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum hafa samþykkt eftirfarandi ályktun um Suðurstrandarveg í tengslum við tillögu að 12 ára samgönguáætlun, og sent samgöngunefnd Alþingis:

,,Samtök sunnlenskra sveitarfélaga og Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum lýsa vonbrigðum með tillögu um fjármagn til uppbyggingar Suðurstrandarvegar í nýframkominni tillögu að 12 ára samgönguáætlun. Samkvæmt tillögunni er ekki gert ráð fyrir að framkvæmdum ljúki fyrr en á 3. tímabili áætlunarinnar eða á árunum 2015 – 2018.

Eftirfarandi athugasemdir eru gerðar af þessu tilefni:

Fyrirheit um lagningu Suðurstrandarvegar voru gefin í tengslum við kjördæmabreytinguna árið 1999 og jafnframt að fjárframlög til hans hefðu ekki áhrif á fjárveitingar til annarra samgönguframkvæmda í hinu nýja kjördæmi. Framkvæmdin var talin eðilegur þáttur í að gera kjördæmið að einni landfræðilegri heild.

Ef samgönguáætlunin gengur eftir að þessu leyti þá er ljóst að framkvæmdir við veginn munu taka um 15 ár áður en hægt er að taka hann í notkun. Jafnframt er ljóst að að þeir kaflar hins nýja vegar sem smám saman munu verða tilbúnir munu hafa afar takmarkað notkunargildi fyrr en vegarlagningunni er að fullu lokið. Af þessu má ljóst vera að óeðlilega langur tími líður þar til að það fjármagn sem lagt verður í veginn fer að skila þeim samfélagslega arði sem því er ætlað og verður að átelja slíka meðferð opinberra fjármuna.

Lagning Suðurstrandarvegar er brýnt hagsmunamál fyrir Sunnlendinga og Suðurnesjamenn. Auk þess sem nefnt hefur verið í lið 1, er ljóst að lagning vegarins hefur mikla þýðingu í atvinnulegu tilliti, einkum fyrir ferðaþjónustu og sjávarútveg sem hafa verulegan hag af hinum nýja vegi. Þá er vegarlagningin ennig mikilvæg öryggisaðgerð. Reykjanesskaginn, þ.m.t. höfuðborgarsvæðið er eldvirkt svæði og því mikilvægt að vera ekki háð einni eða fáum samgönguleiðum.

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga og Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum leggja því þunga áherslu á að lagningu Suðurstrandarvegar verði hraðað og henni lokið á næstu 4 árum án þess að það hafi áhrif á aðrar samgönguframkvæmdir í kjördæminu”.

12. Afrit af bréfum Sveitarfélagsins Árborgar til Alþingis og ríkisstjórnar, varðandi samgöngumál.

Lögð fram til kynningar.

13. Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga ásamt minnisblaði, dags. 14. febrúar 2007, varðandi stöðu héraðsnefnda.

Til kynningar.

14. Efni til kynningar.

a. Fundargerðir Sorpstöðvar Suðurlands frá 5. og 22. febrúar sl.

b. Fundargerð Heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 6. febrúar sl.

c. Fundargerð Skólaskrifstofu Suðurlands frá 28. febrúar sl.

d. Efni frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga

e. Efni frá landhlutaamtökunum.

Fundi slitið kl. 19.10

Gunnar Þorgeirsson
Margrét K. Erlingsdóttir

Aldís Hafsteinsdóttir
Jóna Sigurbjartsdóttir

Unnur Brá Konráðsdóttir
Snorri Finnlaugsson

Þorvarður Hjaltason